04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

385. mál, Norðurstjarnan

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 3. landsk., Bjarna Guðnasonar, á þskj. 141 er svo hljóðandi:

Á aðalfundi Norðurstjörnunnar h/f í Hafnarfirði, sem haldinn var í júní s. l., var ákveðið að auka hlutafé fyrirtækisins úr tæpum 16 millj. í 80 millj. Hlutafjáraukningin fór þannig fram, að skuldum fyrri félagsins var breytt í hlutafé, þannig að um eiginlegt innborgað hlutafé var ekki að ræða. Samkv. þessu var ákveðið að breyta skuldum Norðurstjörnunnar við Ríkisábyrgðasjóð að fjárhæð 24 millj. kr. í hlutafé. Jafnframt var skuldum fyrirtækisins við Framkvæmdasjóð að fjárhæð 35 millj., breytt í hlutafé. Bæjarsjóður Hafnarfjarðar á 5 millj. og ýmsir hluthafar 16 millj., í hlutafé. Samkv. þessu er ríkissjóður eigandi að 30% hlutafjárins og Framkvæmdasjóður eigandi að 43.75%, eða samtals ríkissjóður og Framkvæmdasjóður með 73.75% af hlutafé Norðurstjörnunnar. Um það, hvort fyrirtækið hafi orðið ríkisfyrirtæki, sbr. orðalag fsp., við þessar aðgerðir, er það að segja, að auðvitað heldur það áfram að vera hlutafélag, þó að ríkið sé ásamt Framkvæmdasjóði eigandi að meiri hluta hlutafjárins. Það verður engin formbreyting þar á.

Svar við hinum lið fsp.: 12½ millj. kr. hefur verið lánuð til Norðurstjörnunnar á þessum tíma. Af því hefur 7 millj. kr. verið breytt í hlutafé, en 5.5 millj. kr. standa eftir sem skuld. Þessi lánveiting var aðallega á árinu 1972. Ég man ekki eftir, að það hafi verið um neitt hlutafé að ræða á yfirstandandi ári. En það er innifalið í því, sem ég sagði áðan um hlutafjáraukninguna.

Varðandi Sölustofnun lagmetisiðnaðarins er það að segja, að í lögum um þá stofnun segir, að 25 millj. skuli greiða til hennar á ári næstu 5 árin. Þetta kom fyrst inn á fjárlög 1972. Þá gera lögin um Lagmetisiðjuna ráð fyrir, að ríkissjóður leggi henni til 15 millj. til endurnýjunar vélakosts og fleira og skuli það framlag skiptast á þrjú ár. Kemur fyrsta greiðsla á fjárlög 1974.

Þetta vona ég, að fullnægi fyrirspyrjanda.