20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

35. mál, söluskattur

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur oft hér á Alþ. og annars staðar verið rætt um hinn mikla mun sem er á framfærslukostnaði íbúa landsbyggðarinnar og íbúa Reykjavíkursvæðisins. Öllum þingheimi er kunnugt um það hvernig flutningsgjöld, aðstöðumunur og aðrir þættir í þjóðfélagsgerðinni hafa það í för með sér að íbúar landsbyggðarinnar verða að jafnaði að greiða mun hærra verð fyrir vöru og þjónustu heldur en íbúar Reykjavíkursvæðisins. Þessi munur á framfærslukostnaði er meðal þeirra þátta sem einna mestan ójöfnuð skapa í dag í daglegu lífi fólks á landsbyggðinni og á Reykjavíkursvæðinu.

Það hefur töluvert verið rætt um það á undanförnum árum hvernig mætti vinna gegn þessum mismun. Hafa ýmsar till. séð dagsins ljós og nefndir veríð starfandi á þessu sviði, en þær hafa því miður ekki leitt til neinna aðgerða. Embættismenn þeirrar stjórnstofnunar, sem leitað hefur verið til, hafa verið fundvísir á margs konar vandkvæði á því að jafna þennan framfærslukostnað — vandkvæði sem hafa verið af mörgum toga spunnin — og því hefur þeim tekist að tefja aðgerðir frá ári til árs.

Í þessu frv., sem við leggjum hér fram um breyt. á l. um söluskatt, er lagt til að lækka framfærslukostnað íbúa landsbyggðarinnar og þar af leiðandi auka jöfnuð meðal landsmanna með því að afnema söluskatt á tveimur mikilvægum þjónustuliðum: flugfargjöldum innanlands og gjöldum til Landssímans utan Reykjavíkursvæðisins. Þegar söluskattur er orðinn það hár að hann hækkar verðlag um 1/5, þá felur afnám hans á dýrum liðum í sér verulega leiðréttingu fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Ástæðan fyrir því, að við veljum þessa tvo liði, er fyrst og fremst að þarna er annars vegar um fáa rekstraraðila að ræða í flugi innanlands og tiltölulega einfalda starfsemi þeirra og hins vegar er um eitt ríkisfyrirtæki að ræða, þannig að framkvæmd á afnámi söluskatts á þessum liðum væri mjög einföld og mundi ekki á neinn hátt skapa erfiðleika í eftirliti með því að öllum ákvæðum um söluskatt væri framfylgt. Að vísu kæmi afnám á flugfargjöldum innanlands einnig íbúum Reykjavíkursvæðisins til góða. En þar eð reikna má með að íbúar landsbyggðarinnar þurfi að nota þessa þjónustu mun meira, þá mundi þessi bót fyrst og fremst koma þeim til góða.

Vissulega mundi afnám söluskatts á þessum tveimur líðum fela í sér einhvern tekjumissi fyrir hið opinbera, en ég sé ekki hvernig hægt væri að leiðrétta framfærslumismunun milli íbúa landsbyggðarinnar og á Reykjavíkursvæðinu án þess að um annaðhvort tekjumissi eða útgjöld af hálfu ríkisins væri að ræða. Ég tel þess vegna að slík mótbára gagnvart þessu frv. sé ekki gild.

Aðalkostur þessarar aðferðar að okkar dómi er sá að hún er einföld, hún yrði skjótvirk og stjórnsýslulegar röksemdir gegn henni eru hverfandi. Við vonum því, að þetta frv. fái góða og fljóta afgreiðslu hér á þingi og þm. sameinist um að leiðrétta að nokkru leyti þann framfærslumun, sem ríkir í landinu, með því að gera þetta frv. að lögum.

Ég mælist svo til þess, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.