28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður tók að nokkru leyti af mér ómakið í dag. Ég tek undir það sem flestir hafa sagt hér áður, að það málefni, sem hér er til umr., er bæði merkilegt og mikilsvert, og tíminn líður frá okkur og hefur gert það á undanförnum árum án þess að gerðar væru nokkrar þær ráðstafanir sem leysa þau mörgu vandamál sem hrannast upp í kringum lífeyrissjóðakerfið eins og það er núna. Ég hef þá hugmynd um þessi mál að það ætti að gerbreyta þeirri hugsun sem er á bak við lífeyrissjóðina. Ég tel, að það sé rétt að á hverjum tíma greiði sú kynslóð, sem þá er starfhæf, þeirri sem komin er á efri ár eðlileg og réttlát eftirlaun, en í raun og veru sé hugmyndin um sjóði sem slíka úrelt. Ég veit að lífeyrissjóðirnir hafa gengt mjög merkilegu og mikilvægu hlutverki sem lánastofnanir, og í stað þeirrar sparifjársöfnunar og myndunar, sem nú verður í lífeyrissjóðunum, þyrfti að koma annað kerfi.

Ég vil varpa því fram hér til umhugsunar, það er ekki hægt að ræða þessi mál mikið, hvort sé ekki nauðsynlegt að gerbreyta þeirri hugsun sem við höfum á bak við þetta, og á ég þá fyrst og fremst við að tekinn sé upp einhvers konar annar sparnaður í staðinn fyrir lífeyrissjóðina, t.d. skyldusparnaður eftir ákveðnum reglum, í raun og veru ekki sérstaklega safnað í lífeyrissjóði, en að hver maður eigi rétt eftirlauna og þá í raun og veru jafnra eftirlauna allir menn þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri eða koma undir ákveðin ákvæði um örorku. Það mundi leysa þetta, sem hér hefur verið talað um, á auðveldan hátt, verðtrygginguna og fjármögnunina. Auðvitað þurfum við fé þrátt fyrir þetta. En síðan yrði aftur hlutverk lífeyrissjóðanna gagnvart lánakerfinu leyst með einhvers konar skyldusparnaði.