17.03.1975
Efri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er mjög gagnlegt fyrir þessa hv. d. að hafa jafnreyndan og kunnan fréttamann hér og hv. síðasta ræðumann. Nú flytur hann okkur þær fregnir, sem eru nýjustu stórtíðindi í járnblendimálinn, að hross hafi látist í gröf í Klafastaðalandi. Ég vil nú, þar sem hann beinir fsp. til mín út af þessu máli, játa að mér er ókunnugt um þessa fregn. Ég veit ekki til þess að framkvæmdir séu hafnar á þessu svæði í sambandi við járnblendiverksmiðjuna.

Hv. þm. minntist á væntanleg kaup ríkisins á hluta af landi Klafastaða og taldi að það verð, sem nefnt hefur verið í þessu sambandi, 90 þús. kr. á hektarann — var ekki svo? — mundi ekki vera fyrir stofnkostnaði við ræktun. Verðið, sem rætt hefur verið um milli eiganda jarðarinnar og fulltrúa ríkisstj., mun vera þetta, eins og einn eigandinn gat um í sjónvarpi nú fyrir skemmstu og í þeim viðræðum hefur komið fram að eigendur séu — eða ekki verður annað fundið — ánægðir með þetta verð. Hins vegar býst ég við að ummæli hv. þm. um að þetta verð hrökkvi ekki fyrir kostnaði séu á nokkrum misskilningi byggð því það landssvæði, sem ætlað er að kaupa undir verksmiðjuna, er nú ekki nema að nokkru leyti ræktað land. Það er talað um, að ég ætla, 80 hektara lands, og ég hef ekki við höndina hér hversu stór hluti þess er tún eða ræktað land, en ég held að það sé ekki nema nokkur hluti þess. Ef þetta er tekið með í dæmið, þá ætla ég að þetta sé viðunandi og fullnægjandi greiðsla, enda hefur aldrei komið annað til mála af ríkisins hálfu en að bjóða fram það verð sem eigendur væru fyllilega ánægðir með. Þeir, sem hafa fjallað um þetta mál — það er ekkert launungarmál — eru einn fulltrúi tilnefndur af mér og annar fulltrúi til nefndur af samgrh. vegna þess að hafnarmálið kemur þarna mjög inn í. Þessir tveir menn hafa átt mjög ítarlegar viðræður við eigendur og verið þar hið ágætasta samkomulag á milli um verðið.

Varðandi það atriði, sem hv. þm. virtist álykta af ummælum umræddra landeigenda, að hótanir hefðu verið hafðir í frammi um eignarnám, þá er það fjarri öllu lagi. Ef lítið er á frv. kemur greinilega í ljós að ákvæði um eignarnámsheimild er ekki í frv. Hins vegar var slíkt ákvæði í því frv. sem undirbúið var af fyrrv. ríkisstj., en það var ákvörðun mín að strika það út. Ég vildi ekki hafa eignarnámsheimild í þessu frv., heldur freista til hins ítrasta að ná samningum og þeir hafa tekist. Ég held það sé ekki með nokkrum sanni hægt að segja að hér hafi verið nokkrar hótanir um eignarnám, heldur þvert á móti var það fellt burt úr frv.

Í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. skal ég aðeins svara örfáum atriðum úr henni. Hann ræddi fyrst um verðið á rafmagni og taldi það vera mjög ófullnægjandi. Í því sambandi er þess að geta að þegar fyrrv. ríkisstj. fjallaði um þetta mál, og það gerði hún í 3 ár, þá var málum svo komið að í maímánuði s. l. lágu fyrir ákveðnar till. um verð sem þáv. ríkisstj. lýsti sig samþykka. Það liggur fyrir bréf um þetta. Eftir stjórnarskiptin var lögð áhersla á að fá það verð verulega hækkað og eins og fram hefur komið í grg. og ræðum u.m málið, þá er nú um að ræða 42% hærra verð en gert var ráð fyrir í maímánuði í fyrra. Það skýtur því nokkuð skökku við ef það verð, sem fyrrv. ríkisstj. taldi viðunandi í maímánuði s. l., er nú óviðunandi þó að það hafi verið hækkað um 42%. Hér þýðir ekki að bera fyrir sig olíuverðið. Olíuverðshækkunin var að langmestu leyti komin fram áður en um þetta verð var rætt í maímánuði í fyrra.

Annað meginatriðið í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. var það að við hefðum ekki næga orku eða afl til að láta af hendi til þessarar járnblendiverksmiðju. Þetta stangast á við þær áætlanir og spár, sem fyrir liggja, og m. a. rækilega skoðun verkfræðinga Landsvirkjunar og stangast á við einróma samþykkt stjórnar Landsvirkjunar, þar sem þvert á móti er talið að nægileg orka sé til þess að anna bæði hinum almenna markaði, aukinni rafhitun og aukinni eftirspurn, þó að járnblendiverksmiðjan komi einnig til.

Í þessu sambandi minntist hv. þm. á að nokkurt ósamræmi væri í orkuspá Landsvirkjunar og orkuspá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, sem hefði birst fyrir skemmstu. Hann hélt því einnig mjög fram í ræðu sinni að allar orkuspár væru ákaflega ótryggar og breytilegar frá ári til árs, jafnvel frá mánuði til mánaðar. Þetta eru orð að sönnu. Þar sem ég vissi ekki um að þessi fsp. hv. þm. út af því í hverju lægi ósamræmi milli orkuspáa Landsvirkjunar og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens kæmi fram hér, þá hef ég að sjálfsögðu ekki svör á takteinum eða grg. um það, en þeirrar grg. verður að sjálfsögðu aflað þannig að það liggi fyrir áður en málið er afgr.frá Alþ.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um eða raunar vildi fullyrða að nú mundi farið hægar í rafhitun húsa en áður hefði verið ætlað. Þetta er á algerum misskilningi byggt. Það verður haldið áfram aukningu á rafhitun húsa eins og kostur er á. Í því sambandi þarf í rauninni ekki að taka fram að til þess að hægt sé að nota rafmagn til húshitunar þarf hvort tveggja, það þarf orka að vera fyrir hendi og það þarf að vera dreifikerfi sem þolir þann orkuflutning. Þar sem þörfin hefur verið geysimikil fyrir rafhitun húsa á undanförnum árum og er enn og þar sem Laxárvirkjunarstjórn og stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hafa neyðst til að draga úr og jafnvel neita mönnum um leyfi til rafhitunar, þá stafar þetta að sjálfsögðu af því að ekki var séð fyrir því í tæka tíð að hafa nægilega orkuframleiðslu á Norðurlandi, og í annan stað kemur það til, sem öllum er kunnugt, þessum hv. þm. ekki síður en öðrum, að eitt af þeim miklu vandamálum, sem við er að etja í sambandi við rafhitun húsa, er það að víða þarf að leggja nýjar rafleiðslur og styrkja þau kerfi, sem fyrir eru, til þess að flytja þá mjög auknu orku sem þarf. Að þessu öllu er að sjálfsögðu unnið. Hins vegar vil ég taka það fram að þegar gerðar voru frumáætlanir í fyrra um rafhitun húsa á Íslandi og gert ráð fyrir því að upp undir þriðjungur húsa á Íslandi mundi ekki geta notið jarðvarma, heldur þyrfti rafhitun, þá hefur þetta breyst mjög á því ári sem liðið er, og má vel vera að það breytist enn, því að það held ég að öllum ætti að vera ljóst að þar sem tök eru á að nýta heitt vatn til upphitunar húsa, þá er það hagkvæmasta hitunaraðferðin sem um er að ræða, hagkvæmari og miklu ódýrari en rafhitun. Þess vegna verður auðvitað kannað til fulls á hverjum stað hvort möguleikar eru til nýtingar jarðvarma í stað rafhitunar, og ýmis þau sveitarfélög, sem áður gerðu ráð fyrir að nota rafmagn til hitunar, eru nú af kappi að kanna hvort möguleikar eru á hitaveitu og hafa til þess stuðning og hvatningu ríkisvaldsins. Ég nefni sem dæmi að til skamms tíma var gert ráð fyrir því og ég ætla að sú till. eða skýrsla, sem fyrrv. iðnrh. lagði hér fram á þingi fyrir tæpu ári, hafi t. d. gert ráð fyrir því að höfuðborg Norðurlands, Akureyri, væri á rafhitunarsvæði. Síðan hefur komið í ljós að miklu meiri líkur eru til þess nú í dag að Akureyri geti orðið aðnjótandi jarðvarmahitunar sem náttúrlega verður miklu hagkvæmari en ef þarf að nota að fullu rafmagn til þeirra hluta.

Ég sé ekki ástæðu á þessu stigi til að fara frekar út í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. En út af því ósamræmi sem hann talaði um varðandi orkuspár og enn fremur fullyrðingum hans um verð og væntanlegan orkuskort, þá verður að sjálfsögðu aflað gagna og grg. frá hinum færustu mönnum um það efni.