08.08.1974
Neðri deild: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég get verið sammála hæstv. forsrh. um það, að ekki er ástæða til að ræða þetta frv. ítarlega við 1. umr. Ég geri ráð fyrir, að að þessu sinni náist um það samkomulag, að frv. verði sent til nefndar til athugunar, og gefst þá vissulega tækifæri fyrir þá aðila, sem í nefnd eru, að skoða það nánar og einnig fyrir alla þingmenn að ræða það, þegar það kemur aftur frá nefndinni.

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við þetta mál, sem er, eins og í frv. segir, um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, er annað atriði, sem gerst hefur, síðan þessi brbl. voru gefin út, og vissulega einnig er þáttur í efnahagsmálum og efnahagskerfi þjóðarinnar, en það er sú ákvörðun, sem Seðlabanki Íslands tók, þegar hann tilkynnti um vaxtahækkun nú fyrir nokkru. Þar var um verulega vaxtahækkun að ræða og ég held einna mesta vaxtahækkun, sem átt hefur sér stað, og var kannske ekkert við því að segja. En það hygg ég, að hafi komið fleirum en mér á óvart, að strax og þetta hafði verið tilkynnt opinberum fjölmiðlum, er það, að einn af hæstv. ráðh., hæstv. viðskrh., gefur um það yfirlýsingu, að þetta sé ekki gert með hans samþykki, — ég man ekki orðalag yfirlýsingarinnar, hvort hann taldi, að hann hafi ekki um þetta vitað, ég vil ekki um það fullyrða, a.m.k. gaf hann þá yfirlýsingu, að þetta væri ekki gert með hans vilja og ekki með hans samþykki. Ég ætlaði í þessu sambandi að bera fram fyrirspurn til hæstv. ráðh., en hann er ekki á þessum fundi og mun ekki verða, þannig að ég vil þá beina fyrirspurn minni til hæstv. forsrh., en hún er þess eðlis, hvort ríkisstj. hafi um það vitað, hvað til stóð hjá Seðlabankanum, hvort hún hafi fyrir fram vitað um þá ákvörðun, sem Seðlabankinn tók um vaxtahækkunina. Er vissulega atriði fyrir Alþingi að fá úr því skorið, hvort svona hlutir geti gerst hér á landi, að ein stofnun, sem Alþingi skipar fulltrúa til og fer að vísu með veigamikinn þátt í efnahagsmálum, geti tekið mjög afdrifaríkar ákvarðanir gegn vilja ríkisstj. og þá að sjálfsögðu, ef ríkisstj. styðst við meiri hluta á Alþingi, gegn vilja meiri hl. Alþingis. Það er þetta atriði, sem ég tel, að Alþingi eigi nokkurn rétt á að fá að vita, hvort hæstv. forsrh. skilur lögin um Seðlabankann á þann veg, að þetta geti gerst með eðlilegum hætti, að Seðlabankinn eða aðrar stofnanir, sem fara með efnahagsmál fyrir ríkisstjórn, geti tekið veigamiklar ákvarðanir, sem hafa afgerandi áhrif í efnahagsmálunum, gegn vilja ráðandi ríkisstj. og þá þeirra aðila, sem bak við ríkisstj. standa. Ég stóð í þeirri meiningu að svona hlutir gætu ekki gerst hér á landi. Ég hygg, að ef þetta er allt saman lögum samkvæmt, þá þurfi Alþingi að endurskoða lögin um Seðlabankann og kannske fleiri stofnanir til þess að fyrirbyggja, að Alþingi sé ekki að mínum dómi lítilsvirt með því að gera ráðstafanir eins og hér hafa átt sér stað.

4. gr. laga um Seðlabanka Íslands hljóðar þannig, með leyfi forseta: „Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstj. að ræða, er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það sitt meginhlutverk að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum.“ Ég hef alltaf skilið þessa grein laganna um Seðlabankann á þann veg, að hann hefði ekki heimild til þess að taka ákvarðanir eins og hann hefur nú gert gegn vilja ríkisstj. og þá, að ætla verður, gegn vilja þeirra hv. alþm., sem ríkisstj. styðja.

Fyrirspurn mín er því sú til hæstv. forsrh., hvort hann og aðrir hæstv. ráðh. hafi fyrir fram um þetta vitað, látið þetta gerast og látið duga, að einn ráðh., hæstv, viðskrh., gefi um það yfirlýsingu í fjölmiðlum, að þetta sé ekki gert með hans samþykki. Í 24. gr. seðlabankalaganna er, eins og allir hv. þm. vita, einnig tekið fram, að yfirstjórn Seðlabankans sé í höndum þess ráðh., sem fer með bankamál, og í höndum bankaráðs, þannig að ég held, að hv. alþm. hafi ástæðu til að ætla, að ef ráðamenn Seðlabankans þurfi að taka mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum, hljóti þeir að verða að bera sig saman við ríkisstj. og þá Alþingi, ef það er að störfum.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um vaxtahækkunina sjálfa. Það vita allir, að þetta er aðgerð, sem notuð hefur verið bæði hér á landi og annars staðar í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálum. Ég hygg þó, að einhliða vaxtahækkun hér á landi sé ákaflega hæpin ráðstöfun. Vaxtahækkun er tvíþætt, annars vegar til handa sparifjáreigendum, að bæta þeim það tjón, sem þeir verða fyrir, ef um verðbólguástand er að ræða. Þetta kemur með eðlilegum hætti sparifjáreigendum til góða. En hún er einnig, og það tel ég alvarlegast í því efnahagsástandi, sem er í dag og hefur verið undanfarna mánuði, mjög þungur baggi, þungur skattur á atvinnuvegum þjóðarinnar. Það liggur fyrir, að fyrir kosningar, fyrir 30. júní, var málum þannig komið hjá sjávarútveginum, að bankakerfið hafði orðið að lána það mikið, aðallega í sambandi við taprekstur í fiskiðnaðinum, að það taldi sig vera komið í þrot með að geta staðið undir því að halda þessum atvinnuvegi gangandi eða fleyta honum áfram. Bankaráðin munu hafa tekið þá ákvörðun, að til bráðabirgða skyldi þetta gert eða þar til nýrri ríkisstj. gæfist kostur á því að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem hún teldi að mundu leysa þennan vanda. Engar slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar enn, eins og allir vita. En ástand þessara mála hjá sjávarútvegi er á þann veg, að hann er því miður kominn alveg á heljarþröm, og þeir, sem í þessum málum standa, eru hreinlega að gefast upp, jafnvel þótt bankakerfið vilji halda áfram að lána þeim fyrir rekstrartapi. Þegar síðan er bætt 4% vöxtum ofan á þeirra rekstrarfé, þá sjá allir, hvernig það muni verka fyrir þessa atvinnugrein.

Það er ekki svo, að þetta komi bankakerfinu til góða, þeim aðilum, sem lögum samkv. ber skylda til að lána sjávarútvegi og öðrum útflutningsframleiðslugreinum afurðalán. Þetta kemur ekki þeim til góða, því að vextir, sem bankastofnanir þurfa að greiða, hinir svokölluðu refsivextir hjá Seðlabankanum, eru komnir upp í 24% á ári eða 2% á mánuði, þannig að ég hygg, að þeir aðilar, sem eiga að standa undir taprekstri sjávarútvegs og fiskiðnaðar, haldi hreinlega ekki lengi út. Þó að þeir séu fullir af vilja til að gera allt, sem unnt er að gera, til þess að koma í veg fyrir, að sjávarútvegur hér á landi stöðvist allur í einu, þá efast ég um, að þeir hafi bolmagn til að standa undir þessu öllu lengur. Menn eru undrandi yfir því, að þeir skuli ekki hafa gefist upp við það fyrr, skuli ekki vera orðnir uppgefnir á því, og það hlýtur að kosta þá tugmilljónir í rekstrartap, þar sem svo stendur á, að þeir bankar, sem afurðalán inna af hendi, munu vera komnir í 3000 millj. í yfirdrátt hjá Seðlabankanum í sambandi við sín viðskipti. Það segir sig alveg sjálft, hvað óskaplegar tölur eru þarna á ferðinni, sem lenda kannske í bili á bankakerfinu að nokkru leyti, og að hinu leyti lendir vaxtahækkunin sjálf, 4% vaxtahækkunin, beint á atvinnurekstrinum.

Ég tel, að þetta sé alvarlegt mál og ef ríkisstj. hefur vitað fyrir fram um þetta allt saman og ekkert gert annað en að láta einn af ráðh. sínum mótmæla í fjölmiðlum, þetta sé ekki gert með hans vilja, þá sé þetta atriði, sem Alþingi hljóti að taka til mjög alvarlegrar athugunar, hvort slíkt geti virkilega átt sér stað hér á landi og hvort ekki verði að breyta lögum, þannig að þetta geti ekki endurtekið sig.