27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austf. gat þess um það bil sem ég var að ganga inn í fundarsalinn kl. 2, að hann hefði í hyggju að gera þá fyrirspurn sem hann nú hefur komið með. Hann ætlaði ekki að ræða efnislega þetta mál, en lýsti þó yfir hver skoðun sín væri, svo að ég kemst ekki hjá því að láta þá einnig í ljós mína skoðun og rekja þá eins stutt og hægt er gang þessa máls, en það á ekki langan aðdraganda.

Fyrirtækið Hafsíld og Ísbjörninn hf. sendu sjútvrn. erindi um að fá leyfi til þess að leigja norska verksmiðjuskipið Norglobas og var talað um að leigutími yrði 45 dagar og í leigutímanum væri talin .sigling frá Noregi til Íslands og til baka.

Ég kynnti mér eftir föngum þetta mál að lagði það fyrir ríkisstj., sem féllst á till. mína að mega svara þessu erindi á þann veg að rn. fyrir sitt leyti samþ. að ofangreint verksmiðjuskip verði tekið á leigu og starfrækt hér við land á þessari loðnuvertíð, með þeim skilyrðum að Landssamband ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands væru ekki andvíg þessum ráðstöfunum. Landssamband ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands lýstu bæði yfir stuðningi og meðmælum með að þetta leyfi yrði veitt, en Sjómannasamband Íslands tók ekki afstöðu til málsins, Mun það hafa byggst á því sem fram undan er í sambandi við fyrirhuguð verkföll, að það vildi ekki láta álit frá sér fara. Hins vegar er mér kunnugt um, að sjómenn almennt á loðnuveiðiskipum eru eindregið fylgjandi því að þetta skip verði tekið á leigu.

Leiga þessi er algerlega á ábyrgð leigutaka, Hafsíldar hf. og Ísbjarnarins hf., og felur samþykki þetta ekki í sér neinar skuldbindingar fyrir ríkissjóð í því sambandi. Leigutakar afli sér nauðsynlegra leyfa í sambandi við gjaldeyrisyfirfærslur. Leigutakar kaupi hráefnið af íslenskum loðnuveiðiskipum á sama verði og loðnuverksmiðjur í landi skv. ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins og greiði öll gjöld af framleiðslunni, svo sem útflutningsgjöld, eins og um verksmiðju í landi væri að ræða. Leyfishafar hlíti lögum og reglum um löndun á loðnu til bræðslu eins og um verksmiðjur í landi væri að ræða. Enn fremur var það skilyrði sett af ríkisstj., að ég kannaði hvort væri leyfilegt að veita slíkt leyfi lögum samkvæmt. Ég fól lögfræðingi í sjútvrn. að gera athugun á því, jafnframt bað ég hann að leita til þekkts lögfræðings utan rn. til þess að fá umsögn hans einnig. Að fenginni þeirri umsögn tel ég að ekki þurfi sérstaka lagaheimild og byggi það á því áliti.

Í fyrsta lagi er ástandið í bræðslumálum almennt. Tvær verksmiðjur verða ekki starfræktar á þessari loðnuvertíð, verksmiðja Hafsíldar á Seyðisfirði sem afkastar um 400 tonnum á sólarhring og verksmiðjan í Neskaupstað sem afkastar um 700 tonnum á sólarhring, eða samtals 1100 tonnum. Afkastageta Norglobal er um 1500 tonn en hámarksafkastageta þessa verksmiðjuskips er um 2500 tonn.

Lög, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði í áðan, nr. 33 frá 1922, eru fyrst og fremst um fiskveiðar, sbr. heiti þeirra laga: Lög um rétt til fiskveiða í landhelgi, en í 1. gr., sem hljóðar svo, segir: „Fiskveiðar í landhelgi við Ísland mega íslenskir ríkisborgarar einir reka og má aðeims hafa íslenska báta eða skip til veiðanna.“ Á þeim tíma, sem þessi lög voru sett voru til þrjár síldarverksmiðjur í landinu. Þessar verksmiðjur máttu nota erlend skip til að fiska fyrir verksmiðjurnar til eigin nota með leyfi ráðh. þrátt fyrir bannið í 2. málsgr. 3. gr. laganna, sem bannar erlendum skipum að verka veiði í landhelgi eða flytja veiði sina á land til þess þar að verka hana. Um þessa heimild ráðh. til að veita slík leyfi eru ákvæði 9. gr. l. og þar er vissulega heimilað að ganga mun lengra en gert er með samþykkt á leigu bræðsluskipsins Norglobal. Skipið á alls ekki að veiða eða taka við afla íslenskra skipa og bræða hann undir umsjón leigutaka sem eru alíslensk fyrirtæki. Það sem gerist er einungis það, að íslenskur aðili notar erlend tæki til að bræða loðnuna, og má segja að það sé ekki mikill munur á því og ef hann fengi erlendis til leigu eða alveg í skuld bræðsluvélar og setti þær upp í landi. Loðna um borð í skipinu verður alveg unnin á kostnað hinna íslensku aðila sem munu kaupa hana, eins og ég sagði áðan, á hinu ákveðna verði skv. ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins, greiða af henni öll útflutningsgjöld, gjöld til olíusjóðs og loðnuflutningasjóðs á nákvæmlega sama hátt og bræðsla í landi gerir. Um gjöld af skipinu, skatta vegna þess og starfsmanna fer eftir íslenskum lögum og samningum milli Noregs og Íslands til þess að forðast tvísköttun. Í íslenskum lögum er hvergi bannað að leyfa íslenskum aðilum að leigja erlend skip til þessara nota, og verður það að teljast fullheimilt.

Ef við lesum aths. við frv. að l. nr. 33 frá 1922 sést greinilega að banna á erlendum fiskiskipum að veiða innan landhelgi án sérstaks leyfis og tryggja að erlendir aðilar komist ekki hjá því að greiða þau opinberu gjöld sem íslensk vinnslustöð í landi yrði að greiða. Hér er ekki verið að hleypa erlendum veiðiskipum inn í landhelgina né heldur að veita erlendum aðilum réttindi sem brjóta í bág við l. nr. 33 frá 1922 eða önnur lög. Þess vegna telja þeir lögfræðingar, sem ég hef leitað til, að ekki þurfi samþykki Alþingis fyrir umræddri leyfisveitingu sjútvrh.

Hins vegar vil ég í þessu sambandi minna á að erlendum veiðiskipum var heldur betur hleypt inn í landhelgina með samningum þeim sem gerðir voru við Belgíu 7. sept. 1972, við Noreg 10. júlí 1973 og landsstjórn Færeyja 16. ágúst 1972, 19. sept. 1972 og 23. mars 1973. Samþykkis Alþingis við öllum þessum samningum var ekki leitað fyrr en löngu síðar, en þeir voru allir staðfestir á Alþingi með þáltill. 12. nóv. 1973. En þessi lög eru fyrst og fremst um bann við veiðum í íslenskri landhelgi. Þetta var þá gert og ekki talin nein ástæða til athugasemda af Alþ. fyrr en þál. var flutt löngu síðar og samþ.

Í sambandi við þau mótmæli, sem fram hafa komið, heyrði ég í sjónvarpinu lesið eitt símskeyti til mín í gærkvöldi sem ég hafði ekki fengið í hendur. Það verður að teljast afar góð þjónusta hjá íslenska sjónvarpinu að lesa símskeyti til manns um 14 klst. áður en viðtakandi fær sjálfur skeytið í hendur, og er rétt að vekja athygli á því hvað sjónvarpið er miklu fljótara á ferðinni en ritsíminn. Ég fékk þetta skeyti kl. 9.50 í morgun, sem ég heyrði í sjónvarpinu kl. liðlega 8 í gærkvöldi, og er það frá Siglufirði eða bæjarráði Siglufjarðar, þar sem það mótmælir:

„Þar sem verksmiðjukostur til loðnubræðslu er nægur fyrir í landinu, þá mótmælir bæjarráð Siglufjarðar harðlega að veitt hafi verið leyfi til útlends verksmiðjuskips til loðnubræðslu. Jafnframt bendir bæjarráð á, að hér er um stórkostlega atvinnuskerðingu að ræða í þeim byggðum landsins, þar sem loðnubræðslur eru staðsettar, og lýsir bæjarráð furðu sinni á þessari einstæðu leyfisveitingu. Bæjarráð skorar á sjútvrn. að afturkalla leyfið nú þegar.“

Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan sendi mér bréf í dag og var skýrt frá þessu bréfi í hádegisútvarpinu, en ég fékk bréfið stundu áður en það kom í útvarpinu. Það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Formanni Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Aldan hafa borist tilmæli frá skipstjórum og áhöfnum loðnuveiðiskipa, þar sem beðið er um að koma á framfæri við sjútvrh. fullum stuðningi þeirra við að norska bræðsluskipið Norglobal verði tekið til starfa hér við land á loðnuvertíðinni.

Teljum vér hiklaust, að sá afli, sem það tekur til bræðslu, verði að mestu umframafli við það sem annars fengist, sérstaklega þegar það er haft í huga að tvær afkastamiklar verksmiðjur á Austurlandi verða ekki í notkun á þessari vertíð af ástæðum sem öllum eru kunnar.

Þá viljum vér mótmæla harðlega þeim kröfum að veiðiskipum sé ætlað að sigla með aflann til fjarlægra landshluta í atvinnubótaskyni, þar sem það mundi rýra gífurlega aflagetu þeirra á þeim stutta tíma sem loðnuverð er ákveðið. Hið stórlækkaða hráefnisverð þolir ekki slíka rýrnun fyrir skip og áhafnir. Á það skal bent, að sjómenn verða nú að taka á sig stórfellda lækkun hráefnisverðs, sem stafar m.a. af hækkun launa og annars kostnaðar í landi, á sama tíma og aðrar stéttir fá sín laun verulega hækkuð í krónutölu. Teljum vér að ekki sé á það bætandi með þeim hættum og frátöfum, sem flutningum hráefnis til fjarlægra hafna er samfara.

Virðingarfyllst, f.h. Skipstjóra og stýrimannafélagsins Aldan,

Páll Guðmundsson, formaður.“

Enn fremur hef ég heyrt frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands í morgun og Landssambandi Ísl. útvegsmanna, þar sem þau lýsa eindregið yfir stuðningi við að þetta verksmiðjuskip komi hingað og telja að það hafi mikla þýðingu fyrir afkomu útgerðar og þeirra sjómanna, sem loðnuveiðar stunda. Við skulum líka hafa það í huga, að þegar loðnuverð var ákveðið nú fyrir skömmu var um stórfellda lækkun á loðnuverði að ræða, sem er mikil kjararýrnun bæði fyrir sjómenn og útvegsmenn. Sú ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins að greiða fyrir hvert kg 2.80 kr., en auk þess greiða kaupendur 15 aura á hvert kg til 8. febr. í flutningasjóð, en aðeins 10 aura eftir þann tíma, — þetta skiptir vitaskuld miklu máli. Þegar verksmiðjur, sem voru starfræktar í fyrra, hafa hætt starfrækslu vegna sérstæðra óhappa, er það enn meiri kjararýrnun ef loðnuskipin eiga að fara að sigla til fjarlægra staða, miðað við þær aðstæður sem nú eru og það verðlag sem nú er á loðnunni. Hins vegar ef um litla veiði verður að ræða fara einkum stærri skipin til þessara staða. Ég minni líka á það, að fyrir jólin samþ. Alþ. heimild fyrir eitt skip, sem gerður var mikill úlfaþytur út af og er undir dönskum fána, að það mætti landa loðnu á svæðinu frá Patreksfirði til Seyðisfjarðar, einmitt fyrir þessar verksmiðjur. En þá mótmæltu bæði sjómenn og útvegsmenn því, svo að það verður fátt gert í okkar landi sem er ekki mótmælt sitt á hvað. En þegar við lítum á þessi mál frá heildarsjónarmiði, þjóðhagslegu sjónarmiði, held ég að það sé ekkert áhorfsmál að útgerð og skipverjar á loðnuskipum bera nú ólíkt minna úr býtum heldur en áður og því hefði ég talið og tel að það sé ekki nema sjálfsagt að verða við þessum tilmælum þegar þeir einstaklingar, sem um þetta biðja, fara fram á það án þess að fá nokkra fyrirgreiðslu ríkisins.

Ég hygg að ég hafi skýrt þetta mál eins og hægt er, þó að um það megi auðvitað fara fleiri orðum.