29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

130. mál, fóstureyðingar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég átti sæti í þeirri n. sem hafði með þetta mál að gera í fyrravetur. Þetta mál kom fljótlega til meðferðar n. og var rætt á nokkrum fundum, en af ýmsum ástæðum dró ekki til þess að um afgreiðslu yrði að ræða.

Varðandi höfuðatriði málsins, eins og það liggur fyrir nú, býst ég við að ég misfari ekki með neitt þó að ég segi, að það sé mjög á þann veg sem virtist vera meirihlutafylgi fyrir í n., og á ég þá við aðalágreiningsefni frv. varðandi 9. gr. Það er í raun og veru það efni, sem deilan snýst um. Og ég verð að segja, að þótt við þáv. nm. yrðum fyrir allmiklum þrýstingi úr ýmsum áttum var að meginhluta til sá þrýstingur málefnalegur og minna um móðursýki, a.m.k. að því er að okkur sneri, en hins vegar varð þess sjúkleika mikið vart í skrifum um málið, ekki er því að neita.

Varðandi I. kaflann er það rétt, að hann er hinn mikilvægasti í sjálfu sér ef þeir, sem gerst þekkja til, hafa rétt fyrir sér um ástandið í þessum málum í þjóðfélagi okkar, hina miklu vanþekkingu á þessu sviði sem haldið er fram að sér í lagi yngra fólk sé haldið, og skal ekki fjölyrt um það. Sé ástandið með þeim hætti, sem ég get að vísu ekki dæmt um af öðru en því sem haldið er fram af þeim sem maður hefur ástæðu til að ætla að þekki vel til, er vissulega hin brýnasta nauðsyn að þeim málum sé kippt í liðinn með stóraukinni ráðgjöf og fræðslu eins og hér er lagt til. Ég skal ekki um það dæma, hvort það er hin rétta aðferð og líklegust til að gefa besta raun að skólayfirlæknir eigi að sjá um framkvæmd og uppbyggingu fræðslustarfs skv. þessari gr. Ég geri ráð fyrir því — um það geta skólamenn að vísu betur dæmt — að þetta eigi að vera í höndum yfirvalds skólanna sjálfra og mætti þó kannske útfæra þetta á þann veg að samstarf yrði um þetta milli skólayfirlæknis og skólayfirvaldanna sjálfra, enda kæmi það af sjálfu sér, hygg ég, ef skólayfirvöldin og skólastjórarnir hefðu mest með málið að gera.

En þá er það 9. gr. Þar skilur alvarlega í milli. Um hana hafa deilur manna snúist nálega eingöngu, og að vissu leyti eru þau viðhorf skiljanleg. Þegar svo örlagarík ákvörðun er tekin eins og þegar kona þarf að gera það upp við sig hvort hún eigi að eyða lífi sem hefur orðið til með henni, þá eru skiljanlegar þær skoðanir sem fram er haldið, að hún eigi og verði að taka ákvörðun ein sjálf. En reynslan hefur orðið allalvarleg víða í þessum sökum og einmitt að því er snertir þetta atriði, að þá hafa ungar konur, sérstaklega konur á barnsaldri, leiðst og hrasað um það og litið á þetta sem getnaðarvörn. Allt virðist hafa bent til þess í fenginni reynslu, að þannig hafi því miður þetta orðið í raun, og fram hjá slíkum skerjum verður vitanlega að sigla. Enn fremur er að því að gá, að í flestum tilfellum á þetta sér stað hjá konum, sem eru svo að segja á barnsaldri eða nýkomnar af barnsaldri að kalla má, og þess vegna ástæða til þess að þeim sé veitt ráðgjöf. Þær verða tæplega taldar þess umkomnar sjálfar — þótt á hinn bóginn siðferðilega séð þyrftu þær helst að vera það — að taka einar og sjálfar lokaákvörðun í svo örlagaríku máli fyrir þær sjálfar og framtíð þeirra.

Ég hef hallast að þeirri skoðun að það sem hér er lagt til, sú aðferð sem að þessu lýtur og hér eru gerðar till. um, sé eftir sem áður nauðsynleg, enda þótt ég skilji fullkomlega þau rök sem til þess liggja að annað væri æskilegra, en ég tel á þessu stigi málsins a.m.k. óframkvæmanlegt. Breytir þar engu um þótt svo hátti til að konur kunni að fá slíka aðgerð framkvæmda í öðrum löndum. Við höfum ekki tök á því að hafa neitt um það sérstakt að segja.

Ég vil taka það fram að í heild tekið er ég fylgjandi frv. eins og það er nú úr garði gert. En hér hefur komið til umr. 13. gr. frv., sem ég er eins og hv. 3. þm. Reykv. nokkuð gagnrýninn á. Við höfum að vísu haft löggjöf um fóstureyðingar frá 1938 sem álitin hefur verið af þeim, sem gerst þekkja til, allfrjálslynd, en aðalhængurinn á sá, að framkvæmdin hafi verið allt of svifasein, þannig að mörg stórslys hafa gerst í þessum efnum. Mér sýnist að með því ákvæði, sem hér hefur verið sérstaklega rætt um, og er nýtt, sé verið að setja upp hættulegan þröskuld sem hægt er að hnjóta um í framkvæmdinni, þar sem kominn er inn nýr aðili — það verður ekki skilið á annan veg en þann — sem getur hindrað framgang málsins. Nú er það afar mikilvægt í þessu dæmi að ekki verði um tímatöf að tefla, nóg er nú samt sem þessum læknum er fengið í hendur, að verða að eyða lífi, fóstri sem er 11–12 vikna gamalt, því að vissulega hrærist fullkomið líf með því, þótt ekki séu settar upp neinar hindranir á framgangsmáta. Það sem þeir, sem gerst þekkja til, segja að hafi verið örðugast í sambandi við framkvæmd þeirra laga sem við höfum búið við, er hversu mikill seinagangur hefur verið á framkvæmdinni og hefur orsakað ömurleg slys í þessu sambandi. Þess vegna má ekkert það vera í þessum lögum sem til viðbótar þeim ákvæðum, sem hér er lagt til að höfð séu skv. 9. gr. og um framkvæmdina sjálfa, sem hindrar það, þegar ákvörðun hefur verið tekin um fóstureyðingu, að hún nái fram hið allra fyrsta og þegar í stað.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta mál lengur eða frekar á þessu stigi málsins. Þetta mál fer nú til n. og mun þá væntanlega fá þar — að vísu vandlega meðferð vonandi, en þó sem allra skjótasta, því að ég hygg að hin mesta nauðsyn sé á að þetta mál fái formlega afgreiðslu og verði að lögum á þessu þingi.