28.07.1974
Sameinað þing: 4. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, landgræðslu- og gróðurverndaráætlun

Benedikt Gröndal:

Herra forseti, Góðir Íslendingar. Hérland og þarland og nóg er allt Ísland, segir gamalt máltæki.

Meiri hluti mannkyns getur öfundað oss af því, hve rúmt er í landinu og hve auðvelt við eigum með að njóta einveru í skauti náttúrunnar. Þetta eru verðmæt hlunnindi á jörðinni nú á dögum.

En vér vitum meir. Vér vitum, að nóg er allt Ísland því aðeins, að þjóðin fari vel með landið og skilji viðkvæmni þess. Vér vitum, að nóg er allt Island því aðeins, að vér bætum allt tjón, sem valdið er, og spyrnum gegn þeim náttúruöflum, sem rífa landið niður. Vér vitum, að nóg er allt Ísland því aðeins, að þjóðin líti á landið sem —sameign, sameiginlegan fjársjóð, sem hún öll ber ábyrgð á.

Fyrir hundrað árum var fagnað þúsund ára byggð í landinu, og þá greiddi erlendur konungur skuld við íslensku þjóðina með stjórnarbót, sem m.a. færði Alþingi löggjafarvald. Nú, þegar fagnað er ellefu hundrað ára byggð í landinu, greiðir íslenska þjóðin sjálf skuld við landið, en innan stundar mun Alþingi væntanlega beita löggjafarvaldinu og samþykkja að verja tíu hundruð milljónum króna, — sem hefðu eins getað verið ellefu hundruð milljónir, — til áætlunar um landgræðslu og gróðurvernd.

Enda þótt dægurmál séu þung í skauti og sjálf landsstjórnin flókin gáta, hafa þeir góðu menn, sem sátu síðasta þing og sitja nýkjörið þing, sameinast um þetta mál. Betra verk getum vér eigi unnið á þessum þjóðhátíðardegi.

Viðhorf manna til náttúru og umhverfis hafa tekið miklum breytingum til hins betra á síðustu árum, þótt sumum þyki jafnvel nóg um náttúruverndina.

Lítum á hið fagra umhverfi vort í dag, Þingvelli, sem skáldið kallaði „hjarta Fróns“. Vér höldum hátíð í tjöldum og á trépöllum, sem munu hverfa án þess að skilja eftir sig ör. Hvernig væri um að lítast, ef Íslendingar hefðu látið undan næstum sífelldum draumum um að reisa stórbyggingar hér á þessum stað? Margir bestu drengir þjóðarinnar vildu endurreisa Alþingi á Þingvöllum. Ef svo hefði verið gert, væri hér heilt alþingisþorp, samansafn margvíslegra og misjafnra bygginga, ef að líkum lætur.

Og hversu oft hefur ekki verið sagt, að það sé þjóðarskömm að reisa ekki á Þingvöllum glæsilegt gistihús og mikla veislusali? Hvað mundi steinkumbaldi gera fyrir þennan stað?

Það er sannarlega gott, að þjóðin reisi þúsund ára borgir, þar sem þær eiga heima. En því skyldum við keppa við náttúruna hér, þar sem „titraði jökull, æstust eldar öskraði djúpt í rótum ,lands,“ þegar skaparinn hjó þetta listaverk.

Hin nýju viðhorf til náttúru og umhverfis gera oss öll viðkvæm fyrir skemmdum á landinu, hvort sem er af mannavöldum eða ekki. Vér fyllumst reiði við beljandi uppblástur, sem feykir jarðvegi á haf út. En vér megum ekki gleyma því, að fleira getur blásið upp en fjöllin. Það getur orðið uppblástur á hinum andlega og siðferðilega jarðvegi, sem er gróðurmold heilbrigðs mannlífs á Íslandi.

Vér höfum um aldir tekið meira af landinu en það gat gefið. Þetta er viðurkennt af Alþingi á Þingvöllum í dag. En taka ekki einstaklingar og hópar enn í dag meira af þjóðfélaginu en það getur gefið? Og skáka þeir ekki ár eftir ár í því skjóli, að einhver annar muni greiða skuldina? Er ekki kominn tími til þess að draga úr kröfunum um meiri lífsþægindi, en auka leitina að betra lífi?

Með þessum fundi Alþingis og því máli, sem fyrir honum liggur, gerum við Ísland ekki stærra land, heldur betra land.

Vér vonum, að þessi hugsun berist í dag frá Alþingi við Öxará til þjóðarinnar allrar. Nóg er allt Ísland. En batnandi þjóð er best að lifa í svo góðu og fögru landi.

Lifið heil, og gleðilega hátíð.