10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

95. mál, vegalög

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 357 leggur samgn. fram brtt. við 11. gr. frv. til vegalaga. Við 2. umr. málsins í d. komu fram óskir um nokkrar breyt. á þessari gr. og reyndi n. að færa hana í það horf, sem hún taldi fært til þess að ganga á móts við þessar óskir. Þær breyt., sem felast í till., eru helstar þær að í stað þess að þessu fé, þ. e. 25 af hundraði þéttbýlisvegafjárins, sem eins og í frv. stendur skal ráðstafað eftir till. vegamálastjóra að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, þá komi að þessu fé skuli ráðstafað af fjvn. Alþ. að fengnum till. vegamálastjóra.

Hér er um það mikið fjármagn að ræða, áætlað um 70 millj. kr. á þessu ári, — að ástæða þótti til þess að Alþ. eða n. í umboði þess tæki endanlega ákvörðun um það hvernig því yrði ráðstafað. Þessu fjármagni er ætlað, eins og komist er að orði í brtt., að flýta gerð vega og gatna með bundnu slitlagi í þéttbýli. Er gert ráð fyrir að með því megi gera vinnubrögð við gatnagerðina hagkvæmari, vinna skipulegar, taka fyrir ákveðin svæði og ljúka þar, en slíkt er nauðsynlegt vegna þess að þetta verður ekki unnið nema með miklum tækjakosti. Því ríður á miklu að það sé ekki verið að flytja tækin til að óþörfu, þar sem annars yrði e. t. v. eytt eins miklu fjármagni í tækjaflutninginn og verkið sjálft. Það verður að koma í veg fyrir slíkt og reyna að vinna að þessu á skipulegan hátt. Það leiðir af sjálfu sér að þá þarf að gera áætlun um verkefnin nokkuð fram í tímann og þess vegna ætti jafnframt að vera hægt að ákvarða ráðstöfun þess með nokkrum fyrirvara, en ekki að bíða alveg fram á síðustu stundu með það.

Önnur aðalbreyt., sem felst í brtt. n., er sú, að í staðinn fyrir það að við lögðum til við 2. umr. málsins að það væri heimilt að nota þetta fjármagn einnig til vega- og gatnagerðar í þéttbýli sem væri með 100–200 íbúa — sú brtt. var dregin til baka til 3. umr., — þá ákváðum við að breyta því á þann veg að það væri heimilt að láta þetta ákvæði einnig ná til þéttbýlis með færri en 200 íbúa. Þar með er það lagt á vald fjvn. hversu langt hún gengur í því. Það er ekki þar með sagt, að við ætlumst til þess að það sé farið niður í það, að átt sé við gatnagerð í kringum örfá hús, heldur hitt, að ef eitthvert þéttbýli væri rétt á mörkunum við þá tölu, sem ákveðin væri sem lágmark, gæti það orðið mjög óþægilegt í framkvæmd. Vegna þeirrar vinnutilhögunar, sem ég nefndi áðan, verður að vinna þetta skipulega þannig að taka fyrir ákveðna landshluta og þá gæti orðið mjög óþægilegt, ef eitthvert þorp væri rétt neðan við þau mörk, sem lögin kynnu að ákveða, en það yrði að sleppa því vegna lágmarksákvæðis laganna og það ætti þá ekki kost á að njóta þess fyrr en kannske að mörgum árum liðnum þegar önnur yfirferð kæmi, enda þótt íbúatalan yrði komin yfir lágmarkið miklu fyrr.

Fjvn. verður vitanlega að setja sér einhverjar reglur við úthlutunina og skipuleggja verkefnin, en við töldum rétt að þetta væri lagt á hennar vald.