04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

382. mál, fjármagn og fjármagnsöflun til niðursuðuverksmiðja

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Guðnason ber hér fram 3 fsp. í 8 undirliðum um málefni lagmetisiðnaðarins, og er mér það vissulega fagnaðarefni, að nýstofnaður frjálslyndur flokkur skuli sýna áhuga á þessum mikilvægu iðngreinum. Þessar spurningar heyra nú raunar að forminu til ekki allar undir mig, en ég mun samt reyna að sýna lit á því að svara þeim, eftir því sem vitneskja mín hrekkur til.

Í fyrstu spurningunum er spurt um það, hvaða fjármagn niðursuðuverksmiðjur í landinu hafi fengið til uppbyggingar og endurhóta á tímabilinu 1972–1973, og í annan stað, hvaða fjárfestingarsjóður eigi að veita lán til slíkra framkvæmda.

Þegar unnið var að undirbúningi frv. til l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, var í athugun hjá iðnrn. varanleg lausn á lánamálum iðnaðarins í heild og þessi málaflokkur var því ekki tekinn sérstaklega fyrir við samningu frv.

Það verður að játa, að lánamál lagmetisiðnaðarins hafa að undanförnu verið í æðimiklu ólagi. Á Íslandi er enginn sjóður, sem telur sig hafa beinar skyldur við þessa iðngrein, þótt vissulega hafi tekist að auka lán til þessarar iðngreinar allverulega. Iðnlánasjóður hefur veitt lítilsháttar til lagmetisverksmiðja á undanförnum tveimur árum, en vegna þess að þær hafa ekki greitt iðnlánasjóðsgjald flestar þeirra, þá hefur það yfirleitt verið afstaða sjóðsstjórnarinnar, að Iðnlánasjóði bæri ekki að veita lán til fjárfestingar í lagmetisiðnaði. Aðalfjárfestingarsjóður sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóður, hefur einnig vísað frá sér öllum lánbeiðnum niðursuðuverksmiðja. Mér er kunnugt um, að Sölustofnun lagmetisiðnaðarins sneri sér til þessa sjóðs með ósk um fyrirgreiðslu fyrir þessa iðngrein, en hann vísaði öllum málaleitunum frá á þeirri forsendu, að honum bæri ekki að lána til lagmetisiðnaðar.

Allnokkur fyrirgreiðsla hefur fengist hjá Byggðasjóði, þó með þeim takmörkunum, að Byggðasjóður lánar ekki til fyrirtækja á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Einnig hefur fengist fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og Iðnþróunarsjóður hefur veitt lán til einnar verksmiðju. Mjög nauðsynlegt er að vinna hér á bráða bót, og er unnið að lausn þessa vandamáls innan ramma heildarathugana iðnrn. á lánamálum íslensks iðnaðar.

Það liggur í augum uppi, að lagmetisiðnaðinum ber sama lánafyrirgreiðsla og sama aðstaða og öðrum framleiðslugreinum. Það verður að tryggja honum lánafyrirgreiðslu til fjárfestingar og sjá svo um, að ákveðin lánastofnun hafi skyldur gagnvart þessari iðngrein. Er það stefna iðnrn., að Iðnlánasjóður annist það hlutverk í framtíðinni, og því hef ég farið þess á leit við stjórn Iðnlánasjóðs, að hún afgreiði umsóknir, sem þar liggja nú fyrir frá lagmetisfyrirtækjum í samræmi við þessa stefnu. En þá verða þau fyrirtæki að sjálfsögðu að standa undir sjóðnum eins og önnur iðnfyrirtæki með greiðslu iðnlánasjóðsgjalds.

Að því er varðar þá heimild, sem er í l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins og hv. fyrirspyrjandi minntist á, heimild til 100 millj. kr. lántöku, þá er það að sjálfsögðu mál stjórnar þeirrar stofnunar að gera till. um slíka lántöku, ef æskileg væri talin. Engar slíkar till. hafa borist frá stjórninni til mín, en ef þær bærust, þá mundi ég að sjálfsögðu athuga, hvað hægt væri að gera í sambandi við slíkar óskir.

En það er ýmislegt annað, sem þarf að athuga í þessu sambandi. Það nær til að mynda engri átt, að lagmetisiðnaðurinn greiði um 6.5% útflutningsgjald til hinna ýmsu sjóða sjávarútvegsins, sé tekið tillit til þess, að hann nýtur þar engrar fyrirgreiðslu, eins og ég gat um áðan. Þessi gjöld skerða auk þess mjög samkeppnisaðstöðu iðnaðarins á erlendum mörkuðum. Lagmetisiðnaðurinn greiðir, eins og ég sagði áðan 6.5% í útflutningsgjöld, og er það lítil raunabót, þó að hluti af þessum tekjum renni í þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins um stundarsakir, eins og í lögunum greinir. Umrædd útflutningsgjöld skiptast í stórum dráttum í eftirfarandi liði:

a) Til greiðslu á vátryggingargjöldum fiskiskipa.

b) Til Fiskveiðasjóðs Íslands.

c) Til Fiskimálasjóðs.

d) Til smíði haf- og fiskirannsóknaskipa.

e) Til Aflatryggingasjóðs.

f) Í fæðiskostnað bátasjómanna.

g) Í ferskfiskmatsgjald.

Hlýtur að vera dálítið torvelt að skilja, hvers vegna lagmetisiðnaðurinn á sérstaklega að standa undir greiðslum til þessara þarfa. En þessi mál eru, eins og ég sagði áðan, í endurskoðun samhliða öðrum þáttum lánamála iðnaðarins.

Það fjármagn, sem lagmetisverksmiðjurnar í landinu hafa þó fengið til uppbyggingar og endurbóta á tímabilinu 1972–1973, skiptist sem hér segir:

Á tímabilinu 1972–1973 hafa niðursuðuverksmiðjurnar fengið lán alls að upphæð 20 millj. og 500 þús. kr., árið 1972 8.8 millj. kr. og árið 1973 11 millj. 250 þús. kr. Lán þessi voru veitt úr eftirtöldum sjóðum: Úr Byggðasjóði 6.1 millj. 1972 og 4.5 millj. 1973, eða alls 10.6 millj. Úr Atvinnuleysistryggingasjóði ekkert árið 1972, 3.5 millj. árið 1973, eða alls 3.5 millj. Úr Iðnlánasjóði 1.5 millj. árið 1972, 3 millj. á árinu 1973 enn sem komið er, eða alls 4.5 millj. Úr Fiskimálasjóði 1.2 millj. 1972, 250 þús. 1973, eða alls 1 millj. og 450 þús. kr.

Þannig er með þessa lánveitingu: á árinu 1972 samtals 8.8 millj., eins og ég sagði áðan, en á árinu 1973 11 millj. 250 þús. kr. Auk þess greiddi Iðnþróunarsjóður út á árinu 1972 helming samþykktra lánveitinga ársins 1973, 6 millj. kr. af 12 millj. kr. lánveitingu, þannig að alls er hér um að ræða 32 millj. kr. þessi tvö ár.

Lánin hafa einkum verið veitt fyrirtækjum til fjárfestingar og endurskipulagningar, en í einstaka tilfellum til greiðslu vanskilaskulda.