04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hans, þótt afar mögur væru. Hann var ákaflega leiður, að svona skyldi hafa tekist til, en í svari hans og orðum lá ekkert vilyrði fyrir því, að reynt yrði til hins ítrasta að ráða bót á þessu ófremdarástandi. Hann ræddi um, að ummæli sín hefðu verið misskilin í svari við fsp. frá mér um þessi mál, hvernig Húsnæðismálastofnunin mundi anna lánsfjárþörf húsbyggjenda fram til áramóta. Menn hefðu misskilið svar sitt. Svar hans misskildist ekki að neinu leyti. Hins vegar fer hann þar með allt aðrar tölur um fjölda umsækjenda og lánshæfra íbúða heldur en raun hefur á orðið, og það verð ég að segja, að tæplega hefur hann afsökun í því efni, því að t. d. í álitsgerð, sem Hannes Pálsson, reyndasti maður í húsnæðismálastjórn, sendi frá sér, þá hygg ég, að hann hafi gert ráð fyrir, að lánshæfar íbúðir yrðu yfir 800, og ég man ekki betur en að í grein, sem einn stjórnarmanna, Gunnar Helgason, ritaði, hafi verið gert ráð fyrir allt að 600. Og það hefði verið betur, að í þessu efni hefði hæstv. ríkisstj. skipað talninganefnd, eins og hún er búin að gera eftir upplýsingum, sem fram komu hér á Alþingi í gær, varðandi þá, sem skortir til starfa í verstöðvum suðvestanlands, og virtist vera eina úrræðið í því mikilvæga máli, sem ríkisstj. hafði á prjónunum. Þetta misskildist ekki neitt. Það var fullyrt þar, að vísu miðað við þessa tölu, að þær aðgerðir hefðu verið hafðar í frammi, að Byggingarsjóður mundi geta veitt lán til þessara aðila.

Ég vil aðeins varpa því fram, vegna þess að ég hef heyrt það á skotspónum, að svo hafi verið ráð fyrir gert, að ríkissjóður greiddi 1 millj. kr. skuld við Atvinnuleysistryggingasjóð, sem hann átti að greiða fyrir árið 1972, en greiddi ekki, og að Atvinnuleysistryggingasjóður hefði fallist á fyrir sitt leyti, að þetta rynni til Byggingarsjóðs til útlána. Ég vil nú inna eftir því, hvort ekki sé von til þess, að þessar 100 millj. kr. verði greiddar eins og lög gera ráð fyrir, og að því er ég best veit, hefur því verið vel tekið af stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, að þetta fjármagn rynni til útlána hjá Byggingarsjóði. Þetta mundi bæta verulega úr, og e. t. v., af því að ekki eru öll lán hafin af þeim, sem lofað er, mundi þetta nægja svo til alveg til þess að bæta úr því neyðarástandi, sem ég fullyrði að ríki hjá mörgum húsbyggjandanum, því að það liggur alveg ljóst fyrir, að allur fjöldi þeirra hefur fengið fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum með það loforð eða með þá einlægu von í huga að geta staðið í skilum fyrir áramót. Og vissulega, þrátt fyrir það, sem má lesa úr reglum um Húsnæðismálastofnunina, þá gátu umsækjendurnir gert sér fyllstu vonir um það, að við umsóknum þeirra yrði orðið. Það hafði þannig til tekist á s. l. ári, þannig hafði verið undir allt málið tekið og þannig hafði hæstv. ráðh. bæði á ráðstefnu á Dalvík og eins hér í þingi talað, að umsækjendur mættu gera sér fyllstu vonir um það, að þetta mundi takast. Á þessu hefur verið byggt, og ég er sannfærður um, að þetta muni hafa hinar verstu afleiðingar upp á framtíðina. Að sjálfsögðu liggur það ljóst fyrir, að lánastofnanir fá ekki greitt, en það verður til þess, að miklu meiri tregðu gætir í þessu á næsta ári og á næstu árum.

Þar sem ræðutíma mínum er nú lokið, þá lýk ég máli mínu, en ég endurtek þá einlægu von mína, að þegar í stað verði gripið til einhverra ráða til þess að ráða bót á þessu gífurlega mikla vandamáli.