18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

330. mál, símaafgreiðsla vegna brunavarna, læknisþjónustu og löggæslu

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Símaþjónusta hér á landi er mjög misjöfn. Mikill meiri hluti landsmanna býr við símaþjónustu allan sólarhringinn, en víða og þá einkum í sveitahreppum er símaþjónusta aðeins nokkrar stundir á dag. Mjög er þó misjafnt hvort skammur símatími kemur beinlínis að sök eða ekki í neyðartilvikum. Í mörgum þéttbýliskjörnum, þar sem eru miðstöðvar neyðarþjónustu fyrir nærliggjandi héruð, er sími opinn allan sólarhringinn. Ef slys verður eða eldsvoði ellegar þörf er á tafarlausri löggæslu geta menn yfirleitt leitað til næstu símstöðvar og fengið heimafólk á bænum til að hringja og biðja um neyðarþjónustu jafnvel þótt utan símatíma sé. Þannig veit ég að málum er fyrir komið í Borgarnesi, á Selfossi, á Akureyri og á Egilsstöðum, svo að nokkur dæmi séu nefnd, enda mun það vera allvíða að símstöðvar eru opnar allan sólarhringinn. En þó eru nokkur héruð á landinu sem verr eru sett. Sem dæmi vil ég nefna Sauðárkrók, Blönduós og Hvammstanga. Sauðárkrókur er miðstöð eldvarna, læknisþjónustu og löggæslu fyrir 14 hreppa sýslunnar, en eftir kl. 9 að kvöldi er símstöðinni lokað. Að vísu hefur verið komið fyrir neyðarsambandi við sjúkrahúsið á Sauðárkróki, en öllum, sem til þekkja, ber saman um að það fyrirkomulag sé með öllu óviðunandi og þar að auki til mikilla óþæginda á sjúkrahúsinu, þar sem sveitalínurnar eru þá allar tengdar beint inn á sjúkrahúsið, en bændur þurfa oft að tala sín í milli án þess að um nokkra neyð sé að ræða.

Ég hef undir höndum nokkur bréf úr Skagafirði er varpa ljósi á það ástand sem í þessum efnum ríkir og er algerlega óviðunandi.

Sýslunefnd Skagafjarðar samþ. 17. mars 1973 að leggja á það þunga áherslu við Póst- og símamálastjórnina að hún láti án tafar koma til framkvæmda símaþjónustu allan sólarhringinn á Sauðárkróki og jafnframt verði einstökum byggðarlögum í héraðinu gert kleift að ná þangað í neyðartilvikum. Þetta var ekki fyrsta beiðnin frá sýslunefndinni, heldur ítrekuð áskorun, en við henni var ekki orðið. Síðan eru liðin tvö ár.

Jóhann Salberg Guðmundsson bendir á í bréfi sínu fyrir tveimur árum til póstmálayfirvalda að ekki séu haldbær rök til þess að skagfirðingar eigi í þessum efnum að sæta verri kjörum en aðrir í sambærilegum héruðum. Ljóst má vera hvert alvörumál er hér á ferð og hve mikið kann að vera í húfi ef ná þarf úr sveitum héraðsins til Sauðárkróks í síma til lækna, slökkviliðs, lögreglu og björgunarliðs ef að höndum ber veikindi, eldsvoða, slys eða aðra vofveiflega atburði.

Stjórn Sjúkrahúss skagfirðinga segir m. a. í bókun um þetta mál: „Sjúkrahúslæknir taldi neyðarsímaþjónustu, sem er í sjúkrahúsinu, til óþæginda og ekki koma að tilætluðum notum, m. a. vegna óþarfasamtala sem eru á sveitalínum á næturnar.“

Í bréfi aðstoðarhéraðslæknis í Sauðárkrókshéraði eru nefnd allmörg dæmi þess hverjar afleiðingar hin ófullkomna símaþjónusta getur haft. Í öllum tilvikum, sem læknirinn nefnir, er um það að ræða að menn hafa þurft að aka 30–40 km leið til að ná sambandi við lækni eða fá sjúkrabifreið og í öllum tilvíkum er um mikil neyðartilvik að ræða. Sérstaklega bendir læknirinn á þau vandamál sem skapast við neyðarkall manna sem koma akandi langan veg til að kalla á hjálp, en þekkja ekki nægilega til málsatvika til að geta svarað til um það hvaða tæki og búnaður séu nauðsynleg á slysstað eða við sjúkrabeð og engin leið til að komast í samband við þá sem nærri eru slysstað.

Herra forseti. Þegar neyð kallar að eru mínúturnar dýrmætar og það ástand, sem ég hef hér lýst, er að sjálfsögðu fráleitt með öllu. Ég orðlengi ekki þetta mál frekar, en ber fram þá fyrirspurn til ráðh. póst- og símamála, hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því að í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem eru miðstöðvar brunavarna, læknisþjónustu og löggæslu fyrir nærliggjandi sveitir, verði framvegis opin símstöð allan sólarhringinn.