05.02.1975
Neðri deild: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. frsm. minni hl. var að spyrja um afstöðu mína til frv., hvers vegna ég hefði lagt það fram. Ég hef nokkuð oft verið spurður um það í þessum umr., en af því að nú er komið fram yfir áramót og nýtt ár byrjað get ég vegna þessara tilmæla rifjað upp það sem ég sagði þegar ég talaði fyrir málinu við 1. umr. í Ed., það er örstutt. Ég sagði:

„Í aths. frv. segir: „Í gildandi útvarpsráðsl., nr. 19 1971, er mælt fyrir um, að útvarpsráðið skuli kjörið til fjögurra ára. Áður voru lagaákvæðin á þann veg að útvarpsráð skyldi kjörið eftir hverjar alþingiskosningar. Með því var tryggt, að skipan útvarpsráðs, sem bæri að gæta fyllstu óhlutdrægni, væri jafnan í samræmi við skipan Alþ. Þykir rétt að hverfa á ný að þessu ráði.“ Við þetta hef ég nánast engu að bæta. Útvarpsráð hefur verið valið með hlutfallskosningu á Alþ. allt síðan 1939 eða í 35 ár. Það þýðir í reynd, að stjórnmálaflokkarnir ráða vali útvarpsráðsmanna og styrkleikahlutföll þeirra á þingi, þegar kosningin fer fram, segja til um, hve marga fulltrúa hver stjórnmálaflokkur fær kjörna. Á meðan þessi háttur er á hafður sýnist mér eðlilegt, að skipan útvarpsráðs sé jafnan í samræmi við skipan Alþ., en það getur hún af augljósum ástæðum ekki orðið nema kosning fari fram á fyrsta þingi eftir alþingiskosningar.“ “

Þetta hélt ég að væri fullskýrt fyrir hvern sem eyru hefur og heyrir og vill heyra, og þetta þrennt á auðvitað við um okkur alla alþm.

Hv. frsm. minni hl. var að tala um ofstopafullan málflutning annarra alþm. í þessu máli. Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hver fer með ofstopa hér og hver ekki?

Þá minntist hv. þm. á það, að það er í framhaldi af því sem töluvert var talað um fyrir áramótin, að það væri verið að vinna á óþinglegan hátt að framgangi þessa máls. Hann minntist á að málið hefði verið tekið fyrir í fjarveru formanns menntmn. þessarar hv. d. Ég skal að því leyti taka á mig mína sök, sem ég tel að vísu enga sök, að ég óskaði eftir því fyrir áramótin að þetta frv. fengi skjóta afgreiðslu. Ég held að menn geri það yfirleitt með frv. sem þeir flytja, og ég óskaði eftir því, enn þegar þing kom saman eftir hléið, að greitt yrði fyrir þessu máli og hv. n. vildi taka það til afgreiðslu. Ég sé ekkert athugavert við það. Það er altítt, að hv. þm. þurfa, m.a. í opinberum erindum eins og hv. formaður menntmn. var að gegna þegar hann var fjarverandi, að vera fjarverandi um sinn. Til þess eru varaformenn og allt okkar kerfi, að það sé hægt að halda áfram þingstörfum, þó að menn þurfi að víkja af þingi nokkra daga.

Varðandi það, sem einnig kom fram í ræðu þessa hv. þm., að það væri mjög óeðlilegt, að ekki hefði gefist ráðrúm til að leita umsagna um þetta mál, og þar væru brotnar þingvenjur, þá mótmæli ég því algerlega. Það eru ýmis atriði þannig vaxin og það einföld, og slíkt hefur oft komið fyrir áður, að það telst engin ástæða til þess að Alþ. spyrji ráða um þau. Það er í sjálfu sér enginn aðili eðli málsins samkv. sem á að ráðleggja þar um eða dæma hér um. Hér er bara um að ræða: Vill Alþ. kjósa útvarpsráð eftir hverjar alþingiskosningar eða vill það kjósa til fjögurra ára? Þetta hljóta hv. alþm. að gera upp við sig án þess að kalla þar til einn eða annan aðila utan þings.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil aðeins taka það fram varðandi brtt. hv. minni hl. menntmn., að ég er henni andvígur. Ég hygg að þetta ákvæði, ef að lögum yrði, væri mjög óvenjulegt í lögum, og ég tel óeðlilegt að svipta menn þannig kjörgengi til trúnaðarstarfa, sem kosið er hér á hv. Alþ., vegna þess að þeir vinni ein eða önnur störf sem brjóta ekki neitt í bága við íslensk lög og reglur. Ég legg þess vegna til að sú till. verði felld.