11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

77. mál, fiskræktarmál eldisstöðvarinnar að Laxalóni

Landbrh:

(Halldór E. Sigurðsson): Herra forseti. Á þskj. 81 er þáltill., sem hv. 1. flm., Jón Árm. Héðinsson, hv. 1. landsk. þm., var að gera hér grein fyrir áðan, og hún er um það að taka til rannsóknar störf fisksjúkdómanefndar og veiðimálastjóra af þingkjörinni n. Hér er um að ræða að mínu mati stórmál því að það eru mjög fá dæmi þess að hér á Alþ. hafi verið lögð fram þáltill. sem hafi gengið í þessa átt. Ég hef athugað það nokkuð og á s.l. 30 árum eru 5 till. sem hafa gengið í þá átt að setja upp rannsóknarnefnd til þess að rannsaka sérstaka málaflokka svo að hér er ekkert smámál á ferðinni, ekki síst þar sem þetta mál virðist fara að eiga að verða árviss þáttur hér á hv. Alþ. Ég tel mig hafa gert grein fyrir fsp. þar að lútandi á s.l. þingi og taldi því að það mundi ekki koma til þess að ég þyrfti að endurtaka nokkuð af þeim svörum sem þá voru lögð fram á hv. Alþ. En vegna þess að málið hefur nú endurtekið sig og með þeim hætti að veist er að vissum embættismönnum mjög alvarlega, þar sem t.d. því er haldið fram, eins og kom fram í bréfi því sem hv. 1. landsk. þm. las hér áðan, að veiðimálastjóri, sem er merkur embættismaður og hefur unnið hér stórkostlega mikið starf á sviði ræktunar lax og silungs í landinu, sem hægt væri að nefna óyggjandi tölur um, hafi valdið þjóðinni stórtjóni. Sama er að segja um aðra nm. í fisksjúkdómanefnd. Af þeirri ástæðu hef ég nú aflað mér meiri gagna um þetta mál heldur en ég lagði fram á hv. Alþ. í fyrra og mun skýra frá því þó að það verði að taka nokkurn tíma.

Upphaf þess máls, sem hér er til umr., er það að með bréfi 10. apríl 1951 sótti Skúli Pálsson um leyfi til innflutnings regnbogasilungshrogna. Í bréfi hans segir m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Til frekari skýringar vil ég leyfa mér að upplýsa eftirfarandi: Það er ákveðið að rækta fisktegund þessa sérstaklega í tilbúnum tjörnum, þangað til fiskurinn hefur náð ákveðinni stærð fyrir sölu á erlendum markaði.“

Ég vil vekja athygli á þessu, að leyfið er upphaflega byggt á þessu. Leyfi fyrir innflutning hrogna var veitt. Fyrsta sendingin misfórst að einhverju eða öllu leyti, en með bréfi, dags. 16. apríl 1951, veitti landbrn. aftur leyfi fyrir innflutningi hrogna gegn þeim skilyrðum, að þeim fylgdi vottorð erlendis frá um að þau hafi verið sótthreinsuð áður en þau voru flutt hingað. Gögn hafa aldrei komið fram sem sanna að þessu skilyrði hafi verið fullnægt.

Sjúkdómarannsóknir, sem gerðar hafa verið á regnbogasilungsstofninum, hafa ekki útilokað að í honum kunni að leynast smitsjúkdómar þótt þeir hafi ekki fundist. Af þessari ástæðu hefur að ráði sérfræðinga verið sýnd varkárni í að dreifa regnbogasilungi um Ísland og slík dreifing til þessa ekki verið leyfð. Árið 1964 synjaði rn. um leyfi til að flytja regnbogasilungsseiði að Búðaósi. Af þeirri ákvörðun rn. spunnust málaferli þar sem Skúli Pálsson krafði ríkissjóð skaðabóta. Ríkissjóður var sýknaður af kröfu Skúla og í forsendum í dómi Hæstaréttar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gagnáfrýjandi (þ.e. Skúli Pálsson) fékk í upphafi leyfi til að flytja hingað til lands regnbogasilungahrogn í þeim tilgangi að rækta fiskinn til sölu erlendis, en silungstegund þessi var þá ekki til hér á landi. Í leyfi þessu fólst ekkert vilyrði til gagnáfrýjanda um að hann mætti vænta þess að fá heimild til þess að selja innanlands lífandi fisk eða hrogn. Síðari aðgerðir eða staðfest afstaða rn. gáfu eigi heldur gagnáfrýjanda réttmætt traust til þess að telja að svo yrði. Vegna reynslu fyrri ára og með tilliti til fræðilegra viðhorfa var eðlilegt að rn. teldi að gjalda bæri varhug við flutningi og dreifingu erlendra dýrategunda innanlands, ekki síst vegna smitunarhættu, en hér er um stjórnarathöfn að ræða sem hlítir mati rn. Eigi er sannað að ákvörðun rn. sé reist á ómálefnalegum grundvelli né slíkir annmarkar séu á undirbúningi og úrlausn rn. að baki ríkissjóði bótaskyldu.“

Hér lýkur því sem vitnað er í forsendur að dómi Hæstaréttar.

Skúla Pálssyni hefur alla tíð frá því að hann flutti inn regnbogasilung sinn og hóf eldi hans staðið opið að flytja út afurðir sínar og hefur í því sambandi ekki staðið á heilbrigðisvottorðum byggðum á eftirliti og þeim rannsóknum sem íslenskir sérfræðingar eru í aðstöðu til að gera. Á s.l. ári hafa auk þess veirurannsóknir á fiski úr stöðinni farið fram í Danmörku, þar sem aðstaða til slíks er ekki til á Íslandi. Rannsóknir þessar fara fram að tilhlutan landbrn. og eru kostaðar af ríkissjóði. Dæmi munu þess að sérfræðingar okkar hafi ekki getað látið Skúla Pálssyni í té umbeðin heilbrigðisvottorð, þar sem vottorðsbeiðandi hefur ekki gefið nauðsynlegar upplýsingar svo að heilbrigðisvottorðin yrðu gefin út. Sérfræðingar hafa heldur ekki séð sér fært að sinna kröfu Skúla Pálssonar um allsherjarheilbrigðisvottorð, heldur vilja binda þau útgáfu tímavottorðs og þær afurðir sem selja á hverju sinni, enda er það í samræmi við alþjóðavenju.

Varðandi aðstöðu Skúla Pálssonar til rekstrar regnbogasilungseldisstöðvar hér á landi skal upplýst, að á grundvelli till. fisksjúkdómanefndar og að undangengnum innlendum og erlendum heilbrigðisrannsóknum leyfði rn. með bréfi 27. des. s.l. fyrir sitt leyti að flytja sótthreinsuð regnbogasilungshrogn í áformaða eldisstöð að Þóroddsstöðum í Ölfusi. Enn fremur má geta þess að áríð 1973 flutti Skúli út samkv. verslunarskýrslum fyrir tæp 1300 þús. og 1974 fyrir tæp 1500 þús. kr.

Í framhaldi af þessu vil ég nú lesa hér grg. sem Guðmundur Pétursson forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði á Keldum hefur samið. Og ég vil biðja hv. þm. að leggja eyrun við, því að hér er um mjög merkilega grg. að ræða um vandamál smitsjúkdóma í eldisfiski:

„Að undanförnu hefur þrálátlega verið veist að yfirvöldum opinberlega vegna afskipta þeirra af fiskræktarstarfsemi Skúla Pálssonar í Laxalóni. Vegna þess að flm. þáltill. þeirrar, sem nú er í annað sinn lögð fram á Alþ., virðast enn telja að einhver annarleg sjónarmið hafi ráðið afstöðu yfirvalda og jafnvel fjandsamleg viðhorf til fiskræktar, þykir nauðsyn bera til að skýra fræðilega grundvöll þeirrar varkárni sem fisksjúkdómanefnd hefur ráðlagt í meðferð regnbogasilungsstofnsins að Laxalóni.

Þekking manna á sjúkdómi í fiskum hefur lengst af verið sáralítil, en fer þó ört vaxandi hin síðari ár. Sjúkdómar eru fremur sjaldan alvarlegt og áberandi vandamál í villtum fiski við náttúrleg skilyrði, en valda þeim mun meira tjóni í fiskræktarstöðvum, enda skapast þar allgóð skilyrði til örrar tímgunar og útbreiðslu sóttkveikjanna. Flest vandamál síðari tíma í heilbrigðismálum fiska má því rekja beint eða óbeint til fiskeldis og ræktunar. Tjóns gætir fyrst og fremst í fiskeldisstöðvum og útbreiðsla fisksjúkdóma er oftast tengd flutningi á lífandi fiski, hrognum eða fiskafurðum á milli staða eða landa.

Hér á landi eru sem kunnugt er mikil verðmæti í húfi í fiskríkum og fengsælum veiðiám og vötnum. Þó að lítið hafi enn verið unnið að rannsókn á fisksjúkdómum hérlendis, er full ástæða til að ætla að við séum blessunarlega lausir við marga, ef ekki flesta þá sjúkdóma sem mestu tjóni valda á laxfiskum erlendis. Eigi að tryggja framfarir í fiskrækt á Íslandi verður að gæta þess að sýna ítrustu varkárni í innflutningi erlendra vatnafiska eða hverjum þeim aðgerðum sem stuðlað gætu að því að erlendar fiskpestir berist til landsins.

Hér skulu nú rakin nokkur dæmi um smitsjúkdóma í erlendum fiski, tjón af þeirra völdum og hvernig útbreiðsla þeirra hefur átt sér stað vegna þekkingarskorts, andvaraleysis og fyrirhyggjuleysis. Dæmi um aðra dýrasjúkdóma og innflutning þeirra til Íslands verða ekki rakin, enda gert ráð fyrir því að öllum sé kunnug raunasaga innflutnings fjárkláða, mæðiveiki og garnaveiki og fleiri fjárpesta og afleiðinga þeirra fyrir íslenskan landbúnað.

Í fyrsta lagi: Kýlapest er einn alvarlegasti og hættulegasti bakteríusjúkdómur sem þekkist í laxfiskinum. Skömmu eftir að regnbogasilungur var fyrst fluttur frá vesturríkjum Bandaríkjanna til Evrópu, tók þessa sjúkdóms að gæta í Evrópu. Olli hann miklu tjóni, einkum á urriða. Sömuleiðis fluttist hann með regnbogasilungi, að því er talið er, til austurríkja Bandaríkjanna og olli þar tjóni á lækjarsilungi. Kýlapest er nú þekkt víðast hvar um heiminn, nema í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, og vonandi finnst hún ekki hér á landi. Hún hefur valdið miklu tjóni, bæði í klak- og eldisstöðvum, jafnframt hefur hún valdið stórtjóni í ám og vötnum, m.a. á Bretlandseyjum, og er talið að hún hafi dreifst út frá klakstöðvum. Enn leikur vafi á því að óyggjandi aðferð til þess að finna heilbrigða smitbera sé þekkt. Til Svíþjóðar barst þessi veiki með innfluttum hrognum 1951.

Annað: Veiki, sem Danir kalla „drejesyge“, er talin hafa verið landlæg þar síðan 1890 að tekið var að rækta þar regnbogasilung af krafti. Talið er að regnbogasilungur sé sérstaklega næmur og hafi smitast af evrópskum urriða sem oft sé heilbrigður smitberi. Sjúkdómi þessum veldur frumdýr er eyðir brjóskvef fisksins. Kvilli þessi hefur fundist í laxi og silungi um heim allan að heita má, en einkum veldur hann tjóni í klakstöðvum. Sjúkdóms þessa varð fyrst vart í Bandaríkjunum 1956. Talið er að hann hafi borist þangað með frystum, innfluttum regnbogasilungi, og líkur eru á því að þannig hafi hann borist til Skotlands fyrir fáeinum árum. Sjúkdómi þessum má útrýma úr klakstöðvum. En berist hann í ár eða vötn verður sýklinum ekki útrýmt. Verða fiskar úr þeim þá stöðug ógnun við heilbrigða stofna annarra staða og litlar líkur eru á því að erlendir kaupendur fengju að flytja inn slíkan fisk, jafnvel þótt dauður væri og frystur.

Egtved-veiki er veirusjúkdómur sem valdið hefur miklu tjóni í regnbogasilungi í Danmörku og viðar á meginlandi Evrópu. Hans varð fyrst vart í Egtved í byrjun árs 1950, en regnbogasilungurinn í Laxalóni var fluttur til Íslands frá fiskræktarmanni í grennd við þá stöð árið 1951. Lítið var vitað um eðli og útbreiðslu þessa sjúkdóms þegar Laxalónsstofninn var fluttur til Íslands, en tæpast dylst nokkrum manni sem þekkir til þessa sjúkdóms að silungsstofninn í Laxalóni þyrfti að kanna til hlítar áður en nokkur áhætta væri tekin í sambandi við dreifingu regnbogasilungsins hérlendis. Undanfarna tvo áratugi hefur Egtved-veikin valdið dönskum fiskræktarmönnum þyngri búsifjum en allir aðrir fisksjúkdómar og hefur danska ríkið reynt með óhemju fjárútlátum, niðurskurði og fiskaskiptum að útrýma honum úr sýktum eldisstöðvum.

Síðast, en ekki síst skal talinn veirusjúkdómur, sem venjulega gengur undir nafninu IPN. Þessa sjúkdóms mun fyrst hafa orðið vart í Kanada 1940, 1955 gekk IPN-faraldur á austurströnd Bandaríkjanna og 1963 hefur hann borist til vesturríkjanna. Með hrognum barst hann svo til Frakklands og er lýst þar 1965. Og 1968 verða Danir fyrst varir við hann. En rekja má uppruna hans í Danmörku til innflutnings silungshrogna frá Frakklandi árið 1960, en sum tilfellin til innflutnings silungshrogna frá Bandaríkjunum 1963. Á það skal sérstaklega bent, að enginn varð var við þennan sjúkdóm í 7–8 ár eftir að hann var fluttur til landsins og hann kom fyrst fram svo að tekið væri eftir í þriðja ættlið regnbogasilunga þeirra sem upp voru ræktaðir af hinum innfluttu, frönsku hrognum. Engin leið er þekkt til að sótthreinsa lífandi hrogn svo að duga megi gegn IPN-veirunni, þar sem hún getur leynst inni í hrognunum og þangað nær ekkert sótthreinsunarlyf án þess að drepa hrognin um leið. Erfitt getur verið að greina sjúkdóminn, einkum einkennalausa smitbera, enda gefa slíkir smitberar ekki veiruna stöðugt frá sér, heldur getur það verið með höppum og glöppum. Sem dæmi um það hve erfitt er að ganga úr skugga um það hvort IPN-veira sé til staðar í fiskstofni, má skýra frá því að dýralæknarannsóknastofnun ríkisins danska tók sýni frá öllum hrygnum í tilraunastöð Dana árið 1970, áður en þær voru fluttar ásamt hrognum í aðra eldisstöð sem þurrkuð hafði verið og rækilega sótthreinsuð. Ekki fundust veirur í einu einasta þessara sýna. En viti menn, sjúkdómurinn kom upp í seiðum sem klakið var út í hinni nýju eldisstöð þrátt fyrir allt. Þetta sýnir að veiruræktun verður seint alveg byggjandi þegar um neikvæðar niðurstöður er að ræða.

Þess skal enn getið, að haustið 1973 tók danskur sérfræðingur í veirusjúkdómum fiskablóðsýni úr regnbogasilungi í Laxalóni. Blóðsýni þessi innihéldu mótefni gegn IPN-veiru og sum í miklum mæli. Ástæða er til að undirstrika það að langoftast finnast slík mótefni einungis í þeim mönnum eða dýrum sem komið hafa í nána snertingu við viðkomandi sóttkveikju, annaðhvort með sýkingu eða þá með bólusetningu. Nú er ekki vitað til þess að silungurinn í Laxalóni hafi verið bólusettur. Er þá sterkur grunur á því að hann hafi einhvern veginn komist í kynni við veiru a.m.k. er svipar til IPN. Skylt er þó að geta þess að við endurteknar ræktunartilraunir um eins árs skeið hefur ræktast IPN-veira og raunar hafa svipuð mótefni fundist víða um heim í regnbogasilungi án þess að IPN-veira ræktaðist jafnframt. Er því óvíst, hvernig beri að túlka þessar niðurstöður. En hverjum góðgjörnum og hugsandi manni getur tæplega dulist að þörf var og er á ítrustu varfærni þegar slíkar niðurstöður liggja fyrir og hefði það verið ófyrirgefanlegt ábyrgðarleysi af hálfu fisksjúkdómanefndar að leyfa flutning á slíkum fiski án þess að þrautkanna áður með endurteknum ræktunartilraunum, hvort lífandi veira fyndist í stofninum. Þess má og geta að fleiri en einum stofni af IPN-veirum hefur verið lýst í Danmörku og er á þeim nokkur munur hvað snertir sérvirkni mótefna og hversu áberandi sjúkdóm þær framkalla. Er því hugsanlegt að til hafi verið stofn af IPN í dönskum silungi áður en fyrrgreindir stofnar bárust frá Frakklandi og Bandaríkjunum. Hafi svo verið kynnu slíkar veirur að hafa borist með innfluttum hrognum til Laxalóns um áríð.

Enn skal þess getið, að regnbogasilungshrogn voru flutt frá Laxalóni a.m.k. í tvo staði í Danmörku árið 1972. Miklar varúðarráðstafanir voru gerðar í Danmörku því að freista átti þess að ala upp heilbrigðan fisk af hrognum þessum. Þrátt fyrir það kom upp IPN í fiskum sem aldir voru upp af hrognum þessum á öðrum staðnum og ræktaðist IPN-veira frá þeim. Vissulega kann þessi fiskur að hafa smitast í Danmörku þrátt fyrir varúðarráðstafanir, en óneitanlega varð þetta til þess að hvetja yfirvöld hér til enn frekari varkárni.

Hér á undan hafa verið leidd rök að því að nauðsyn ber til að sýna ítrustu varkárni í meðferð regnbogasilungs á Íslandi og dreifingu hans um landið. Því hefur oft verið haldið fram að neitað hafi verið um heilbrigðisvottorð vegna útflutnings regnbogasilungs frá Laxalóni. Mest af þessum ásökunum er hreinn uppspuni frá rótum og skal hér engum getum að því leitt hvað veldur slíkum málflutningi. Hinu ber ekki að neita, að yfirvöld ýmissa ríkja eru mjög miskröfuhörð um það á hvað viðtæku og umfangsmiklu eftirliti, ræktun og prófun slík vottorð eiga að byggja, áður en þau eru tekin gild. Einna kröfuharðastir í þessum efnum eru bandaríkjamenn og höfum við hér á landi ekki treyst okkur til þess að koma á svo kostnaðarsömu og viðtæku eftirliti að nægja mundi til að uppfylla óskir þeirra.

Til þess að gera mönnum ljósara, hvers konar kröfur bandaríkjamenn gera, skal þess getið, að danir, einhver mesta fiskræktarþjóð Evrópu, fluttu áður út mikið magn regnbogasilungs á Bandaríkjamarkað. Árið 1958 nam útflutningur Dana þangað 1.5 millj. punda og fékkst fyrir það um 500 þús. dollara virði. Árið 1961, eftir að bandaríkjamenn höfðu sett fram sínar ströngu kröfur um eftirlit það sem heilbrigðisvottorð ætti að byggjast á, þá hrapaði útflutningur dana niður í 20 þús. pund, jafnvirði 6 604 dollara. Síðan hafa danir beint öllum útflutningi sínum til annarra landa og hafa fundið þar markað fyrir sinn regnbogasilung. Í Danmörku eru um það bil 500 eldisstöðvar. Þeir hafa sérstaka rannsóknarstofu sem sinnir eingöngu veirurannsóknum í fiski. Þeir kjósa samt að beina útflutningi sínum annað og geta það. Varla getur nokkurn undrað þó að íslendingar séu ekki í aðstöðu til þess að slá þar dönum við, en vonandi kemur að því fyrr en síðar að við eigum vel menntaða sérfræðinga í fisksjúkdómum, eins og lög gera ráð fyrir, og mun það að sjálfsögðu gerbreyta ástandi þessara mála hér.

Á það skal að lokum bent að fisksjúkdómanefnd var sett á stofn af Alþ. með lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Ákvæði um það, hverjir skipi n., og störf hennar er að finna í X. kafla þessara laga. Vantreysti hið háa Alþ. n. til þeirra starfa, sem henni eru ætluð, svo mjög að það sjái ástæðu til að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til þess að kanna störf hennar, virðist eðlilegast að ákvæðum fyrrnefndra l. um fisksjúkdómamál sé breytt á þann hátt sem tryggi farsæla þróun að dómi alþm.

Þetta er undirskrifað af Guðmundi Péturssyni, sem er forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans á Keldum.

Þá vil ég þessu næst — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa hér upp úr bréfi yfirdýralæknis sem er form. fisksjúkdómanefndar, en ég treysti mér ekki til að lesa þessi bréf öll, því að þau eru of löng til þess. Hins vegar mundi ég geta látið hv. allshn. þau í té og tel reyndar brýna nauðsyn að þau komist inn í skjöl Alþ. En á bls. 4., þar sem komið er að 5. lið í frásögn yfirdýralæknis, segir svo — með leyfi hæstv. forseta:

„Heilbrigðisvottorð: Oft hefur verið deilt á opinbera aðila og fisksjúkdómanefnd fyrir það að eigi væri hægt að fá heilbrigðísvottorð með seiðum, hrognum og vatnafiski vegna útflutnings. Hér er um algeran uppspuna að ræða, hver svo sem ástæðan er fyrir slíkum dylgjum. Heilbrigðisvottorð hafa verið látin af hendi eftir því sem efni standa til hverju sinni til þeirra sem þess hafa óskað og hefur það verið í verkahring yfirdýralæknis. Skal nú drepið nokkuð á þessi mál almennt, þar sem sumir eru málum þessum ókunnugir.

Um langt árabil hefur verið nauðsynlegt að gefa út heilbrigðisvottorð með öllum sendingum af búfjárafurðum, hvalaafurðum, lífandi dýrum o.s.frv. sem seldar eru til útlanda. Án þess fæst ekki að flytja vörur þessar inn í önnur lönd. Hér er fyrst og fremst um varúðarráðstöfun að ræða, því að alkunnugt er að hvers konar búfjárafurðir, að ekki sé talað um lifandi dýr, geti borið sjúkdóma þegar illa tekst til. Þeir sem slík vottorð láta af hendi í rétti embættis, verða að gæta þess að þau veki aldrei tortryggni eða vantrú, t.d. með alhæfingum sem eigi fá staðist, ónákvæmu orðalagi o.s.frv. Jafnframt þarf að koma fram á vottorðum við hvaða sendingu vottorðið á. Því þurfa að koma fram nákvæmar upplýsingar um magn, merkingu móttakanda, tegund, pökkunareiningu o.s.frv., þannig að móttakandi og viðkomandi yfirvöld þar í Íandi geti áttað sig án alls efa á því að tiltekið vottorð eigi við tiltekna sendingu. Ella er vörunni oft og tíðum vísað frá, vottorðsgjafi hefur tapað trausti og jafnvel landið, sem vöruna sendi, tapað áliti. Þeir, sem vanir eru viðskiptum af þessu tagi, vita um þýðingu þessara atriða. Sem dæmi má nefna að árlega eru gefin út vottorð í hundraðatali með útfluttum landbúnaðarvörum, hvalafurðum, skepnum o.s.frv., jafnóðum og vörur þessar eru fluttar úr landi. Þær hafa verið kannaðar af trúnaðarmönnum þess, sem vottorð gefna, eða af honum sjálfum.

Hin síðari ár hafa mörg lönd sett reglur um innflutning á seiðum og hrognum og vatnafiski í eldisstöðvum. Er þar að jafnaði ákvæði um að slíkum innflutningi skuli fylgja heilbrigðisvottorð er tilgreini að eigi hafi orðið vart ákveðinna sjúkdóma á stöð þeirri eða í landi því sem afurðir koma frá. Ástæðan fyrir þessu er sú að þráfaldlega hafa smitsjúkdómar fiska borist milli landa með hrognum eða lifandi fiski.

Kröfur um gerð þessara vottorða eru misjafnar, en þó munu enn lönd sem gera engar kröfur um slík vottorð. Þeir aðilar hér á landi, sem óskað hafa eftir því að fá heilbrigðisvottorð með hrognum eða seiðum, hafa alltaf fengið þau þegar fyrir hafa legið nauðsynlegar upplýsingar um magn, tegund, móttakanda o.s.frv. Hafa vottorð verið látin af hendi eftir því sem efni hafa staðið til hverju sinni. Stundum hefur þess verið óskað að fylgst væri með pökkun og útbúnaði sendinga og hefur verið reynt að verða við þeim tilmælum. Þegar þess hefur hins vegar verið óskað að yfirvöld ábyrgðust fyrir fram að fullgild heilbrigðisvottorð yrðu gefin út vegna útflutnings á seiðum eða hrognum sem fram ætti að fara að svo eða svo löngum tíma liðnum, hefur yfirdýralæknir ekki talið sér fært að verða við þeim tilmælum, þar sem hann er þess ekki megnugur að sjá svo langt inn í framtíðina. Því hefur aðeins verið hægt að lofa því að heilbrigðisvottorð yrðu gefin út að öllu óbreyttu þegar á þeim þyrfti að halda.

Fyrir tveimur árum var spurst fyrir um það af dönskum aðila, hvort fisksjúkdómanefnd gæti borið ábyrgð á að eldisstöðin í Laxalóni væri laus við alla sjúkdóma, eins og það var orðað, og átti þá sú ábyrgð væntanlega að standa um einhverja ótiltekna framtíð. Ekki treysti fisksjúkdómanefnd sér til þess. Ljóst ætti að vera að vottorð um heilbrigði fiska nær eingöngu fram til þess tíma, þegar vottorðið er gefið út. Það er hins vegar ógerlegt að spá neinu um hvernig heilsufari fiska í eldisstöð verður háttað í framtíðinni og því þykir ekki fært að gefa út um það neitt vottorð eða yfirlýsingu eins og farið hefur verið fram á. Ég hygg að Skúli Pálsson eða handbendi hans hafi ekki áttað sig á þessu og þess vegna sé haldið á lofti dylgjum og ósönnum fullyrðingum um tregðu á vottorðagjöf. Ég vil endurtaka það sem fyrr er sagt, að heilbrigðisvottorð hafa útflytjendur hrogna og seiða frá eldisstöðvum alltaf fengið og hafa þau verið orðuð í samræmi við þá vitneskju sem tiltæk hefur verið.

Ég hef í stuttu máli rakið störf fisksjúkdómanefndar þau 4 ár sem hún hefur starfað. N. hefur leitast við að sinna þeim atriðum sem lög um lax- og silungsveiði gera ráð' fyrir að n. hafi afskipti af. Störf hennar eru ekki mörg eða merkileg. En telji hið háa Alþ. þörf á því að rannsaka störf n. sérstaklega, eins og till. liggur fyrir um, með því að kjósa til þess sérstaka rannsóknarnefnd, mun fisksjúkdómanefnd fús að veita slíkum herrum frekari upplýsingar, enda þótt slík rannsókn sé næsta einstæð í okkar þjóðfélagi þegar um er að ræða ráðgefandi n. sem lögin ljá ekkert framkvæmdavald og ekki eina krónu á fjárl. til starfsemi sinnar.“

Þetta er undirritað af Páli A. Pálssyni yfirdýralækni.

Hér hef ég svo að lokum nokkuð úr svari veiðimálastjóra. Þótt lestur minn sé orðinn æðilangur, þá finnst mér nú ástæða til að halda honum áfram því að ég tel að hér sé stórmál á ferðinni þegar teknir eru þrír embættismenn og farið er fram á að setja sérstaka rannsókn á þá og þar er um að fjalla mál sem ekki verða úrskurðuð nema af sérfræðingum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta — en þar verð ég einnig að stytta mál mitt — um samskipti veiðimálastjóra og Skúla Pálssonar sem hv. 1. flm. er nú þegar búinn að gera allmikið að umtalsefni:

„Þá hefur Skúli Pálsson,“ segir veiðimálastjóri, „ásakað stjórnvöld um að láta sér ekki í té næga fyrirgreiðslu við uppbyggingu fiskeldisstöðvar sinnar. En staðreyndin er hins vegar sú að á árunum 1952–1955 fær hann fjárhagsstuðning sem nemur 415 þús. kr. frá opinberum aðilum, þ.e. beinan styrk úr ríkissjóði 100 þús., lán úr Ræktunarsjóði og Fiskimálasjóði 165 þús. og ríkisábyrgð fyrir 150 þús. kr. Haustið 1954 gerði verkfræðingur áætlun um kostnað við byggingu mannvirkja til klaks og fiskeldis að Laxalóni eins og þau voru þá. Komst hann að þeirri niðurstöðu að hæfilegur kostnaður við byggingu mannvirkis ætti að hafa verið nálægt 160 þús. kr., en í l. er gert ráð fyrir að styrkja fiskræktarmannvirki um allt að 1/3 af áætluðum byggingarkostnaði. Á árunum 1955 hóf Skúli Pálsson að byggja frystihús að Laxalóni þar sem frysta átti regnbogasilung til útflutnings. Til frystihússins fékk hann á næstu árum ríkisábyrgð að upphæð 1743 þús. kr. og ,lán úr Fiskimálasjóði 140 þús. kr. Í ársbyrjun 1965 seldi Skúli Pálsson frystihúsið. Þegar eldisstöðin á Laxalóni hafði starfað í um áratug, virtist hafa dregið úr rekstri hennar og varaði það ástand í nokkur ár. Haustið 1964 er eldishúsið leigt Látravík hf. og hluti stöðvarinnar var einnig í leigu þeirra a.m.k. frá vorinu 1965 til maíloka 1967, en þá tók Skúli Pálsson við allri stöðinni á ný og hefur rekið hana síðan. Nú síðustu árin hefur mikil áhersla verið lögð á eldi laxaseiða í göngustærð og mikil sala gönguseiða hefur átt sér stað ef dæma má eftir fréttum í fjölmiðlum um það efni.

Eftirspurn eftir hrognum, seiðum og neysluhæfum regnbogasilungi hefur verið lítil innanlands. Á ca. fyrstu 15 ára starfsferli stöðvarinnar er fjórum sinnum óskað eftir kaupum á regnbogasilungshrognum hjá Skúla Pálssyni, eða 1955, 1958, 1959 og 1964. Í tvö skipti var Skúli Pálsson tilleiðanlegur til þess að selja regnbogasilungshrogn. Þá er vitað um nokkra sölu á regnbogasilungi til neyslu innanlands og þá nokkra tugi kg í hvert skipti. Skúli Pálsson hefur haldið því fram að hann hafi ekki fengið leyfi til þess að flytja út regnbogasilung og hrogn. Slíkt leyfi er gefið út af viðskrn. og er ekki vitað til að honum hafi verið neitað um slíkt leyfi eins og áður er getið.“

Þetta er það sem veiðimálastjóri hefur um málið að segja. Annað er svo náið því sem ég hef þegar lesið upp úr skýrslum þeirra sérfræðinga sem ég hef hér vitnað til.

Herra forseti. Ég mun nú fara að stytta mál mitt. Ég vil vekja athygli á því að hér er ekkert smámál á ferðinni. Það er ekkert smámál ef hv. Alþ. sér ástæðu til að samþykkja þál. um það að setja skuli sérstaka rannsóknarnefnd á þá sérfræðinga sem hafa sýnt fyllstu varfærni í meðferð á sjúkdómum í eldisfiski. Skýrsla Guðmundar Péturssonar sannar svo að ekki verður um villst að hér er ekki fyrir leikmann um að dæma hvort eigi að gefa út tilhlýðandi vottorð eða ekki. Og frásögn. Páls Agnars Pálssonar um það að slíkir embættismenn eigi ekki að gefa út vottorð nema þeir hafi til þess möguleika að vera öruggir um að þeir sjálfir trúi því að þau séu gefin út á réttum forsendum. Ef hv. Alþ. ætlar sér að álykta á þann veg að embættismenn íslenska ríkisins eigi að fara að gefa út vottorð alveg án tillits til þess hvort þeir geta metið það rétt, sem þeir eru að fjalla um eða ekki þá eru ný vinnubrögð tekin upp í embættiskerfi ríkisins og það mun verða afdrifaríkt. Og ég vildi segja það að lokum að þeir, sem hafa áhuga á fiskeldi í þessu landi, kæra sig ekki um að fá þar sjúkdóm eins og hefur veríð fluttur inn í annan bústofn hér á landi. Þeir eiga að gjalda varhuga við því að það séu ekki sleggjudómar kveðnir hér upp um störf varfærinna og heiðarlegra embættismanna. Ég verð því að endurtaka það að hér er um stórmál að ræða og ég tel að skýrslur þessara embættismanna sanni það sem flm. eru að leita eftir svo að ekki þurfi þar framar vítnanna við. En færi svo, sem mér dettur ekki í hug að verði, að hv. Alþ. færi að álykta á þá leið að þessa menn ætti að setja undir sérstaka rannsókn af því að þeir hafa unnið sín embættisstörf af samviskusemi og varfærni, þá er Alþ. að fara inn á þá braut sem það hefur enga sæmd af.