18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

123. mál, reksturstekjur Landssíma Íslands o.fl.

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það hefur dregist nokkuð að svara fsp. á þskj. 177, en svar við henni er hér eins og póst- og símamálastjóri hefur gengið frá því:

„1. Hve stór hluti símgjalda fyrir umframsamtöl er greiddur af notendum símans utan Reykjavíkursvæðisins? Hverjar eru meðaltekjur símans af hverjum notanda?“

Svar: Hér er um að ræða 226 millj. kr. eða 54.98%. „Hverjar eru meðaltekjur símans af hverjum notanda?“ Hér er væntanlega átt við tekjur af umframsímtölum, þær eru 9 880 kr.

„2. Hve miklar eru meðaltekjur símans af umframsímtölum af hverjum notanda á Reykjavíkursvæðinu?“ Svar við því er 4963 kr. En í sambandi við þetta vil ég geta þess, að nú um síðustu áramót var gerð gjaldskrárbreyting sem breytir þessu nokkuð frá því sem áður var, vegna þess að skrefum þeim, sem voru innifalin í símtölum notenda hér á Reykjavíkursvæðinu, var fækkað og breytir það hlutfallinu milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

„3. Hve miklar tekjur hefur síminn af umframsímtölum af hverjum notanda á eftirtöldum stöðum: Hellissandi,“ það eru 20 200 kr., Bíldudalur, þar er þetta 21 600 kr., Skagaströnd 15 700 kr., Hofsós 11 500 kr. og Grindavík 12 700 kr. Til viðbótar þessu var Seyðisfjörður, en það er ekki hægt að gefa svar um Seyðisfjörð, vegna þess að sjálfvirka símstöðin á Seyðisfirði var ekki opnuð fyrr en 23. okt. s. l. svo að reynsla er ekki komin á það.

Síðasta spurningin er um hvort Landssímanum verði veitt heimild til byggingar jarðstöðvar til að annast fjarskipti við útlönd, án þess að áður hafi jafnframt verið tryggt að sjálfvirka símkerfið um landið verði gert nothæft. Um þetta hefur ekki verið tekin nein ákvörðun enn þá. Ég geri ráð fyrir því eftir þeim upplýsingum sem liggja fyrir og nýjastar eru, að það verði ekki gert með þeim hætti, sem þarna er gert ráð fyrir, að tengja sambandið milli Íslands við útlönd, heldur hefur gervihnöttur komið þar til greina og fleiri leiðir, sem ekki eru fullrannsakaðar. Hins vegar er þetta mál til athugunar þar sem sæsímastrengurinn mun ekki geta sinnt þeirri notkun sem er þörf fyrir í þessu sambandi. En ákvarðanir munu ekki verða teknar fyrr en fullnaðarrannsóknir liggja fyrir og einnig að hve miklu leyti Ísland þyrfti að kosta þetta.

Þetta vona ég að nægi sem fullnaðarsvör við fsp. hv. varaþm. Skúla Alexanderssonar. Ég vil hins vegar taka það fram, að tölur eru allar byggðar á gjaldskrá áður en henni var breytt við síðustu áramót.