27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason):

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til laga um ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs,en frv. fjallar um það að stofna skuli til bráðabirgða sérstaka deild við Viðlagasjóð vegna snjóflóðanna er féllu í Norðfirði 20. des. 1974. Það er greint frá því í frv., hvert hlutverk svonefndrar Norðfjarðardeildar skuli vera, sem á að vera deild við Viðlagasjóð með sjálfstæðan fjárhag. Í fyrsta lagi á hún að bæta tjón af völdum snjóflóðanna í Norðfirði, í öðru lagi að greiða kostnað við björgun verðmæta og hreinsun rústa og athafnasvæða og í þriðja lagi að stuðla að endurbygginu atvinnufyrirtækja sem eyðilögðust eða skemmdust í snjóflóðunum. Norðfjarðardeild Viðlagasjóðs á að lúta sömu stjórn og Viðlagasjóður og hafa sömu skrifstofu og starfssvið. Þá er kveðið á um það í frv., að stjórn Viðlagasjóðs skuli hafa náið samráð við bæjarstjórn Neskaupstaðar og aðra opinbera aðila sem um málefni norðfirðinga fjalla. Þá er ákvæði um það, að á tímabilinu i. mars 1975 til 31. des. 1975 skuli leggja 2% viðlagagjald á söluskattsstofn allra sömu aðila og lög nr. 10 frá 1960, um söluskatt, taka til.

Fjh.- og viðskn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls og flyt ég hér framsögu fyrir meiri hl. n., en nál. meiri hl. er svo hljóðandi:

„Fjh.- og viðskn. hefur rætt málið á tveimur fundum, en annar fundurinn var sameiginlegur með fjh.- og viðskn. Ed. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl., undirritaðir nm., leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem getur á sérstöku þskj. Lúðvík Jósepsson er efnislega samþykkur frv., en gerir grein fyrir afstöðu sinni í sérstöku nál.

Alþingi 27. febr. 1975.

Ólafur G. Einarsson, form. Lárus Jónsson, fundaskr. Tómas Árnason, frsm. Þórarinn Þórarinsson, Eyjólfur K. Jónsson.“

brtt., sem meiri hl. fjh.- og viðskn. stendur að, er á sérstöku þskj., nr. 315, og á þá leið að á frv. á þskj. 307 verði gerð sú breyt. að fella niður 6. gr. eins og hún er í frv., en að í stað 6. gr. komi ný gr., sem verði þá 6. gr., svo hljóðandi: „Stjórn Viðlagasjóðs er heimilt í samráði við stjórn Bjargráðasjóðs að bæta tjón, sem orðið hafa af náttúruhamförum eða verða annars staðar á landinu.“

Það liggur fyrir lausleg áætlun með það tjón, sem varð vegna snjóflóðanna í Neskaupstað 20. des. s.l. Þessi áætlun er lögð fram sem fskj. með frv. og er lausleg, eins og þar er tekið fram, gerð af Viðlagasjóði um útgjöldin vegna þess tjóns sem varð á Norðfirði. Áætlunin gerir ráð fyrir í fyrsta lagi, að tjón vegna björgunar og og hreinsunar nemi 50 millj. kr., tjónabætur vegna fasteigna 135 millj. kr., véla, tækja og lausafjár 225 millj. kr., aðrar bætur verði 40 millj., kostnaður Viðlagasjóðs 10 millj. og ýmislegt ófyrirséð 40 millj., eða samtals 500 millj. kr. Þessi áætlun miðast við, að síldarverksmiðja sé ekki endurreist á sama stað og að fallist verði á að bæta yfirgefin verðmæti.

Ég tel ástæðu til að taka sérstaklega fram, og hygg ég að hafi verið samkomulag um það meðal allra nm., að n. lítur svo á að bæta beri að fullu tjón vegna olíuhreinsunar, en eins og kunnugt er lak niður mikið magn af olíu í Neskaupstað vegna þess að olíugeymar lentu í snjóflóðinu og eyðilögðust. Það er geysilega mikið verk að hreinsa olíuna og þegar snjóa tekur upp verður geysimikið magn af olíu á jörðinni og mikið verk og áreiðanlega dýrt að hreinsa það burtu. N. er sammála um það, að líta beri svo á að bætt verði að fullu tjón vegna þessara hreinsunaraðgerða.

Fskj. 2. sem fylgir með frv., fjallar einvörðungu um Vestmannaeyjaþáttinn í þessum málum eða tjónið sem orðið hefur af völdum eldgossins í Vestmannaeyjum. Þar eru skýringar við áætlun um tekjur og gjöld Viðlagasjóðs og eru eingöngu varðandi þann þáttinn.

Þá er rétt að geta þess, að til viðbótar við það tjón sem varð í Vestmannaeyjum af völdum eldgossins og það tjón sem varð í Neskaupstað af völdum snjóflóðanna, þá er gert ráð fyrir því í brtt. meiri hl. að bæta annað tjón annars staðar á landinu sem þegar hefur orðið og verða kann af völdum náttúruhamfara. Það liggur þegar fyrir, að það hafa fallið snjóflóð sums staðar á landinu í vetur, svo sem í Siglufirði, þar sem eyðilagðist eitt íbúðarhús og annað stórskemmdist vegna snjóflóðs og á Selstöðum í Seyðisfirði varð verulegt tjón einnig vegna snjóflóðs, sem að hluta verður þó eflaust bætt af Bjargráðasjóði. En þegar þetta bætist við, þá verður hér samanlagt um geysilega mikið tjón að ræða.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. skortir 1100 millj. kr. til að Viðlagasjóður geti komist sómasamlega frá verkefnum sínum vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Hin lauslega áætlun, sem Viðlagasjóður hefur gert vegna tjónsins í Neskaupstað, nemur 500 millj. Auk þess eru svo önnur tjón, sem ekki hafa verið metin, sem ég var að gera hér grein fyrir. Það er því ástæða til að ætla, að heildartjón, sem eftir er að bæta í Vestmannaeyjum, í Neskaupstað og annars staðar, geti numið einhvers staðar milli 1600 og 1800 millj. kr. þegar upp er staðið.

Í 5. gr. frv. er fjallað um tekjuöflun til þess að standa undir þessum tjónabótum. Er gert ráð fyrir að leggja 2% viðlagagjald á söluskattsstofn. Ástæða er til að ætla að slíkt gjald muni nema á þessu ári um 1600 millj. kr. Þjóðhagsstofnunin telur — ég hafði samband við hana núna rétt fyrir hádegið — að hvert % gjaldsins muni gefa í tekjur um 950 millj. til 1000 millj. og ef það er haft í huga og svo hins vegar að eftir eru 10 mánuðir af árinu lætur nærri að útkoman verði u.þ.b. 1600 millj. kr. En eins og ég gat um áðan er ástæða til að ætla að heildartjón geti numið 1600 og 1800 millj. kr.

Í fjh.- og viðskn. var deilt um það, hvort setja ætti 2% gjald á söluskattsstofn til n.k. áramóta eða hvort látið skyldi nægja 1%, sem þá gilti lengur eða til 30. 6. 1976, á næsta ári. Ég vil geta þess, að það barst til n. bréf frá miðstjórn og samninganefnd Alþýðusambands Íslands sem leggst mjög á móti þessari tilhögun tekjuöflunar. Það er rétt að ég lesi bréfið upp, en það hljóðar svo:

„25. febr. 1975.

Miðstjórn og samninganefnd Alþýðusambands Íslands mótmæla harðlega þeirri hækkun söluskatts, sem felst í frv. til l. um ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs, sem lagt var fram á Alþ. í dag.

Miðstjórnin og samninganefndin telja, að framlagning og hugsanleg samþykkt þessa skattahækkunafrv. hafi mjög spillt samningamöguleikum aðila vinnumarkaðarins ásamt almennt neikvæðum undirtektum ríkisstj. um sparnað í ríkisrekstri, sem varið yrði til lækkunar á sköttum láglaunafólks og það gæti metið sem þátt í lausn kjaramála.

Miðstjórn og samninganefnd ASÍ hafa kynnt sér stöðu Viðlagasjóðs og hafa sannfærst um að tekjur hans af framlengdri söluskattsprósentu, sem til hans rennur, séu fyllilega nægilegur tekjustofn til þess að hann geti með eðlilegri tímabundinni lánsfjáröflun staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart vestmanneyingum og jafnframt bætt fjárhagstjón það sem varð af náttúruhamförunum í Neskaupstað, svo sem sjálfsagt er. Tilgangur þessarar skattahækkunar er því sá að skerða tekjur launafólks, þótt Norðfjarðarslysin séu notuð sem skálkaskjól fyrir henni.

Miðstjórn og samninganefnd ASÍ skorar því á hæstv. Alþ. að fella skattahækkunarákvæði frv. þessa.“

Ég hef í höndum alveg nýja áætlun, grg. Viðlagasjóðs, miðað við tekjur sem nema 1% á söluskattsstofn til 30. 6. 1976, en form. stjórnar Viðlagasjóðs, Helgi Bergs, hefur látið gera þessa áætlun. Niðurstaða þeirrar áætlunar er á þá leið, að gjöldin, samanlögð gjöld, muni nema 9060 millj., en samanlagðar tekjur 7774 millj. eða að það muni skorta á 1286 millj. kr. til þess að standa undir þessu tjóni miðað við árslok 1976. Þar í móti kemur svo það, að Viðlagasjóður á nokkrar eignir. Þessar eignir munu verða í árslok 1976 í fyrsta lagi afborganir og vextir upp á 276 millj. kr. sem koma til greiðslu á næstu 5 árum frá áramótum 1976 og 1977, í öðru lagi seld hús fyrir 1100 millj., sem munu greiðast á næstu 11 árum eftir 1. jan. 1977, og svo seldar íbúðir 20 millj., sem munu einnig greiðast á 11 árum. Samtals nema þessar eignir 1396 millj. kr. en eins og ég sagði áðan skortir á 1286 millj. í árslok 1976 til þess að þessi tekjustofn nægi til að standa undir þeim bótagreiðslum sem gert er ráð fyrir í lögunum. Ef þessar eignir eru teknar og færðar upp miðað við árslok 1976, er það sennilegt, með hliðsjón af því að það eru lágir vextir á þessum 1120 millj. kr. í skuldabréfum sem sjóðurinn þá á og að bréfin eiga að greiðast á 11 árum, þá er augljóst mál að þessar 1396 millj. nægja hvergi nærri til þess að ljúka uppgjöri þeirra tjóna sem hér um ræðir. Þannig er það auðsýnt, að tekjustofninn 1%, ef framlengdur yrði til 30. 6. 1976, mun ekki nægja til þess að gera upp þessi tjón.

Það er ástæða til að benda á það að lög um Viðlagasjóð og reglugerð ásamt því lagafrv. sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs, eru þannig, að stjórn Viðlagasjóðs hefur talsvert svigrúm til túlkunar á þeim lögum. Stjórnin getur bæði túlkað lögin þröngt og metið bætur sem lægst og hún getur einnig túlkað lögin rúmt og metið bæturnar hærra. Ef það kemur fram hér á hv. Alþ., að ekki er aflað nægilegra tekna til að standa undir uppgjöri á þessum tjónum, þá er ástæða til þess að ætla að stjórnin kynni e.t.v. að líta á það sem vilja af hálfu Alþ. að þessi löggjöf yrði túlkuð þröngt varðandi mat á bótum. Ég vildi benda á þetta til þess að fá það fram hér í umr. og í afgreiðslu málsins hér á hv. Alþ., að það sé raunverulega vilji Alþ. að standa að fullu undir þeim bótum, sem greiða þarf vegna þessa mikla tjóns.

Það er ástæða til þess að lokum að leggja á það áherslu, að hér er um alveg sérstæð tilvik að ræða, þar sem eru þessi stórfelldu tjón vegna náttúruhamfara, og að Alþ. hefur brugðist þannig við þessum málum og markað þá stefnu að bæta þetta eignatjón að fullu. Það er spurning hvað á að blanda slíkum málum mjög mikið saman við almenn efnahagsmál. Þetta er sérstakt mál. sem verður til vegna náttúruhamfara í landinu, sem enginn fær gert við. Þetta er tímabundið mál. Það er gert ráð fyrir því, að þessi tekjuöflun falli niður við n.k. áramót, og ég tel ástæðu til þess, að undirstrika, að hér er ekki um varanlegar álögur að ræða á þjóðina, heldur eingöngu tímabundna vegna þess stórkostlega tjóns sem orðið hefur af þessum hrikalegu náttúruhamförum.