13.02.1975
Efri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út á þann hála ís að fara að svara síðasta hv. ræðumanni. Ræður þeirra Alþb.manna eru svo líkar, að það væri jafnvel hægt að gefa út fjölritað eintak til allra þeirra andstæðinga og afhenda þeim það sem svar áður en þeir hefja sitt mál. Ég er þó ekki að öllu leyti ósammála honum eða þeim sem hér hafa talað á móti aðgerðum ríkisstj. Ég vil á sama hátt og aðrir þeir hv. þm., sem tekið hafa til máls, harma það að svo skuli nú komið í efnahagsmálum þjóðarinnar að grípa þurfi til þeirra ráðstafana sem Seðlabankinn nú leggur til, þ.e. gengislækkunar. Verð ég að viðurkenna, að mér er heldur illa við þessa gengislækkun og tel hana ekki leysa efnahagsvanda þjóðarinnar til neinnar frambúðar. Að þessu leyti er ég þeim sammála. En ég vil þó taka það fram þegar í upphafi máls míns, að ég mun styðja fram komið frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi ísl. krónunnar. Ég vil þó leyfa mér á þessu stigi máls míns að harma þau ummæli sem mér hafa borist til eyrna að hæstv. viðskrh. hafi viðhaft í umr. um þetta frv. í Nd. í gærkvöld og snerta verslunarstéttina og þá aðallega þær vörubirgðir innfluttra vara sem þegar eru tollafgreiddar hjá innflutningsfyrirtækjunum. Mér skilst að hæstv. viðskrh. hafi lýst því yfir að óheimilt yrði innflutningsaðilum að endurmeta til nýs verðs vörubirgðir til samræmis hinu nýja verði, hvað sem það nú kann að verða eftir gengislækkunina.

Hér á sér stað enn einu sinni hrein eignaupptaka á vörubirgðum sem ég vil mótmæla. Ég get ekki undirstrikað nægilega að ég vil mótmæla þeirri eignaupptöku sem á sér stað með þessum aðgerðum gagnvart verslunarstéttinni. Verslunarstéttin hefur við undanfarnar gengislækkanir orðið að þola slíkar eignaupptökur, og hljóta þm. að sjá og skilja að engin stétt þolir slíkar aðgerðir til lengdar og reglulega með stuttu millibili. Það hlýtur öllum að vera ljóst.

Efnahagssérfræðingar ríkisstj. virðast ekki hafa önnur úrræði en skattlagningar og gengislækkanir, og harma ég það alveg sérstaklega. Þegar vandi steðjar að í efnahagsmálum ætlast þjóðin til þess að sparnaður og samdráttur eigi sér fyrst stað í ríkisbúskapnum, og ég vil nota tækifærið hér úr ræðustól og taka undir með hæstv. utanrrh. þegar hann viðhafði þau ummæli í sjónvarpsviðtali að þjóðinni bæri skylda til, ef ég man orð hans, að leggja á það áherslu að neyta fyrst og nota íslenskar afurðir, innlendar afurðir. Það er þó eitt sem ríkisstj. og Alþ. gætu haft að leiðarljósi í sambandi við áróður fyrir spanaði: Í þjóðarbúskapnum ber ríkisstj. að að draga saman í stað þess að þenja út, eins og átt hefur sér stað undanfarin ár. Ég er ekki þar að tala um neina sérstaka ríkisstj. eða sérstaka aðila. Undanfarin ár hefur verið útþensla í ríkisbúskapnum og ber að stefna að því að draga saman og létta undir með undirstöðuatvinnuvegunum í stað þess að íþyngja þeim, t.d. með þungum sektarvöxtum Seðlabankans o.s.frv. Það þarf að leggja niður óþarfar stofnanir ef þær eru til. Fólkið talar um að þær séu til. Ég skal ekki fullyrða að órannsökuðu máli hvort ríkisbúskapurinn ber óþarfar stofnanir, en ef þær eru til, þá ber að leggja þær niður.

Ég ítreka að það þarf að byrja á því að spara og spara eins og hægt er í ríkisbúskapnum sjálfum. Þegar það hefur verið gert af þeirri samviskusemi sem ég veit að núv. hæstv. ríkisstj. mun gera, ef hún á annað borð snýr sér að því af fullum krafti, þá þarf að liggja fyrir útkoma úr því dæmi hvað gengislækkun þarf að vera mikil, ef hún þarf þá að vera nokkur. Þegar sparnaðaráætlanir hafa verið framkvæmdar á að reikna út hvað þarf að bæta við með gengislækkun eða öðrum ráðstöfunum.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að efnahagssérfræðingarnir hljóti að þekkja aðrar leiðir en hér eru farnar og þeir komi fram með þessar leiðir og láti reyna á það, sem almennt er rætt meðal fólksins, hvort kjarkur er fyrir hendi hjá stjórnmálamönnum til að gera þær ráðstafanir, sem þarf að gera til þess að snúa ríkjandi efnahagsástandi í blómlegt þjóðarbú.

Öllum þm. er ljóst að hjá gengislækkun nú verður ekki komist. Ég endurtek að ég harma það. Og einmitt vegna þess að hjá henni verður ekki komist, mun ég styðja fram komið frv. En verslunarstéttin hrekkur við í hvert skipti sem um gengisbreytingar er talað eða þær boðaðar, og það er langt frá því að sú hugsun sé rétt, að verslunarstéttin hagnist á gengislækkunum. Það er þvert á móti að verslunarstéttin tapar á gengislækkun. Gengislækkanir breyta bjartsýni innan verslunarstéttarinnar í ótta við væntanlegar ráðstafanir. Sú er reynslan. Ég efast um að það komi meira við nokkurn atvinnurekstur en einmitt verslunarstéttina. Í hvaða greinar það skiptist er annað mál, hvort það er innan fisksölu, útflutnings eða innflutnings. Því hafa forustumenn hennar nú ritað bréf til hæstv. ríkisstj., sem mér hefur borist afrit af og ég ætla að leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, en það hljóðar svo:

„Verslunarráð Íslands telur brýna nauðsyn bera til þess að taka upp þá stefnu í verðlagsmálum, þegar gengisfelling á sér stað, að birgðir innfluttra vara verði endurmetnar til nýs verðs í samræmi við hið nýja gengi. Verði svo ekki gert má telja fullvíst, að svo fari nú sem jafnan hefur gerst áður eftir gengisfellingar, að vörubirgðir, sem seldar eru á gamla verðinu, hverfi á fáum dögum úr verslununum með þeim afleiðingum að innflutningur stóreykst.

Hér er því um að ræða, hvort gengisfellingin á að ná þeim tilgangi sínum í fyrsta umgangi að draga úr innflutningi eða auka hann.

Jafnframt þessu er óhjákvæmilegt að benda á, að nú getur verslunin alls ekki sætt sig við að almenn verslunarálagning verði lækkuð, svo sem oft hefur verið gert áður þegar gengisfelling hefur átt sér stað. Um allan rökstuðning í þessu máli vísast til erindis sem verðlagsnefnd hefur þegar borist í okt. s.l. ár.“

Ég ætla ekki að lesa meira úr þessu bréfi. En ég vil benda á það, að jafnframt því sem verslunarstéttin verður að þola þá eignaupptöku sem ég minntist á áðan og að krónutöluálagning yrði látin halda sér, er ríkisfyrirtæki, sem stundar innflutning, með nýja álagningu, endurmat á gömlum birgðum og heldur sinni prósentutölu, og þá sér hver einstakur hvort ríkið sjálft metur ekki nauðsynlegt að álagning haldist óbreytt í prósentutölu.

Ég held að það fari ekki á milli mála, eins og kom hér fram hjá hv. 1. landsk., að þær ráðstafanir, sem ríkisstj. eða Seðlabankinn eða aðrir bankar hyggjast nú gera, eru m.a. þær að þrengja að peningamarkaði bankanna, þannig að versluninni sé ókleift að stunda sín skyldustörf við þjóðfélagið og einstaklinga.

Þessar upplýsingar eru ógnvekjandi fyrir verslunarstéttina. Segja má að á öllum sviðum sé beint að henni spjótum. Ég veit ekki hvort það vantar skilning á því, að fjárvana verslunarstétt, ófær um að gegna sínum skyldustörfum, hlýtur að vera böl hjá hvaða þjóðfélagi sem er. Ég held það fari ekkert á milli mála, að verslunarstéttin er fjárvana. Og láglaunamaðurinn er alveg jafnfjárvana. Við getum ekki ætlast til þess að engar breytingar verði gerðar honum til handa. Ég get ekki séð í dag, án breytinga, hvernig fólk getur lifað af 10 500 kr. á viku eftir 40 stunda vinnuviku með 7 aukavinnustundum. Það er mér alveg óskiljanlegt. Það hlýtur að vera eitthvað meira að en við gerum okkur ljóst. En ég treysti engum betur en núv. ríkisstj. til þess að bæta þar úr, því að ég veit að þar vantar ekki viljann.

Ég vil sem sagt ítreka það, að ég tel mér ekki fært á þessu stigi að standa gegn þessari gengislækkun, þrátt fyrir það, sem ég hef þegar sagt, og mun styðja fram komið frv. í von um að tillit verði tekið til verslunarstéttarinnar og hagsmuna þeirra lægst launuðu, því að hagsmunir verslunarstéttarinnar og hagsmunir fólksins fara ávallt saman. Það verður ekki aðskilið.