18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Illt er að trúa annarra orðum. Það er greinilegt að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefur ekki hlustað á ræðu mína áðan, heldur hefur hann farið eftir þeim orðum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lét falla hér áðan þegar hann var að ræða um það að við hefðum aðhyllst hér, við hv. þm. Stefán Jónsson, hin verstu afturhaldssjónarmið.

Þegar ég fór að taka saman niðurstöðurnar úr ræðu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar áðan þegar hann var að þurrka af sér allan bændafjandskapinn sem honum hefur verið nuddað upp úr undanfarið með réttu eða röngu, þá voru þær þær sömu hjá okkur hv. þm. svo að við erum þá líklega álíka afturhaldssamir í þessum efnum eða álíka frjálslyndir. Hann sagði greinilega í sinni ræðu að það væri alls ekki meiningin að ganga í neinu á eignarrétt bænda á jörðum sínum heldur væri um að ræða þau verðmæti sem ættu að vera alþjóðareign, nákvæmlega sama og ég sagði í fyrri ræðu minni í kvöld. Það er mjög alvarlegt að hlaupa svona eftir orðum annarra, sérstaklega þegar þau eru eins og orð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar voru hér áðan, þegar aðalniðurstaða hans var slík. (GÞG: Er þm. þá með till.?) Ég sagðist ekki vera með till., með öllum atriðum till., það var alveg rétt. Till. er það víðtæk og ég gerði mjög nána grein fyrir því og nenni ómögulega að fara að rifja það allt saman upp fyrir hv. þm. Hann getur farið til hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og fengið frekari fræðslu um það. Ég sé að honum líkar sú fræðsla vel. Það er svona svipað eins og það þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hélt því fram hér áðan að eitthvað í sambandi við rjúpnaveiði hefði verið aðalatriðið í mínu máli. Það er dæmi um skilning þessa hv. þm. á landbúnaðarmálum yfirleitt — sorglegt dæmi reyndar. Og hann sagði að ég hefði verið mjög tvístígandi í málinu — og tvístígandi í mínu máli var í raun og veru sú afstaða sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason var að lýsa yfir að væri raunveruleg afstaða þeirra Alþfl.- manna í þessu efni, þeir ætluðu sko aldeilis ekki að ganga á neinn rétt bænda, engin hlunnindi þeirra sem snertu beinlínis landbúnaðinn, það væri bara um að ræða verðmæti utan landbúnaðarins, það sem ætti að vera eign þjóðarheildarinnar. Þetta kallaði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson tvístígandi í mínum málflutningi og vissi ekki hverju sætti. Nú þarf hann að fara að yfirheyra hv. fyrrv. formann síns flokks og vita hvað er samræmi og hvað er ekki samræmi í hans málflutningi.

Ég sagði áðan að ég vildi gera allsherjarúttekt á gróðamyndun í þjóðfélaginu og alls ekki taka bændur þar eina út úr, því að það er óneitanlega samkv. þessari till. Bændur eru teknir þar töluvert út úr varðandi óeðlilega gróðamyndun þeirra. En það þarf að fleirum að hyggja. Og í því sambandi fór hv. þm. Sighvatur Björgvinsson háðlegum orðum um það hvar væri nú þjóðnýtingarstefna Alþb. Ekki hélt ég að ég mundi heyra það af vörum þm. Alþfl. að þeir nefndu orðið þjóðnýtingarstefnu hér í ræðustól, Og ekki hafði ég heldur ímyndað mér það að þeir færu að segja: Hvað gerðu svo þessir hv. þm., Stefán Jónsson og Helgi Seljan? Þeir tóku afstöðu með íhaldinu. — Hvar var þessi hv. þm. 12 viðreisnarárin? Hann var ekki þm. þá, það er alveg rétt. En hann studdi ábyggilega dyggilega þá afstöðu sem Alþfl. tók þá alla tíð með íhaldinu og gleymdi gersamlega hverju einasta þjóðnýtingaráformi, svo gersamlega að hvergi sáust þess nokkur merki. Það væri hollast að minnast ekki á þessi atriði þegar talað er um þjóðnýtingarstefnu.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom hér inn á það áðan, að það væri lítil huggun fátækum bændum þegar hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir kæmi til þeirra hughreystandi orðum og segði að þeir ættu þó landið sitt sjálfir alla vega. Ég veit alveg eða þykist alveg vita samkv. því sem ég hef séð í blaði hans æ ofan í æ ásamt greinum sálufélaga hans í Vísi hvaða huggun þeir vilja færa svona bændum. Og þá dettur mér í hug ræða hv. þm. hér fyrr á þinginu þar sem hann talaði um að skera og skera. Það voru svo sannarlega orð að sönnu í sambandi við þá huggun sem þessir ágætu menn vilja færa bændum. Þeir vilja nefnilega skera þá niður, þeir vilja leggja þessa bændur niður með öllu. Hefur verið margyfirlýst að það væri þeirra stefna. Það er sú huggun sem þeir ætla að flytja bændum. Þá kann ég nú betur við, þrátt fyrir allt, huggunina sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir ætlar að flytja bændum heldur en þá huggun sem bændur hafa yfirleitt fengið að kynnast frá þeim hv. flokki, Alþfl.

Ekki veit ég hvaðan úr veröldinni sú Reykjavíkurspeki hefur komist inn í höfuð hv. 8. þm. Reykv., Péturs Sigurðssonar, þegar hann var að tala um að ég hefði haldið fram forkastanleik þess að launþegar fengju land fyrir orlofsbúðir sínar. Það er verst að þessi hv. þm. er ekki hér svo að hægt væri að hræra örlítið upp í hans heilabúi. Það er sannarlega ekki vanþörf á því að sjálfur stóð ég eystra að orlofsbúðum fyrir launþega, starfaði í n. sem vann þar allgott starf og kom þar upp myndarlegum orlofsbúðum í sveit og þykir mikill sómi að. Ég held að hann sé að rugla þarna saman því, sem ég talaði um, að einstakir menn legðu undir sig heilar jarðir undir sumarbústaði. En það þýðir vitanlega ekki að leiðrétta þennan hv. þm. lengur því að nú eru þeir Heimdellingar farnir að leiðrétta hann og koma honum í hinn eina og sanna skilning um hans hlutverk hér á Alþ. og verður gaman að sjá hann endurhæfðan aftur að þeim fundi loknum.

Hv. 9. landsk. þm. fagnaði því að við þm. Alþb. hefðum verið að verja eignarréttinn. Þá er nú spurningin um það, ef það var rétt að við höfum verið sérstaklega að verja eignarréttinn, hvort hv. þm. er þá sammála almennum niðurstöðum okkar um eignarréttinn almennt. Sú niðurstaða okkar var nefnilega töluvert ákveðin og einörð. Og þó að við vildum af auðskýrðum ástæðum ekki ganga fyrst á eignarrétt bænda, ekki gera neinn uppskurð á almennum eignarrétti þeirra, þá lögðum við á það ríka áherslu að slíkan allsherjaruppskurð á gróðamyndun í þjóðfélaginu yrði að gera. Og ég fagna því sannarlega ef hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir er okkur hv. þm. Stefáni Jónssyni sammála í því. Höfuðinntakið í máli okkar beggja var að meinsemdanna væri ekki að leita í gróðamyndun hjá íslenskri bændastétt, heldur allt annars staðar, og þar þyrfti svo sannarlega að taka til hendinni. Ég gleðst sannarlega yfir því ef við höfum fengið liðsmann til þess að gera þar á ærlegan uppskurð.