05.09.1974
Efri deild: 19. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku var borið fram á s.l. þingi, og mælti þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, fyrir því 27. mars. Frv. náði ekki afgreiðslu var aftur flutt á þessu þingi og mælti sami ráðh. fyrir málinu 14. ágúst. Í þessum tveim ræðum gerði hann ítarlega grein fyrir nauðsyn frv., á hverju það væri byggt. Grg. frv. er einnig allítarleg, og get ég því sparað mér ítarlega ræðu um málið, en meginefni þess er það, að lagt verði á 13% verðjöfnunargjald af seldri raforku á síðasta stigi, sem renni til Orkusjóðs og þetta fé sé notað til að greiða halla Rafmagnsveitna ríkisins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkisstofnunin Rafmagnsveitur ríkisins er þannig upp byggð, að það er útilokað, að hún geti borið sig sjálf, hún er fyrst og fremst hugsuð sem líður í byggðastefnunni, líður í þeirri viðleitni að tryggja jafnvægi í byggð landsins. Þær rafmagnsveitur, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa með höndum eru yfirleitt óhagstæðari en aðrar, sem reknar eru fyrir þéttbýll. og bæði vinnslu- og dreifingarkostnaður með þeim hætti, að ekki er von til þess, að gjöld fyrir raforkuna geti staðið þar að fullu undir. Þess vegna hefur þurft með nokkurra ára millibili að leita til Alþingis um sérstaka fjáröflun í þessu skyni.

Í grg. þessa frv. kemur fram, að fjárvöntun vegna rekstrarhalla 1972 og 1973 sé hvorki meira né minna en 294 millj. kr. Það hefur komið í ljós, eftir að þessar áætlanir voru gerðar og frv. samið, að hallinn í ár, 1974, og áætlaður halli á árinu 1975 verði töluvert meiri en gert var ráð fyrir við samningu frv. Ég vil leyfa mér að lesa hér úr grg. þeirra tveggja ráðuneytisstjóra, sem að undanförnu hafa farið yfir málið að nýju, það eru ráðuneytisstjórarnir í iðnrn. og fjmrn., og þar segir m.a. á þessa leið:

„Halli Rafmagnsveitna ríkisins á næsta ári, 1975, var á þeim tíma, er frv. var samið, áætlaður 257 millj. kr. En eins og mál horfa nú, mun halli rafmagnsveitnanna í ár nema um 400 millj. kr., og hallinn á næsta ári, 1975, er líklegur til að nema 514 millj. kr.“

Síðan segja ráðuneytisstjórarnir: „Orsakir stóraukins halla má rekja til hækkunar launa, fyrirsjáanlegrar hækkunar vaxta og afborgana, þar sem lántökur til RARIK árið 1974 eru um 500 millj. kr. hærri en reiknað var með, þegar hallatalan 257 millj. var reiknuð út.“

Það er því ljóst, að hafi verið þörf fyrir þetta 13% gjald á s.l. vetri, þá er þörfin enn meiri nú. Þess vegna var till. sérfræðinganna, að verðjöfnunargjald í frv. yrði hækkað úr 13% upp í 15% og mundi þó samt sem áður ekki nægja að fullu til að jafna þennan halla. Ríkisstj. taldi hins vegar ekki efni til þess að hækka gjaldið frá því, sem er í frv., og leggur til, að það verði samþ. að þessu leyti óbreytt eins og það var lagt fram af fyrrv. ríkisstj.

Í meðförum Nd. hafa verið gerðar nokkrar breytingar, aðallega til að gera skýrari ýmis ákvæði varðandi framkvæmdina, innheimtu og skil á þessu gjaldi, og enn fremur ákveðið, að húshitun skuli undanþegin þessu gjaldi. Það er ljóst og væntanlega allir sammála um, að stuðla beri sem mest að notkun innlendra orkugjafa til húshitunar, bæði með jarðhita og með raforku, til þess að spara hið erlenda eldsneyti, einkum eftir að olía hefur hækkað svo mjög í verði sem raun ber vitni um. Þess vegna þótti rétt að taka fram skýrum stöfum í frv. og ganga út frá því, að húshitun verði hér undanþegin. Þá var einnig gerð sú breyting í Nd., að sú þriggja manna stjórn, sem fer með yfirstjórn rafmagnsveitnanna undir yfirstjórn ráðh. og hefur verið skipuð þrem mönnum, skuli skipuð fimm mönnum. Það er til samræmis við það meginsjónarmið, að fleiri sjónarmið en ella komi fram í þeirri stjórn. Það er þannig nú um hliðstæðar stofnanir, að t.d. er stjórn Landsvirkjunar skipuð 7 mönnum, stjórn Laxárvirkjunar 5 mönnum, og hefur því þótt rétt að gera hér breytingu á. Sú þriggja manna stjórn, sem skipuð var á þessu ári, mun því halda áfram störfum um fjögurra ára bil, eins og gert er ráð fyrir í 14. gr., en tveim mönnum bætt við.

Ég ætla, að ekki þurfi að hafa fleiri orð um þetta mál. en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og iðnn.