18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Mig langar til að segja um þessa till. nokkur almenn orð. Ég mun ekki blanda mér í þær umr. sem hér hafa farið fram um till. þessa. Af óviðráðanlegum ástæðum heyrði ég ekki fyrri hl. umr., en ég heyri á ýmsu nú að þær umr. hafa verið skemmtilegar og mjög fróðlegar og er mér í því eftirsjá, þótt auðvitað eigi maður eftir að geta lesið alla þá speki á prenti síðar. En þegar till. sem þessi er rædd, þá hljóta að vakna ýmsar spurningar, ekki aðeins um framkvæmd alla, heldur einnig á hvaða braut er í raun stefnt og hvar skulu sett skynsamleg mörk.

Í allri umr. um þessi mál hafa nær eingöngu togast á tvö sjónarmið og á ég þar ekki við umr. hér á Alþ. beinlínis, heldur úti í þjóðfélaginn almennt. Af þessum tveim meginsjónarmiðum hafa reyndar umr. um þessi mál hér á Alþ. borið sterkan keim. Annars vegar er frelsistal ýmissa þéttbýlisbúa, frelsi til þess að njóta landsins sameiginlega eins og það er oft orðað, en getur orðið býsna teygjanlegt og náð nokkuð víða þegar betur er að gáð. Ég sé meira að segja anga af þessum öfgum í grg. þessarar till., þar sem verið er að víkja sérstaklega að banni við rjúpnadrápi sem ýmsir landeigendur hafa sett. E. t. v. er hér um að ræða gott sýnishorn af því sem sumir þéttbýlisbúar meina með frelsishjalinu, enda oft kryddað slíkri óvild í garð bænda og búaliðs að furðu sætir.

Ekki ætla ég flm. þessarar till. neinar slíkar slæmar kenndir í garð bænda og eflaust er þetta dæmi selt inn af misgáningi eða að lítt hugsuðu máli. Rjúpan mun reyndar áður hafa verið frægur fugl hér í sölum Alþ. svo að ekki er úr vegi að víkja að henni sérstaklega. Ég vona satt að segja að frelsi til rjúpnadráps hvar sem er, af hverjum sem er, sé ekki einn aðaltilgangur flm. með flutningi þessarar till. Á hausti hverju ærist nefnilega hver drápsglaður þéttbýlisbúi, og slík plága er nú að rjúpnadrápi þeirra og skotgleði að fyllilega hefur verið ástæða til að stemma stigu við og ætti þó hiklaust lengra að ganga. Bændur hafa blátt áfram orðið með einhverjum hætti að verjast þessum drápslýð sem í mörgum tilfellum kann ekki með byssu að fara og reiðir hvorki ratvísi né þekkingu á staðháttum og dýrategundum í þverpokum. Ónæði og beint tjón bænda af þessu æði eru slík, að nærri liggur að þeir séu að verja eigið líf með banni sínu og dugir þó illa til. En nóg um það.

Hins vegar á rjúpnadrápið án allra takmarkana mjög skylt við hugsunarhátt og skoðanir allt of mikils hluta þéttbýlisbúa þegar um er að ræða svokölluð sameiginleg not af landinu. Ekki er ég að mæla gegn ferðafrelsi fólks um náttúruna og álít að það eigi að vera sem mest og þá á ég við íslendinga. En þá vil ég einnig leggja áherslu á að sem best verði með það frelsi farið og af leiði ekki beint tjón og ónæði ýmiss konar fyrir þá sem þurfa að stunda atvinnuveg sinn með einhverjum hætti. Viðbrögð margra bænda hafa verið harkaleg og ekki mæli ég þeim öllum skilyrðislaust bót, síður en svo, enda þá oft komið að hinu andstæða sjónarmiði, þröngu sérhagsmunasjónarmiði landeigandans og jafnvel allt til beinnar meinsemi. En umgengni ferðafólks og ýmist háttarlag hefur oft verið með þeim hætti að full ástæða hefur verið til að setja við nokkrar skorður. Sem landeigandi gæti ég hér sagt af því heldur ófagrar sögur sem lýsa svo dæmalausri frekju og tillitsleysi að þær yrðu taldar ýkjusögur. Þær eru þó sem betur fer að minni reynslu miklu færri og góð umgengni og kurteisi vitanlega alls ráðandi í flestum tilfellum. Varðandi þessi frjálsu almenningsnot þarf því að fara að með fyllstu gát, ekki síst þegar augu manna hafa opnast æ betur fyrir nauðsyn umhverfisverndar og varðveislu merkra náttúruminja. Þar gildir einu hver væri hinn raunverulegi eigandi landsins, að því þyrfti alltaf framar öðru að hyggja.

Þrátt fyrir öll fögur orð um nauðsyn þess að allir megi njóta sem best þeirra dásemda sem íslensk náttúra hefur að bjóða má þar aldrei fara út í neinar frelsisöfgar sem til ills eins leiddu. Því miður liggur þetta þó að baki skoðunum allt of margra þegar þetta mál ber á góma og margar furðukenningar hafa þar um heyrst. Að því ætti þá um leið að hyggja að fara varlega í það að gera Ísland að miklu ferðamannalandi, að ferðamannalandi í enn ríkari mæli en nú er, jafnvel eins og stundum hefur verið imprað á að gera það að einni aðaltekjulind þjóðarbúsins að taka við erlendum ferðamönnum, þjóna undir erlenda ferðamenn, eins og það heitir svo fallega. Þar verður einnig að fara að með mikilli gát svo að ekki þrengist um okkur sjálfa, ekki bara landeigendur, heldur ekki síður innlenda ferðamenn.

Ég sem sagt vara almennt við þessum hugsunarhætti, þessari frelsiskenningu almennt, sem á því virðist byggð sem fjarlægast er almennum umgengnisháttum, þeim sömu háttum sem í þéttbýli þykja sjálfsagðir. Ég nefni einfalt dæmi: Ég hygg að þeim hér í Arnarneinu: t. d. mundi ekki líða of vel að hafa byssumenn rápandi um lóðir sínar skjótandi það kvikt sem þeir kæmu auga á. Ekki er ég að segja að flm. þessarar till. hafi slíkar frelsisöfgar í huga, að ég veit að ýmsir þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, eru sannarlega á þessari braut. Hins vegar er svo sjónarmið landeiganda sem getur orðið mjög þröngsýnt og er reyndar venjulega gert að algildu sjónarmiði íslenskrar bændastéttar. Nú skal það aftur fram tekið að sjálfur er ég landeigandi, en ég geri mikinn mismun á þeim rétti og réttindum sem ég hef nú lögum samkvæmt. Þar set ég vissulega æðstan þann rétt til fullra nytja míns lands hvað snertir þann atvinnuveg sem ég þar stunda, þ. e. landbúnaðinn, og milli hans og annarra réttinda og hlunninda vil ég draga nokkur mörk. Nú vill svo til að ég get þar nokkuð djarft úr flokki talað sjálfur. Í fyrsta lagi er jörð mín hið næsta kauptúninu og ég álít hiklaust að engar ástæður, t. d. þarfir kauptúnsins, ættu að valda því að ég fengi óeðlilega fjárhæð fyrir hluta hennar eða hana alla af þeim sökum. Þetta er í samræmi við þá skoðun mína að brýn almenningsnot eigi að hafa forgang án þess að sá, sem aðstöðuna á, hagnist óeðlilega á þeirri þörf. En hins ber þá einnig að gæta, að í þéttbýlinu hefur þetta sama sjónarmið svo sannarlega oftar en hitt verið fyrir borð borið og er lóða- og húsabrask Reykjavíkursvæðisins þar gleggst dæmi um. Hér þarf því hiklaust að vera samræmi í hlutunum. En bændur almennt eiga ekki að ýta undir það á neinn hátt að einstakir aðilar innan þeirrar stéttar hagnist óeðlilega, hvorki vegna almenningsþarfa og enn síður þó vegna hlunninda sem gera einstakar jarðir ævintýralega háar í verði. Fyrir raunverulegan landbúnað er þessi stefna röng og það því fremur sem svo margir hafa þurft og þurfa enn að yfirgefa jarðir sínar án þess að fá nokkuð í staðinn, hafandi fórnað þar lífsstarfi sínu og sinna um áratugaskeið. M. a. af þeim sökum ættu bændur í fullum rólegheitum að íhuga vel spurninguna um ríkiseign jarða almennt, þar sem einhver trygging kæmi þá þeim til handa sem helst þyrftu hennar með. Einmitt af þessari ástæðu, horfandi upp á þá mörgu bændur sem bótalaust hafa horfið frá jörðum sínum, hef ég ætíð hneigst mjög að þeirri stefnu almennt ef hún væri réttlátlega og skynsamlega útfærð, en þá þyrfti þjóðfélagsgerðin í heild að vera önnur, það viðurkenni ég og það er önnur saga.

En ég held áfram með hin ýmsu réttindi sem jörðum fylgja, réttindi sem vikið er að í þessari till., réttindi sem þjóðfélagið í heild er sagt þurfa og þarf á að halda, og þar vil ég setja nokkuð skýr mörk. Þar á landeigandinn ekki að geta sett fram óeðlilegar kröfur eða hindranir, svo framarlega sem ekki er um að ræða þann réttindamissi sem rýrir möguleika hans til atvinnurekstrar síns, landbúnaðarins.

Svo að ég tali enn hreint út frá sjálfum mér — mér finnst það einhvern veginn einlægast — þá er allt vatn til Reyðarfjarðarkauptúns tekið úr minni landareign og okkar feðga og þau réttindi höfum við aldrei selt. Ég efa reyndar að til þess sé nægilega skýr lagaákvæði þó að vera megi að svo sé. Ég teldi að ef við gerðum það, þá væri það óeðlilegt, ég væri að hagnast óeðlilega á því að selja þessi vatnsréttindi mínu sveitarfélagi, og ég mundi aldrei gera það. Við leigjum einnig töluvert mikið land og við tökum fyrir það allháa leigu, enda er þar um að ræða land sem er auðræktanlegt og mjög gott til beitar einnig. Mér finnst það því allsanngjarnt, þó að einnig þar megi um deila. En allir aðilar, sem þarna leigja land, hafa af því hag að vera með land fjarri kauptúninu sjálfu og kusu það heldur. Í þriðja lagi er svo mikið sandnám eða hið næstmesta í Múlasýslu, sem Reyðafjarðarhreppur á í félagi við okkur landeigendur. Þar er einmitt komið nærri þeim námaréttindum sem ég er alfarið inn á að eigi að vera í höndum ríkisins, sem þá jafnframt sjái til þess að bæta bændum hugsanlegt tjón varðandi landbúnað þeirra af þeim sökum. Ég vil sem sagt skilja skýrt á milli þeirra atriða sem beint snerta landbúnaðinn og námuréttindi ýmis konar sem ég álít að eigi að vera á almenningseign. Þannig er t. d. um háhitasvæðin o. m. fl. því um líkt. Það hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt að á slíkum dýrmætum þáttum þjóðhags okkar geti einstaklingar grætt of fjár. Ég segi fyrir mig sem landeigandi, ekki kæri ég mig um slíkt. Kann að vera að aðrir taki því fegins hendi. En ég endurtek, þá þarf einnig margt býsna hliðstætt að taka í gegn í þéttbýlinu varðandi óeðlilega gróðamyndun þar sem stendur almenningi og þjóðarbúi fyrir þrifum beinlínis.

Ég hef aldrei veitt neitt á ævinni og ég held ég sleppi þeim þætti, og vitanlega hristir hv. þm. Stefán Jónsson höfuðið yfir þessum aumingjaskap, en ég tel veiðiréttindi til hlunninda sem beinlínis snerta landbúnaðinn, það hlýtur að vera rökrétt og eðlilegt. En þar á sér vissulega stað óheillaþróun sem stöðva ber og bændur ættu í raun að taka í þátt af fullri alvöru. Annars vegar er jarðabrask efnamanna úr þéttbýlinu kring um veiðiárnar sem er óhugnanlega hættulegt íslenskum landbúnaði og ömurlegt hve margur hefur þar látið vélast vegna kostaboðs þess rumpulýðs sem í jarðirnar hefur sótt til þess eins að græða á þeim. Þar tek ég sterklega undir grg., þó að ég vari enn frekar við ásókn útlendra aðila í veiðiár okkar og heldur leiðinlega stefnu margra bænda í þeim efnum vægast sagt.

Jarðabrask auðmanna verður að stöðva. Jarðalagafrv. í fyrra var stórt spor í þá átt þótt lengra hefði mátt ganga. Því miður sáu sumir flm. þessarar till. ekki ástæðu til að styðja framgang þess frv. og reyna að koma þar við nauðsynlegum umbótum til frekari hindrunar þessum ófögnuði. Mig minnir það nefnilega áreiðanlega rétt að fulltrúar Alþfl. í Ed. hafi staðið gegn þessum lögum og gefið út sameiginlegt nál. með sjálfstæðismönnum þar að lútandi. Verð ég að segja að ekki fylgir alltaf fullur hugur máli í þessum efnum. Full ástæða er til að vinna hér að ötullega og skeyta í því efni engu um margþvælt frelsishjal sem áreiðanlega mun heyrast nú og í framtíðinni eins og á þinginu í fyrra þegar þeir sjálfstæðismenn börðust sem hatrammast gegn nýjum jarðalögum og fengu, svo furðulegt sem það var, einmitt stuðning Alþfl. við það. Ég var alls ekki ánægður með þetta frv., en taldi það mikilvægt spor í rétta átt, og eftir breyt. í Ed. var m. a. spornað við ýmsu því óæskilegasta í jarðabraskinu, m.a. því að spenna söluverð jarða í nágrenni þéttbýlisstaða upp úr öllu valdi. Allar breyt., sem gerðar kunna að verða í þessa átt, verða að vera gerðar í eins góðu samkomulagi við bændastéttina í landinu og hægt er. En hún verður þá einnig að þekkja sinn vitjunartíma og viðurkenna þær hættur sem að landbúnaðinum steðja verðandi ýmis framantöld atriði og einnig að viðurkenna rétt alþjóðar til þeirra réttinda sem verður að telja óháð landbúnaðinum sjálfum, en eru nauðsynleg þjóðarheildinni sem slíkri. Rétt bænda til jarða sinna og allra gagna þeirra og gæða í því þjóðfélagi, sem við lifum í, til allra þeirra gagna og gæða sem atvinnu þeirra snerta, tel ég rangt að skerða með lagaboði nú. Þar vitna ég einfaldlega til þeirrar þjóðfélagsgerðar, til þess hagkerfis sem við búum við. En ég viðurkenni að sú framtíðarskipun kann að vera nauðsyn að land allt kunni að verða ríkiseign með fullu samkomulagi við bændur landsins. Ég er hræddur um og ég gagnrýni bændur óneitanlega nokkuð fyrir óeðlilega þröngsýni og fastheldni á sumt af rétti sínum, hversu fráleitur sem hann kann að vera sem einkaréttur. Sem sveitamaður alla tíð þykist ég geta nokkuð hlutlaust hér um talað. Ég tel t. d. mjög fráleitt að engin takmörk séu fyrir eignarrétti bænda sett, t. d. upp í óbyggðir, upp undir jökla, eins og nú er víða fram haldið. Hér er allt of langt gengið og bændum einum í óhag að halda sig fast við svona fráleita hluti sem aðeins eru til þess fallnir að vekja andúð á öðrum sjónarmiðum þeirra sem eru eðlileg og sanngjörn og ég styð.

En aðalatriði þessa máls eru þó þau að ekki sé verið að vega að eignarrétti einnar stéttar og það okkar ágætu bændastéttar á meðan ekki er um leið vegið að eignarrétti ýmissa annarra stétta sem enn síður eiga rétt sinna eigna en þó bændur, hvað sem menn um telja. Slíka heildarlöggjöf um eignarrétt þurfum við eflaust og m. a. um þær eignir sem menn hafa náð til sín með óeðlilegum hætti, t. d. verðbólgugróðanum og hvers kyns braski í skjóli hans. Það er fjarstæða að gera ekki ærlega úttekt á þessum aðilum og svipta þá sínum illa fengnu eignum ef gera ætti eignaupptöku hjá bændum. Hitt þarf svo aftur að athuga rækilega, hvaða atriði og þættir óskyldir landbúnaði eiga að verða almenningseign, og þá hugmynd get ég fúslega stutt.

Það er mín skoðun að allur óeðlilegur gróði þurfi að hverfa úr þjóðfélaginu, allur óeðlilegur gróði sem safnast á einstakar hendur. Þann gróða er ekki að finna hjá meginþorra bænda, en hann á ekki heldur að koma í hendur þeim sem við þá sérstöðu búa að í landi þeirra er að finna verðmæti sem ættu að vera þjóðareign.

Ég ítreka aðeins það, að hér þarf að fara með fullri gát og alveg sérstaklega án allrar skerðingar á búskaparmöguleikum bænda yfirleitt. Hins vegar þarf gróðamyndunin í þjóðfélaginu rannsóknar við í heild og inn í þá mynd koma bændur að sjálfsögðu eins og aðrar stéttir. Það væri kannske brýnasta verkefni okkar í dag, þegar þeir kvarta oft hæst sem mesta möguleika hafa á því að safna illa fengnum auði, en í þeim hópi eru bændur það fáséðir að á öðrum ber þá hiklaust að byrja.