20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

11. mál, launajöfnunarbætur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þótt full ástæða væri til þess að fara hér út í almenn efnahagsmál í sambandi við svona frv. vil ég nú ekki gera það þar sem útvarpsumr. hafa farið fram fyrir skömmu og einnig umr. um fjárlög og mun því bera fram fyrirspurnir, en jafnframt því lýsa yfir samstöðu við megintón þeirrar ræðu er hér var flutt af síðasta ræðumanni.

Mig langar að vita um það alveg afdráttarlaust hvort við eigum ekki von á neinni búvöruhækkun á komandi mánuðum, hvorki nú 1. des né 1. mars, og hvort búvöruverð haldist óbreytt til neytenda, — fá um það skýlaus svör núna strax.

Hækkanir á búvöru hafa verið svo geigvænlegar undanfarið að engu tali tekur, þegar upplýst er að á fimmta milljarð fer í niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur í landbúnaðarvörur er þetta orðið slíkt geigvænlegt vandamál að það er að mínu mati og míns flokks orðin full ástæða að skipa sérstaka rannsóknarnefnd, sem fulltrúar allra flokka eiga sæti í og menn frá landbúnaðarsamtökunum eða Stéttarsambandi bænda, til að fara í gegnum þetta vandamál. Hér er sem sagt komin sú alvarlega hrollvekja fram í dagsljósið er sagt var frá á sínum tíma úr þessum ræðustólum og margoft var vitnað í þegar það henti fyrir ákveðnar kosningar.

Ég ætla einnig að spyrja hæstv. forsrh. út af því, sem kom fram þegar meðráðh. hans, fyrrv. fjmrh. og landbrh. núv. og samgrh., lýsti því yfir að gefnu tilefni frá mér í umr. um fjárl. að hann tryði því ekki að verðbólguhreyfingin á Íslandi yrði í þá átt, er hæstv. forsrh. lýsti yfir í stefnuræðu hæstv. ríkisstj. Hann sagði afdráttarlaust: Ég er enginn spámaður og hef ekki trú á því að það muni takast. — Ég er honum alveg sammála um það, jafnvel þó að áformið sé gott, þá mun það ekki takast. Enn kemur svo yfirþyrmandi skyssa hjá öllum stjórnendum þessa lands, enn einu sinni gengisfelling, ekkert úrræði nema gengisfelling. Við erum þó háðir slíku magni af aðflutningi að allar rekstrarvörur og fjöldi neysluvara hækkar alveg miskunnarlaust. Þegar landbúnaður okkar er rekinn með svo miklum erlendum aðföngum eins og raun ber vitni um, þá verður þetta gjörsamlega óviðráðanlegt vandamál sem ég sagði á sínum tíma að hefði fellt hverja einustu ríkisstjórn yfir 30 ára tímabil og mundi einnig verða þessari ríkisstjórn að fjörtjóni. Það er mín spá. Ég skal gerast spámaður í þessu efni. Það mun velta henni úr sessi áður en langt um líður. Hjá því verður ekki komist.

Hvernig á að afla fjárins til slíkra hluta? Ráðið í sjávarútveginum í dag er eingöngu millifærsla frá launþegum sjávarútvegsins yfir í atvinnuveitandann. Svo ætlast hæstv. forsrh. til þess að næstu 6–8 mánuði verði ágætis vinnufriður og enginn segir neitt á því sviði varðandi slíkar aðgerðir. Ég tel það hreina ofrausn að ætlast til þess, eins og atvik liggja til, þegar ýmsir erfiðleikar steðja að og minni afli er a.m.k. í vissum þáttum hjá þessu fólki, bein minnkun í tekjum af því afli er minni. Ég held ég hafi séð það í blaði í dag frá ísfirðingum eða fólki að vestan, að það kennir samningnum við breta um minnkandi afla á þeirra slóð. Þó var vilji nokkurra manna hér til að auka enn á það og semja við þjóðverja. En blessunarlega varð ekkert úr því. Á ekki einu sinni að hugleiða það að semja við þá meira. Atvik hafa þannig breyst. Mótmæli ég þeim tóni sem kom fram í yfirlýsingu um þessi mál frá hæstv. ríkisstj. að áfram yrði haldið á grundvelli ályktunar frá 15. febr. 1972 að reyna að ná samstöðu. Það er algjör fjarstæða, á ekki að eyða orðum lengur að því. Við þurfum að tilkynna þjóðinni í eitt skipti fyrir öll að við erum hættir að hugsa um það. Það er liðin tíð.

En aðalatriðið er að fá að vita um hvort það standi að landbúnaðarvörur hér verði á föstu verði langt fram á næsta ár. Erlendur kostnaður kann að hækka, því miður. Verðbólgan heldur áfram erlendis og erfitt að hamla á móti verðhækkun vegna erlendra aðfanga í okkar þjóðarbúi. En ég tel að það verði ekki lengur komist fram hjá því að taka vísitöluvandamálið til sérstakrar úrlausnar og vildi einnig vita um það. Eru um það nokkur áform hjá hæstv. ríkisstj. eða aðilum vinnumarkaðarins, eins og orðað er, að kanna nýja neyslusamsetningu og finna grundvöll fyrir nýrri vísitölu, miðað við búskaparhætti á yfirstandandi ári eða því næsta? Vissulega hafa þeir breyst frá þeim tíma þegar 100 fjölskyldur héldu búreikninga, að mig minnir á árinu 1962 eða 1963, og nýtt vísitölukerfi var fundið út eða kostnaðarviðmiðun var fundin út á grundvelli þeirra. Held ég að það sé öllum aðilum fyrir bestu til þess að vita, hvernig samsetning á búvörurekstri er í dag, að gera þessa athugun.

Það er einnig fyrirspurn um það hér: Hefur náðst samkomulag um að halda slíka búreikninga eða er enn aðeins deilt um að hafa þetta gamla kerfi óbreytt og rífast um breytingar og festingu á þeirri vísítölu er nú hefur verið bundin um sinn og tengsli rofin við kaupgjald og aðrar verðlagsbreytingar?

Það var sjálfsagt rétt af hæstv. forsrh. að ekkert atvinnulíf hefði þolað þær verðbreytingar sem framundan voru, bæði varðandi launaþátt og aðrar verðbreytingar í landinu. Það hefði nú mátt skera þar eitthvað niður. Því í ósköpunum má ekki ráðast á þá aðila í þjóðfélaginu sem allir eru sammála um að skammta sér laun nokkurn veginn eftir eigin geðþótta? Á ég þar víð uppmælingarkerfið í landinu. Það er hvergi viðurkennt í heiminum nema á Íslandi að allt í einu þegar maður kemst í uppmælingu, þá er hann orðinn þre- til fjórfaldur maki venjulegs manns. Það er hvergi viðurkennt í heiminum. Því ekki að leiðrétta þessa vitleysu þó að hún hafi einhvern tíma komist í samninga? Ég veit ekki betur en á Norðurlöndum hafi enginn uppmælingaraðill eða akkorðsvinnumaður tök á því að ná meira en 60% umfram venjulegan heilbrigðan mann í vinnuafköstum sem hlýtur að vera rökrétt. Ég skil ekki þá uppmælingu og há grundvallarviðmiðun í vinnutöxtum að allt í einu geti menn orðið tvöfaldir, þrefaldir í afköstum þegar þeir komast í uppmælingu. Það eru alveg furðulegir samningar og enginn þorir að ráðast á þetta. Sennilega verður mér úthúðað umsvifalaust fyrir að minnast á svona hluti, en fram hjá þessu verður ekki gengið lengur. Síðan erum við með millífærslur um láglaunauppbætur og ýmislegt og millifærslur í sjávarútvegi mikið á annan milljarð. En þessi hópur, sem sendir manni reikninga næstum eftir eigin geðþótta, leikur lausum hala. Hér eiga allir aðilar hlut að máli, úr öllum pólitískum flokkum. Við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Það skal ekki standa á mér að stuðla að því, jafnvel þó að maður verði hundskammaður utan dyra og innan dyra varðandi það að vilja bót á þessu, því að þetta má ekki halda svona áfram. Það er öllum kunnugt um það. Þetta er einn sá stærsti verðbólguþáttur í innlendri verðbólgusköpun sem lengi hefur verið hér laus.

Ég ætla ekki að fjalla meira um þetta frv., eins og ég sagði. En fyrst og fremst vil ég vita um búvöruverð fyrir næstu 6 mánuði, hvort það verður laust eða því verði haldið föstu og þessar niðurgreiðslutölur muni þá nokkurn veginn hrökkva til eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.