27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil helst leyfa mér að líta þannig á, að ákvæðið um að þeir, sem búa við olíukyndingu, skuli ekki fá niðurgreiðslu síðustu 3 mánuði áður en hús þeirra eru tengd við hitaveitu, sé ekki til orðið eingöngu vegna þess, að fyrst og fremst munu það verða hús í Reykjanes kjördæmi sem verða tengd við hitaveitu á þessu ári. Hins vegar er því ekki að neita, að það hefur komið fram hér í umr., að aðaltengingar mundu þá fara fram á þessu svæði. Ég verð að lýsa því yfir, að ég mun fylgja þessu frv. í því formi sem það er núna, þar sem hér er aðeins um þriggja mánaða tímabil að ræða sem fólkið verður ekki aðnjótandi þessa styrks. Hins vegar geri ég það ekki síst vegna þess, að ég álít að hér sé um stefnumál að ræða og meðan olía verður greidd niður muni þetta verða í lögum, enda þótt það verði ekki í Reykjaneskjördæmi, sem aðaltengingar fara fram.

Það, sem kemur mér svolítið á óvart, er að notuð skuli vera þessi orð: að tengja við hitaveitu, en ekki innlenda orkugjafa. Síðan ég kom á Alþing hefur verið mikið um það rætt, að við yrðum að hraða raforkuframkvæmdum mjög í þessu landi til þess einmitt að geta hitað hús okkar upp með rafmagni. Þetta hefur tekist að verulegu leyti, og mér er kunnugt um að það eru ekki fá hús sem verða tengd við raforkuna einmitt á þessu og næsta ári. En þá virðist koma í ljós, að þrátt fyrir þær gífurlegu hækkanir sem orðið hafa á olíunni, þá greini menn á um það, hvort muni verða dýrara að kynda með olíu eða rafmagni. Ég lít svo á, að það sé svolítið erfitt að komast að hinu sanna í þessu efni. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef skynsamleg notkun er og rétt að farið, þá hljóti afgangsorka að vera ódýrari til rafhituvar á húsum heldur en olía. Hins vegar er mér jafnljóst, að við lítum of stórum augum og með of mikilli bjartsýni á þau hlunnindi að njóta Hitaveitunnar. Þegar við tölum um Hitaveitu Reykjavíkur verðum við að gera okkur grein fyrir því, að þetta er milli 30 og 40 ára gamalt fyrirtæki, sem er afskrifað að mjög miklu leyti og getur selt sína hitaorku miklu ódýrar en nokkur önnur hitaveita í landinu. Og ég veit ekki betur en hitaveitur sem verið er að undirbúa núna, — ekki þær hitaveitur, sem eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu, — muni verða að gera ráð fyrir allt öðrum kostnaðarhlutföllum; en um er að ræða þegar verið er að bera saman kostnað við upphitun með hitaveituvatni frá Reykjavík og með rafmagni. Því held ég, að við getum ekki búist við því í framtíðinni að svo mikill munur verði á upphitun húsa með hitaveituvatni og olíu og við fáum uppgefið frá Þjóðhagsstofnuninni í dag. En þrátt fyrir það vona ég, að hvort sem um rafmagn eða hitaveitu er að ræða, þá hljóti það alltaf að vera kostur að fá innlenda orkugjafa til upphitunar á okkur húsum.