04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

136. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Heimir Hannesson):

Herra forseti. Í framhaldi af þeirri fsp., sem hér hefur verið lögð fram til hæstv. iðnrh. um lánasjóði iðnaðarins, langar mig til að hafa örlítinn formála.

Eins og kunnugt er skiptist iðnaðarframleiðsla íslendinga í tvo þætti, annars vegar iðnað fyrir innanlandsneyslu, sem er að verulegu leyti gjaldeyrissparandi, þó að ný viðhorf séu smám saman að skapast með minnkandi aðlögunartíma gagnvart aðildinni að EFTA. Hinn þátturinn er útflutningsiðnaðurinn sem er beint gjaldeyrisskrapandi og á sér skemmri sögu. Báðir þættirnir gegna að sjálfsögðu sínu hlutverki frá atvinnulegu sjónarmiði.

Útflutningsiðnaðurinn hefur til skamms tíma verið einhæfur, en á síðari árum hefur tekist að afla markaða fyrir ýmsa nýja þætti iðnaðarframleiðslu, svo sem ullarvörur, skinnavörur, lagmeti o.fl. Hefur þetta verið einn þáttur í þeirri nauðsynlegu viðleitni að styrkja almennt grundvöll útflutningsstarfsemi okkar, og nú á erfiðleikatímum og á þeim óvissu tímum sem fram undan eru er áreiðanlega hollt að nema staðar og líta yfir farinn veg um leið og stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar fyrir framtíðina. Í tilefni af því eru þessar fsp. lagðar fram.

Ég held að það sé alveg ljóst, að vandamál beggja iðnframleiðslugreinanna, ekki síst útflutningsiðnaðarins, séu ekki síst fólgin í því að of margir eru að fjalla um sambærileg mál. Á það bæði við um sölumálin og lánamálin. Sölumálin eru í höndum fleiri aðila en æskilegt má telja og verkaskipting ekki nægilega mótuð. Ekki síst er vandamálið fólgið í skorti á samræmingu og samvinnu þeirra aðila er fjalla um lánamálin, og leyfi ég mér að fullyrða að núverandi skipulag í þeim efnum stendur eðlilegri framþróun þessara mikilvægu atvinnugreina fyrir þrifum.

Við höfum á tiltölulega fáum árum leyft okkur að stofna til hvers sjóðsins og/eða stofnunarinnar á fætur annarri með tilheyrandi yfirbyggingu og kostnaði. Í iðnaðarþættinum höfum við Iðnaðarbanka, Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð, Iðnrekstrarsjóð, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, Iðnþróunarstofnun, iðnþróunarnefnd, tryggingadeild Ríkisábyrgðasjóðs sem fjallar um lán vegna útflutnings og að sjálfsögðu iðnrn. með tilheyrandi ráðum og nefndum af mismiklum stærðum. Útflutningsmiðstöð iðnaðarins er rekin fyrir framlag á fjárl. Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, sem líka hefur þróunarsjóð; er á 5 ára fjárlagaáætlun. Þannig mætti lengi telja og ýmislegt sjálfsagt ótalið enn þá.

Það er e.t.v. hægt að leyfa sér eitt og annað á miklum velgengistímum, þó að alltaf þurfi að beita réttum vinnubrögðum á hverjum tíma. En þegar mjög alvarlegir erfiðleikar blasa við í útflutnings- og gjaldeyrismálum hlýtur að vera óhjákvæmileg krafa að allra leiða sé leitað til að tryggja, ekki síst útflutningsaðilum og í þessu tilviki útflutningsiðnaðinum alla þá nauðsynlegu fyrirgreiðslu sem hann þarf á að halda og með sem minnstum tilkostnaði og fyrirhöfn. Aðaltakmarkið verður að vera það að ná sem mestum árangri með sem minnstum tilkostnaði. Núverandi skipulag býður hins vegar upp á hina kunnu mannlegu eiginleika í hverju ríkiskerfi: að ýta hlutunum á undan sér og vísa málum hver til annars. Þetta er því miður hryggileg staðreynd, sem er þó eins gott að gera sér grein fyrir.

Ég ætla ekki að rekja nein dæmi, þó að það væri vissulega auðvelt, en ég tel óhjákvæmilega niðurstöðu að brýna nauðsyn beri til að sameina töluvert af þeirri starfsemi, sem upp var talin, og væri eðlilegasta verkaskiptingin að t.d. tveir aðilar önnuðust þessa starfsemi, annar fyrir innanlandsmarkaðinn og fjárfestingarmál hans, en hinn fyrir útflutningsiðnaðinn, lán, útflutningsörvandi styrki, könnun á markaðsmálum, tryggingar, rannsóknastarfsemi og aðra þá þætti er tengjast slíkri starfsemi. Og þá held ég væri alveg nægjanlegt að tvær stjórnir fjölluðu um slíka sjóði eða stofnanir.

Ætli okkur íslendingum veiti nokkuð af því á þessum tímum, sem nú eru að fara í hönd, að skilja þá staðreynd að úti í hinum stóra heimi erum við að berjast á mörkuðum í samkeppni við háþróaðar iðnaðarþjóðir með margfalda reynslu af rannsóknarstarfsemi á bak við sig, um leið og við hljótum að viðurkenna þá staðreynd að vaxtarbroddur iðnaðarframleiðslunnar almennt er fólginn í vaxandi og arðbærum útflutningi. Ef við skiljum þetta ekki og höldum enn þá áfram að auka á yfirbygginguna, en slæva undirstöðuna, er þess ekki að vænta að vel fari.

Herra forseti. Í framhaldi af þeim fsp., sem ég hef lagt hér fram, vil ég óska þess og treysti því að hæstv. iðnrh. og ríkisstj. taki þetta mál föstum tökum.