27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þar sem þegar hefur komið fram í ræðum annarra þm., sérstaklega í máli hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, það sem ég hafði helst hugsað mér að fjalla um í sambandi við mál Viðlagasjóðs að þessu sinni, þá mun ég aðeins fara örfáum orðum um þær tekjur sem sjóðurinn hefur haft úr að spila.

Þegar eldgosið kom upp í Vestmannaeyjum voru sett lög um neyðarráðstafanir vegna þess. Viðlagasjóði voru ætlaðar tekjur, 2% af söluskattsstofni, hluti af útsvörum og fasteignasköttum, 160 millj. úr Atvinnuleysistryggingarsjóði og aðrar 160 úr ríkissjóði. Þessar tekjur voru síðan, aðeins hálfu ári eftir að eldgosinu lauk, skornar gjörsamlega niður, þannig að aðeins stóð eftir 1% af söluskattsstofni. Þegar þessi mál voru þá til umr. lá fyrir fjárhagsáætlun stjórnar Viðlagasjóðs og till. stjórnarinnar um það, að haldið yrði áfram að láta Viðlagasjóði í té 2% af söluskattsstofni, en stjórnin gat fyrir sitt leyti fallist á að hinar tekjurnar féllu niður ef þessi 2% héldu áfram. Stjórn sjóðsins taldi það nauðsynlegt til að geta staðið við þær skuldbindingar sem sjóðnum höfðu verið fengnar á hendur, og það hefur reynst rétt.

Við afgreiðslu þessara mála fyrir liðlega ári var hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason einmitt einn helsti forsprakki þeirra manna, sem lögðu áherslu á að svipta Viðlagasjóð þessum tekjum sínum og með þeim afleiðingum sem staða sjóðsins sýnir nú og hefur sýnt allt s.l. ár, með liðlega 11/2 milljarð í yfirdrátt hjá Seðlabankanum, sem Seðlabankinn reiknar fulla vexti af, og eru vaxtagreiðslur til hans nú orðnar nokkur hundruð millj. samtals. Þá voru fáar raddir hér í þingsalnum sem mæltu á móti því að tekjur sjóðsins væru rýrðar svo sem raun bar vitni, og ég man ekki eftir því að nokkur þm. legði mér lið í þeirri baráttu á sínum tíma að velja hina leiðina og halda við 2%. Þetta var rétta leiðin, og ef hún hefði verið valin, þá væri Viðlagasjóður nú búinn að fá nægilega mikið fjármagn til sinna þarfa og þyrfti ekkert prósent af söluskatti, og þá þyrftum við ekki að vera að rífast um þessi mál á sama hátt og gert er nú.

Þar sem ég hef verið allan tímann í stjórn Viðlagasjóðs, ætti að vera manna best kunnugur hver fjárþörf sjóðsins er til að sinna sínum verkefnum, og nú þegar Norðfjarðarvandinn hefur bæst við, þá er mér ljóst að sjóðurinn þarf á auknum tekjum að halda. Þess vegna vil ég í lokin aðeins lýsa yfir því, að ég stend með því að söluskatturinn verði hækkaður um 1%, ef ekki verður hægt að finna leið sem allir alþm. geta sæt sig við.