04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt allar þær umr. sem fram hafa farið um þetta mál nú á þessum fundi. Mér þykir rétt að ítreka það, sem að vísu hefur að nokkru komið fram áður, að Byggðasjóður, sem nú starfar, tók við af Atvinnujöfnunarsjóðnum sem stofnaður var með lögum á síðasta áratug. Atvinnujöfnunarsjóðurinn var stofnaður til þess að vera til mótvægis við seguláhrifin sem af álverinu í Straumsvík við Hafnarfjörð mundu stafa í þá átt að draga fjármagn til Faxaflóasvæðisins. Þessi sjóður, Atvinnujöfnunarsjóður, fékk það hlutverk að veita viðbótarlán við lán almennra stofnlánasjóða til þess að vinna að uppbyggingu atvinnulífs úti á landi. Byggðasjóður, sem nú starfar, er efldur til þessa hlutverks og efling hans í tíð núv. ríkisstj. gegnir enn sama hlutverki að því er ég hef skilið. Það er því enn full þörf á því að þessi sjóður starfi með þeim hætti að veita viðbótarlán út á landsbyggðina, sérstaklega í þá landshluta sem eiga í vök að verjast í atvinnulegu tilliti. Þess vegna getur aldrei gilt almenn regla um lánveitingar úr Byggðasjóði, regla sem nær jafnt til landsins alls. Ef á að taka upp slíka reglu, þá er hlutverk hans brostið. Þá er eins gott að leggja þennan sjóð niður og veita fjármagninu til almennra stofnlánasjóða, sem veita lán eftir almennum reglum. Þetta vil ég að komi skýrt fram. Ég vil ekki standa að neinni slíkri breytingu, ef gerðar verða breytingar á lögum þessa sjóðs, er leggi niður hið upphaflega hlutverk hans. Ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir.