04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

105. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Aðeins út af því, sem fram kom í svari hæstv. ráðh., um að mþn. í byggðamálum mundi fá þetta mál til nánari umsagnar, þá er rétt að minna á það hér, að byggðanefndin svokallaða hafði þetta mál sérstaklega á sinni könnu í fyrra og um 1. lið þessa frv. var raunar flutt sjálfstætt frv. í Ed., þ. e. a. s. um sérstök örvunarlán úti á landsbyggðinni. Frv. dagaði uppi í þinglokin í fyrra, en það hefur verið ætlun mþn., að því er ég best veit, að endurflytja frv. í svipuðu formi og þá var gert, að vísu með hærri upphæðum en gert var ráð fyrir í því frv. Ég vona að það verði a. m. k. samkomulag um það nú eins og þá í byggðanefndinni að ná fram þeim millivegi sem við töldum þá vera mjög vel fært fyrir alla aðila að ganga að. Þarna var um að ræða 120 þús., minnir mig varðandi séraðstoð. Þessi upphæð hlýtur að hækka nú. En ég vona að byggðanefndin taki þannig á þessu máli — hún hefur ekki starfað alllengi — að hún fari þennan milliveg, a. m. k. hvað snertir þennan hluta frv.