06.12.1973
Efri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á 10 fiskiskipum yfir 300 lestir.

Hér er um að ræða fiskiskip til nóta- og togveiða, eins og segir í grg., en þessi skip eru fyrst og fremst ætluð til loðnu- og síldveiða. Hér er sem sagt um það að ræða að veita þá fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins, að unnt sé að kaupa þessi skip með 80% lánum, en eins og kunnugt er, þá gildir sú regla hjá Fiskveiðasjóði varðandi önnur skip, að hann lánar 67% af andvirði skipanna, og einnig hefur áður verið í gildi, hvað snertir skutbyggða togara, að unnt hefur verið að fá 80% lán, þ. e. a. s. 13% ríkisábyrgð, til viðbótar láni Fiskveiðasjóðs, þegar um kaup á þeim hefur verið að ræða erlendis frá.

N. hefur athugað þetta frv. og er einróma sammála um að mæla með, að það nái fram að ganga, en tveir nm. voru fjarstaddir afgreiðslu málsins, eins og fram kemur í nál., þeir Jón Árm. Héðinsson og Björn Jónsson.

N. bárust tilmæli frá fjmrn. þess efnis, að tekið yrði inn í þetta frv., sem við erum hér að ræða um, sérstök grein, sem heimili sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs fyrir allt að 80% kaupverðs ferjuskips til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur.

Í sjálfu sér er ekki hægt að neita því, að málin, sem hér um ræðir, eru skyld, þar sem um er að ræða í báðum tilvikum sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði skipa. En eins og átti við í því máli, sem hér var á dagskrá á hinum fyrra fundi, þá er hér um að ræða bón af hálfu fjmrn., sem er að sjálfsögðu nokkuð seint á ferðinni, og kannske er ekki að öllu leyti eðlilegt, að mál hafi þann ganginn, að verið sé að smeygja þeim inn í frv. um önnur efni, þegar verið er að afgreiða þau hér milli umræðna í þinginu. En stundum verður samt að grípa til slíkra úrræða, og n. er sammála um, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, og mælir með því, að frv. verði því samþ. með tiltekinni breytingu, sem prentuð er á þskj. 187, á þann veg, að ný grein bætist við frv. þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði ferjuskips til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur, og að fyrirsögn frv. breytist í samræmi við þetta.