04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

306. mál, auðæfi á eða í íslenskum hafsbotni

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Umræðuefnið færist nú allsnögglega frá vandamálum iðnaðarins í dag að því sem kann að verða íslenskur iðnaður eftir svo sem 15–20 ár.

Svo er mál með vexti að undanfarnar vikur og mánuði hafa hvað eftir annað borist fréttir í erlendum blöðum og tímaritum um það, að við rannsóknir á botni hafsins útí fyrir Íslandsströndum hafi komið í ljós sterkar líkur á því að þar kunni að vera olíu að finna. Ég minni á það, að seint á s.l. ári birti stórblaðið New York Times ítarlegar greinar byggðar á nákvæmum rannsóknum um þetta og fullyrti, að sovéskir vísindamenn hefðu fundið sterkar líkur, ef ekki vissu fyrir olíu á meira en 1000 m dýpi út af norðaustanverðu Íslandi, og einnig að bandarískir vísindamenn hefðu fundið hið sama út af suðausturhluta landsins. Er hér um að ræða hryggina frá Íslandi til Jan Mayen annars vegar og til Færeyja hins vegar.

Að vísu virðist þessum fregnum ekki öllum bera saman, og er varla hægt að segja að opinberlega hafi verið staðfest vitneskja um það, hvað raunverulega hefur komið fram í þessum efnum. Hitt hlýtur þó að vekja meira en litla athygli okkar íslendinga, þegar viðurkennt sérfræðitímarit um olíumál, gefið út í Englandi, fullyrðir að íslendingar verði um árið 1990 orðnir útflytjendur á olíu.

Þar sem mál þetta nær allangt frá ströndum og getur jafnvel snert væntanlegar breytingar á yfirráðasvæði íslendinga, hef ég leyft mér að beina fjórum fyrirspurnum til hæstv. forsrh. um þessi efni.

Fyrsta fsp. er á þessa lund: „Hvaða aðilar hafa óskað leyfis til að leita að olíu, jarðgasi eða öðrum auðæfum á eða í hafsbotni á íslensku yfirráðasvæði?“ Önnur spurning: „Hvernig hefur verið brugðist við þessum óskum?“ Þriðja spurning: „Hefur ríkisstj. mótað nokkra stefnu varðandi leit að olíu, jarðgasi eða öðrum auðæfum á eða í hafsbotni Íslands?“ Og fjórða spurning: „Hefur ríkisstj. undirbúið viðbrögð og stefnu ef slík auðæfi finnast á eða í hafsbotni á íslensku yfirráðasvæði?“