11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

148. mál, orkumál Norðurlands

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil taka mjög undir þau orð hv. fyrirspyrjanda er hann hafði hér um hinn alvarlega orkuskort á Norðurlandi að undanförnu. Fyrr í dag hafa þau mál verið rædd hér nokkuð og hef ég gert grein fyrir þeim framkvæmdum sem ýmist eru í gangi eða á döfinni til að bæta úr þeim skorti. En varðandi fsp. hv. þm. vil ég segja þetta:

Á sínum tíma var keypt aflvél til þriðja áfanga Laxárvirkjunar sem kallaður er Laxá III, — aflvél er átti að geta nýtt mismunandi fallhæðir á bilinu frá 38–60 m. Eins og kunnugt er, var ekki leyfð sú stíflugerð í Laxá sem Laxárvirkjun hafði í hyggju og er því aðeins um 38 m fallhæð að ræða. Skilar þá vélin við þá fallhæð 6.5 mw. Með stíflugerð í Laxá og aukinni fallhæð mundi vélin skila meira afli, þannig að t. d. við 9 m vatnsborðshækkun mundi vélin skila 12 mw. í stað 6.5 Laxárvirkjun fór fram á það á sínum tíma að mega byggja stíflu sem fæli í sér 21 m vatnsborðshækkun og mundi vélin við slíka hækkun skila um 19 mw.

Í maímánuði 1973 var gerður samningur milli forsrh. f. h. ríkisstj., Landeigendafélags Laxár og Mývatns og Laxárvirkjunar. Í 1. gr. þess samnings segir svo:

„Laxárvirkjun lýsir yfir að hún muni ekki stofna til frekari virkjana í Laxá umfram þá 6.5 mw. virkjun, sem nú er unnið að og ekki hefur vatnsborðshækkun í för með sér, nema til komi samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.“

Samkv. samþykktum Landeigendafélagsins er hvers konar stíflugerð, sem veldur vatnsborðshækkun í Laxá, óheimil og til þess að fá þessum ákvæðum breytt þarf samþykki 2/3 allra félagsmanna á félagsfundi. Eftir að þessi fsp. kom fram á Alþ., hefur mér borist bréf frá Landeigendafélaginu þar sem tekið er fram að landeigendur muni ekki gefa neinn kost á stífluhækkun í Laxá þótt eftir því yrði leitað.