18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

160. mál, almenningsbókasöfn

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Á þskj. 289 hefur hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, borið fram tvær fsp. til hæstv. menntmrh. varðandi almenningsbókasöfn. Í fjarveru fyrirspyrjanda mun ég fylgja fsp. úr hlaði með nokkrum orðum.

Lög um almenningsbókasöfn voru sett árið 1955, þau voru endurskoðuð árið 1965 og hefur verið búið að þeirri gerð síðan. Enn er því að mestu leyti búið við frumsmíði laganna, en margkyns reynsla kallar á endurskoðun þeirra, þó að þar vegi langþyngst hversu mjög brestur á um fjárhagsgrundvöll safnanna þar sem fjárframlög ríkis og sveitarfélaga eru bundin við ákveðna fasta krónutölu á hvern íbúa þess svæðis sem safnið þjónar.

Árið 1970 skipaði þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, n. til að endurskoða lögin. Sú n. lauk störfum í apríl 1971 og sendi rn. frv. til nýrra l. um almenningsbókasöfn. Þetta frv. var sent til umsagnar ýmissa aðila og bárust um það ýmsar athugasemdir, einkum frá tveim aðilum sem höfðu átt aðild að endurskoðun laganna, þ. e. a. s. Sambandi ísl. sveitarfélaga og Bókavarðafélagi Íslands, og stöðvaðist þá málið um hríð.

Í byrjun árs 1973 bar hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, fram fsp. á Alþ. um hverju þessi töf sætti. Í svari hæstv. þáv. menntmrh., Magnúsar T. Ólafssonar kom fram að hann taldi að auk þess sem athugasemdir lægju fyrir frá ýmsum aðilum, þá væri rétt að bíða þess hver yrðu afdrif grunnskólafrv. og ákvæða þess um skólabókasöfn, síðan yrði frv. endurskoðað með hliðsjón af fram komnum athugasemdum. Hæstv. fyrrv. menntmrh. lagði hið endurskoðaða frv. fram í apríl 1974, en frv. dagaði uppi. Í skrá, sem fylgdi stefnuræðu hæstv. forsrh. s. l. haust, var því m. a. heitið að frv. til l. um almenningsbókasöfn yrði lagt fyrir þetta þing. Á því bólar ekki enn og er þó töluvert líðið á þingtímann. Því er spurt:

„1. Hvað tefur flutning frv. um almenningsbókasöfn?

Er þess að vænta að ríkisstj. beiti sér fyrir því að slíkt frv. verði að lögum á yfirstandandi þingi?"

Ég sé ekki ástæðu til að gera þetta mál að frekara umræðuefni og vil því þakka hæstv. ráðh. fyrir fram fyrir svarið.