27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda hér áfram meiri lögskýringum í sambandi við þetta mál við hv. þm. Ég sagði aðeins frá því hér að þetta mál hefur haft ákaflega lítinn aðdraganda og annaðhvort var að verða við því eða neita því, því að þetta mál er búið að vera innan nokkurra daga. Ég veit auðvitað ekki um það alveg til fulls hvort samningar nást. Það var búið að gera að vísu rammasamning. Næstu dagar skera úr um hvort það verður eða ekki. Hitt er svo annað mál, að ég vitnaði áðan í þær upplýsingar sem ég hef frá lögfræðingum, en ég vitnaði líka í hvað hefur gerst í þessum efnum og ég nefndi áðan samningana við Belgíu frá 7. sept. 1972. Var leyfilegt að gera þann samning og hleypa belgískum togurum inn í íslenska landhelgi án þess að leggja það fyrir Alþ. fyrr en í marsmánuði 1973? Sömuleiðis spyr ég hv. fyrrv. sjútvrh:: Var leyfilegt að semja við Noreg á þennan hátt 10. júlí 1973 og við landsstjórn Færeyja 16. ágúst 1972, 19. sept. 1972 og 23. mars 1973? Allir þessir samningar eru gerðir án þess að flytja um þá frv. hér á hv. Alþ. Það var enginn stjórnmálaflokkur sem mælti neitt gegn þessu, alls ekki. Ég er ekki að segja það vegna þess. En þá er lögð fram till. til þál. um staðfestingu á þessum samningum öllum, við Belgíu, Noreg og landsstjórn Færeyja, um heimildir til veiða innan fiskveiðilögsögu, og þessi þáltill. er svo afgr. 12. nóv. 1973. Nú spyr ég: Er meiri ástæða til að leggja fram frv. um að leyfa skipi að taka fyrir íslenska aðila við loðnu af loðnuveiðiskipum í röskan mánuð, er það meira atriði að leggja fram sérstakt frv. en að heimila veiðar innan 50 mílna þremur þjóðum? Mér finnst skipta allmiklu máli hvað hefur gerst á undan í þessum efnum. En það eru Kannske smámunir að leyfa nokkrum tugum togara að stunda veiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á annað ár, þeim sem lengst höfðu þessi leyfi, þangað til Alþ. staðfestir það. Ég er alls ekki á þessu stigi málsins að segja að ég muni leggjast gegn því að það verði borin fram þáltill. á líkan hátt til staðfestingar Alþ. á þessu. Það verður að athuga betur. Ég bað um þessa athugun, að hún færi fram á sem skemmstum tíma, og þetta er það sem kom út úr þessari athugun, og ég byggði mitt álit á því.

Mig langar svo líka að spyrja hv. þm.: Hvers vegna var hann að láta kanna möguleikana á því að leigja þetta skip fyrir 2 árum, eftir atburðina í Vestmannaeyjum, ef hann var þá eins og hann er nú þeirrar skoðunar að það eigi hvorki að leyfa veiðar né vinnslu erlendra skipa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu? Ég veit ekki annað en að hann hafi staðið að því að senda sérstaka fulltrúa til að skoða þetta skip. En þá lá ekki beint fyrir hvern ætti að taka ábyrgðina, hver ætti að gera skipið út. Þá var það helst að ríkissjóður yrði að gera það. Og það varð ofan á að hann og ríkisstj. vildu ekki fara út í það að ríkið tæki ábyrgð á rekstri slíks skips. Það er skoðun sem hver og einn getur alveg fullkomlega samþ., ef menn meta að það hafi verið mikil áhætta.

Þegar hv. þm. segir að það hafi verið ólík rekstraraðstaða þá og nú er ég honum alls ekki sammála. Hvenær hefur rekstraraðstaðan verið verri en núna hjá útgerðinni og sömuleiðis hjá sjómönnum loðnuskipanna? Ekki í mörg ár. Það veit þessi hv. þm. mætavel. Og eftir því sem löndunarbið verður fyrr á Austfjörðum eða þarf að sigla hingað suður og ekki hægt að komast norður fyrir Langanes, þá auðvitað dregur úr veiðunum - veiðum loðnuskipanna á þessari vertíð. Hitt er alveg rétt, að loðnuvertíðin í ár verður mun skemmri en áður. Þess vegna er meiri ástæða til þess að nýta sérstaklega vel þann stutta tíma sem vertíðin kemur til með að standa. Ég hef ekki trú á því, miðað við það verð sem er á loðnu eftir að fitumagnið er farið úr loðnunni, að þá verði veiðar mikið stundaðar eftir 8. mars. Ég hef ekki trú á því, vegna þess að loðnuverðið byggist núna fyrst og fremst á lýsisverðinu, en ekki á mjölverðinu af því að það er svo lágt.

Það er þetta sem við verðum að hafa í huga, að á sama tíma og þessi stétt, bæði útgerðarmennirnir og sjómennirnir sem þessar veiðar stunda, verður fyrir því áfalli að það verður stórkostlegt verðfall á þessum afurðum, þá er meiri ástæða til þess að nota hvert tækifæri til þess að nýta sem best þessi skip og fylla í það skarð sem óvænt kom bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði, Þess vegna held ég að sé rétt stefna að vinna að þessu máli, og ég tel það mikið áræði sem þessir aðilar sýna með því að vilja taka þetta skip á leigu. Auðvitað verðum við að vona að þeim heppnist það, því að það verður einnig til mikils láns fyrir alla þá sem þessar veiðar stunda nú á þessari loðnuvertíð.