28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna eðlis þess máls, sem hér er til umr., hefði hæstv. ríkisstj. borið að leggja sig sérstaklega fram um að samkomulag gæti orðið um afgreiðslu þess. Undirbúningi málsins var þó ekki á þann veg hagað, öðru nær. Án þess að tryggja sér samkomulag um aðferðir við tekjuöflun til Viðlagasjóðs er kastað inn í þingið frv. um hækkun söluskatts um 1 stig ofan á allar þar gífurlegu hækkanir, sem orðíð hafa í kjalfar ráðstafana hæstv. ríkisstj. að undanförnu, Matvæli hafa hækkað meira en allt annað vegna lækkana á niðurgreiðslum og hækkana á innflutningsverði vegna gengislækkana, rafmagnstaxtar hafa stórhækkað, hitaveitugjöld, afnotagjöld pósts og síma, sjónvarps og hljóðvarps, fargjöld og svo mætti lengi telja. Þessar hækkanir dynja yfir dag hvern. Allar þessar hækkanir, samtímis því að laun eru bundin, að undanskildum smávegis láglaunabótum, hafa valdið svo stórkostlegri kjaraskerðingu hjá öllum almenningi að þess þekkjast ekki dæmi áður. Og þetta hefur gerst á afarskömmum tíma. Þrátt fyrir láglaunabæturnar kemur þessi kjaraskerðing að sjálfsögðu harðast niður á þeim, sem bjuggu við rýrust kjör fyrir og höfðu minnst aflögu, og nú er lagt til að söluskattur hækki enn um eitt stig. Eðli söluskatts er slíkt að hann bitnar mest á þeim, sem þurfa að annast framfæri stærstu fjölskyldnanna, en hinar lágu launabætur dreifast hins vegar án tillits til þess. Sú fjárhæð, sem til þeirra er varið, dreifist eftir tölu þeirra, sem eru fyrirvinnur, en ekki eftir framfærsluþunga.

Það er ærið mikill munur á því hvort aflað er tekna með söluskatti þegar lífskjör eru að batna eða hvort söluskattur er hækkaður þegar lífskjörin eru að versna meira en áður hefur þekkst og þegar almenningi duga naumast launin fyrir brýnustu nauðþurftum. Þess vegna var sérstaklega skylt að leita annarra leiða til úrlausnar á málum Viðlagasjóðs en þeirra að hækka söluskatt. En hæstv. ríkisstj. hefur kosið að reyna að þvinga jafnt sína eigin stuðningsmenn, sem aðra til að standa að hækkun þessa skatts sem kemur harðar niður á barnafjölskyldum en öll önnur skattheimta, á sama tíma og fjölskyldubætur standa í stað og í fjárl. er gert ráð fyrir lækkun þeirra á miðju ári.

Þessi ráðstöfun, að hækka söluskatt, er ekki gerð með sérstakri hliðsjón af tekjuþörf Viðlagasjóðs, ef horft er til lengri tíma, heldur vegna Seðlabankans og tímabundinnar stöðu Viðlagasjóðs við hann, — tímabundinnar stöðu sem unnt er að bæta og leysa með öðrum hætti, eins og sýnt hefur verið fram á af talsmönnum minni hl. fjh.- og viðskn., bæði í hv. Nd. og þessari hv.d. Sérstakar hörkuaðgerðir ríkisstj. í útlánamálum, sem tilkynntar hafa verið, ættu einnig að bæta stöðu viðskiptabankanna við Seðlabankann, en þeir skulda honum miklu meira en Viðlagasjóður. Ætti þegar af þeirri ástæðu ekki að vera hin sama þörf að bæta á svo skömmum tíma stöðu Viðlagasjóðs við Seðlabankann eins og hér er ætlunin að knýja fram með hækkun á söluskatti, sem bitnar harðast á þeim sem hafa flesta á framfæri sinu. Á hina erfiðu aðstöðu þeirra, sem við þrengst kjör búa, er ekki bætandi, einkum þegar haft er í huga að enn eiga efnahagsráðstafanir ríkisstj. eftir að þrengja að almenningi og mikið má vera ef svo stórfelldar og harkalegar aðgerðir bæði í verðlagsmálum, launamálum og útlánamálum á svo skömmum tíma eiga ekki eftir að valda svo stórfelldum samdrætti að af hljótist atvinnuleysi sem hæstv. ríkisstj. þykist á sama tíma vera að forðast.

Það er svo í samræmi við þennan þjösnahátt og skort á samstarfsvilja í máli, sem sérstök ástæða væri til að leita eftir samstöðu um, að hv. frsm. fjh.- og viðskn. hefur ekki séð ástæðu til að sinna í neinu þeirri fsp. sem ég bar fram við 1. umr. þessa máls og óskaði eftir að hv. n. leitaði svars við. Það er því sýnilega ekki til neins að endurtaka hana, hér á ekkert samstarf að hafa og engar upplýsingar að veita.

Það hefur verið höfðað til þess að þm. almennt hafi heitið því að styðja tekjuöflun til Viðlagasjóðs og því verði þeir að samþ. söluskattshækkun, þar sem hæstv. ríkisstj. þóknast að vilja leysa málið með þeim hætti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að nokkur hv. alþm. hafi nokkru sinni gefið fyrirheit um að standa að hvers kyns tekjuöflun, sem hæstv. ríkisstj. kynni að vilja knýja fram í þessu skyni. Hvar væru þá mörkin ? Ég býst t.d. ekki við því að margir hv. alþm. hefðu með skírskotun til fyrirheita talið sig skuldbundna til að afla fjár til Viðlagasjóðs með sérstökum skatti á barnafjölskyldur, ákveðinni skattgreiðslu á hvert barn. Um aðferðir til tekjuöflunar hlýtur að þurfa að vera samkomulag. En hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert til að leita þess, og sá skattur, sem hún velur, er í ætt við barnaskatt. Hún velur hækkun skatts, sem leggst þyngst á barnafjölskyldurnar í landinu, þær fjölskyldur sem nú þegar hafa borið þyngstu byrðarnar af efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj.

Ég tel mér ekki skylt að sæta slíkri ákvörðun hæstv. ríkisstj. um aðferð til tekjuöflunar, jafnvel þótt til Viðlagasjóðs sé. Hv. þm. er fullkunnugt um að í rauninni hefur verið meiri hl. fyrir því meðal þm.samþ. afgreiðslu þessa máls í samræmi við till. minni hl. fjh.- og viðskn. beggja d. Samt sem áður hefur hæstv. ríkisstj. valið þann kost að knýja fram söluskattshækkun sem ég tel vera óþarfa, — söluskattshækkun sem ég tel vera knúna fram gegn raunverulegum vilja meiri hl. hv. alþm.

Ég fyrir mitt leyti mun ekki taka þátt í því að aðstoða hæstv. ríkisstj. við það að knýja fram þessi úrslit máls og mun greiða atkv. gegn þessu frv. um söluskattshækkun, ef felldar verða till. minni hl. hv. fjh.- og viðskn., og ég tel jafnvel nóg að samþ. verði einungis a-liður þeirra en lögin síðan framlengd þegar gildistími þeirra er útrunninn.