25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

347. mál, landhelgismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu hæstv. utanrrh., að sérfróðir menn hafi verið settir til þess að vinna skýrslu á grundvelli þeirra gagna, sem við vitum, að a. m. k. Bretar og sennilega Þjóðverjar líka hafa lagt fyrir dómstólinn í Haag. Það er ekki ljóst, hvort hugsanlegir samningar við þessar tvær þjóðir hafi áhrif á framhald málanna í Haag, og e. t. v. er ekki hyggilegt að hefja umr. um það núna. En hvort sem málið heldur áfram eða ekki og hvort sem ríkisstj. velur þann kost að senda menn til Haag eða senda þangað skjöl, eins og hún hefur gert, þá tel ég mjög mikilsvert, að okkar bestu sérfræðingar semji grg. sem svar við því, sem hinar þjóðirnar, ákærendur, hafa lagt fyrir dómstólinn, og að íslensk grg. verði undir öllum kringumstæðum birt, þó að það verði aðeins sem hvít bók eftir á. Ég hef lesið þá bók, sem Bretar hafa lagt fyrir dómstólinn, og það er sýnilega plagg, sem er unnið af heilum hópi sérfróðra manna, sem ekkert hafa gert annað í marga mánuði. Og þó að það sé hægt að rífa margt þar í tætlur, þá er málið þess eðlis, að það plagg blífur, og það verður að vera til íslenskt plagg með fullum andsvörum, hvernig sem áframhald málsins verður.