06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

141. mál, innheimta afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þessar umr. sem spunnist hafa út af fyrirspurn um sjónvarpsmál, eru orðnar æðilangar og ég ætla ekki að lengja þær að marki. Ég fagna því, að þessi mál skuli hafa borið hér á góma, því að það hefur eitt og annað komið hér fróðlegt fram og það er full ástæða til að ræða þessi mál því þau eru ekki í nógu góðu lagi.

Ég vil nefna það, að á Norðurl. v. er dreifikerfi sjónvarpsins mjög gloppótt. Það er eftir að byggja allnokkrar smástöðvar, endurbóta er þörf á öðrum og það eru jafnvel allstórir sveitarhlutar sem alls ekki fá notið sjónvarps. Okkur liggur því líka á, ekki síður en þeim fyrir austan, að knýja á um úrbætur í þessu efni. Þetta er byggðamál. Þetta er með nokkrum hætti jafnréttismál fyrir þegna þjóðfélagsins, að þeir eigi kost á sömu menningarneyslu, skulum við segja, og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Þetta er sem sagt einn af þeim þáttum, sem verða til þess að jafna lífsaðstöðu fólksins í dreifbýli og í þéttbýll. Mér finnst liggja í augum uppi að það þurfi peninga til að gera þetta og þar stendur sjálfsagt hnífurinn í kúnni. En ég hygg, að það verði ekki leyst með öðru móti en því að ákveðið hlutfall af tekjum sjónvarps verði látið ganga til nýbyggingar á dreifikerfinu og til endurbóta á því.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að hann muni beita sér fyrir því að endurbætur og úrbætur verði gerðar á þessum málum, og ég treysti hæstv. menntmrh. til að hafa skörulega forustu í málinu.