11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

311. mál, lagning byggðalínu til Norðurlands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins vegna margendurtekinna ósanninda hv. þm. Lárusar Jónssonar vekja athygli á því að það var í tíð vinstri stjórnarinnar sem þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, batt endi á mjög hatramma deilu á orkuveitusvæði Laxár, deilu sem sprottið hafði upp af óvæginni framkomu þeirra fulltrúa í raforkumálum Norðurl. e. sem hv. þm. Lárus Jónsson hefur einkum mælt fyrir fram að þessu. Það var með því að setja niður þessa deilu sem fékkst vatn á stóru vélarnar sem settar voru niður í stóru jarðgöngin við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, — stóru jarðgöngin sem ætluð voru til þess að flytja vatn fyrirhugaðrar Gljúfurversvirkjunar, vatn Suðurár blandað saman við vatn Laxár, í óþökk bænda á þessu svæði, en þeir höfðu sett lögbann við þessum vatnaflutningum og hefði ekki fengist dropi á þessar vélar ef ekki hefði komið til íhlutun Magnúsar Kjartanssonar þáv. iðnrh. Ef hv. þm. Lárus Jónsson og sálufélagar hans í orkumálum á Norðurl. e. hefðu ekki mótast við hugmyndinni um línulögn yfir hálendið, þá hefði sú lína verið lögð árið 1973 og þá hefði ekki komið til neinn orkuskortur á Norðurlandi í vetur leið — ekki neinn.