04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

136. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Heimir Hannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær svona tiltölulegu góðu undirtektir sem þessar fsp. mínar hafa fengíð í þessum umr. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau ummæli, að ríkisstj, væri að vinna að margræddri sameiningu og samræmingu á starfsemi þessara lánasjóða. Vonandi á það eftir að koma í ljós mjög bráðlega, og að því leyti vil ég taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar, slíkar aðgerðir verði ekki dregnar óeðlilega mikið.

Í sambandi við orð hv. þm. Gunnars J. Friðrikssonar, þá er það auðvitað alveg hárrétt, að það er oft erfitt að gera greinarmun þar sem mörg fyrirtæki framleiða bæði fyrir heimamarkað og útflutningsmarkað. Þó held ég að við getum ekki gengið fram hjá þeirri staðreynd — og ég vona að hann sem kunnáttumaður og forustumaður í iðnaðarmálum staðfesti það, að vaxtarbroddurinn í raunverulegri og verulegri iðnaðarframleiðsluaukningu hlýtur að vera fólginn í auknum útflutningi, þó að það sé alveg rétt — og ég held ég hafi tekið það fram í spjalli mínu hér áðan, sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði, að vissulega er jafnmikilvægt að innlendur iðnaður fyrir heimamarkað fái fyrirgreiðslu og þróist og njóti sín til fulls, m.a. vegna þess, eins og hann benti hárrétt á, að það sparar kaup á erlendum iðnaðarvörum, sem eru fluttar inn í landið og bætir þar með stöðu þjóðarbúsins.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vil ítreka óskir mínar til ríkisstj. og hæstv. ráðh. að framkvæmd á þessum fyrirheitum í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. verði hraðað, ekki síst með tilliti til þeirra erfiðleika, sem fram undan eru, og nýrra vinnubragða, sem þörf er á í þeim efnum.