18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

70. mál, rafknúin samgöngutæki

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hafði fyrir nokkru vegna veikindaforfalla hv. 1. flm. þessarar till„ hv. 8. þm. Reykv., Péturs Sigurðssonar, fallist á að mæla nokkur orð fyrir ályktunartill. þessari, en hún er um athugun á hagkvæmni rafknúinna samgöngutækja. Þessi till. hefur áður verið flutt. Hún var flutt á 92 löggjafarþinginu og var þá flutt fyrir henni framsaga sem ég leyfi mér að vísa til. Fyrir því líka er ekki þörf á eins rækilegri framsögu nú. Till. varð þá ekki útrædd og þess vegna er hún endurflutt nú,

En ályktunartill. er um það að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á kostnaði þess að tekin verði í notkun hér á Landi rafknúin samgöngutæki, Jafnframt. þeirri athugun verði gerður samanburður á hagkvæmni þeirra og annarra samgöngutækja sem nú eru í notkun og enn fremur að í þeim samanburði verði tekið tillit til orkukaupa frá innlendum aflgjafa. Þá er lagt til, að stefnt skuli að því að þessari athugun verði lokið hið fyrsta þannig að niðurstöður geti legið fyrir á næsta Alþ.

Þessi till, er auðvitað flutt með sérstöku tilliti til þess að svo verði í náinni framtíð hér á Íslandi að við getum nýtt okkar mikla innlenda orkugjafa, raforkuna. Í öðrum löndum er mikil reynsla þegar fengin af rafknúnum samgöngutækjum, þannig að þegar til verður tekið hér, sem væntanlega verður, þá getum við mjög leitað til annarra um allar upplýsingar og dregið lærdóm af þeirri reynslu sem þær þjóðir hafa aflað sér.

Það er enginn vafi á því að þegar ráðist verður í það t. d. að leggja veg umhverfis landið með varanlegu slitlagi, þá verður örugglega í þeirri ráðagerð og þeirri áætlum að byggð verði raflína meðfram þeim vegi sem gæti e. t. v, dregið meginhluta af flutningum okkar eftir hinum nýju vegum. Miklu fleiri möguleikar eru til sem aðrar þjóðir hafa tíðkað um langt árabil. Enn fremur er þess að gæta að mjög hefur nú vaknað athygli alls almennings á því að forðast beri eftir mætti hvers konar mengun andrúmsloftsins. Enda þótt við séum svo heppnir, íslendingar, að búa við það veðurfar að slíkt komi e. t. v. ekki til á næstunni, þá er þó í hinu stórvaxandi þéttbýll hér á suðvesturhorninu sá möguleiki vissulega fyrir hendi — einmitt sá að vegna mengunar frá samgöngutækjum þyrfti sérstaklega að huga að því að knýja þau með einhverju öðru en þeirri orku sem gert er í dag, þ. e. dísilorku og bensíni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þessa till. fleiri orðum. Það er mjög áhugavert efni, sem hún fjallar um. Eins og ég sagði í upphafi vísa ég til þess sem áður hefur verið rætt um þessa till. hér á þingi fyrir þremur árum og bið hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hafa það í huga og leita sér frekari upplýsinga í þeim umr. En auk þess er með þessari ályktunartill. allítarleg grg.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. atvmn.