18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Steinþór Gestason:

Herra forseti. Þessar umr. um till. um eignarráð þjóðarinnar á landinu eru nú orðnar þó nokkuð langar, en þó í raun og veru alltaf endurtekning á því sama og sýnist því varla ástæða til að taka tvisvar til máls um hana. En vegna þess að það er skipt um tóntegund öðru hverju þá verður aldrei séð fyrir endann á því hvaða bassaleikari verður hljómfyllstur að lokum, og því vil ég koma hér að fáeinum atriðum sem hefur borið á góma í síðustu ræðum.

Hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, furðaði sig mjög á því, að það þvældist fyrir okkur að finna grundvallaratriði þessarar till. Hann sagði að fyrir flm. væri það grundvallaratriði að bændur ættu jarðirnar. Þá höfum við það. En hvað er það þá sem þeir vilja breyta? Bændur eiga mest af jörðum í landinu. Jú, líklega næsta atriði sem verður þá að vera grundvallaratriði nr. 2, það er að allt land verði alþjóðareign. Það vill svo vel til að í þessari till. er það skilgreint hvað er alþjóðareign, hver þarf að vera lýstur eigandi lands til þess að alþjóð teljist eiga það. Það er ríkið og það eru sveitarfélögin. Nú er það merkilega við eignarhald á landi, að ekki eru eigendur að neinu marki nema þessir þrír aðilar og í eina fallinn, sem ég veit til að upp hafi komið ágreiningur um eignarráð, er það á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Ég þekki ekki að annars staðar hafi orðið ágreiningur um eignarráð, svo að það má furðulegt heita að jafnvel flm. skuli ekki lánast að finna grundvallaratriði sinnar eigin till., því að það finnst mér hafa berlega komið fram við þessar umr. hér.

En um leið og ég vek athygli á þessu vil ég koma hér lítils háttar inn á eitt eða tvö atriði sem hafa flogið mér í hug við þá einstæðu og einkennilegu kennslustund sem ég þykist hafa orðið hér aðnjótandi um búskap og þá einkum frá þeim, sem eru flm. þessarar till. og hafa talað fyrir henni.

Ég hygg að það hafi verið hv. 8. landsk. þm. sem ræddi um þá gjöf sem Alþ. samþykkti að gefa þjóðinni á hátíðarfundinum á Þingvöllum í sumar. Hann spurði um hvort það væri virkilega rétt að það ætti enginn réttur að fylgja slíkri gjöf sem Alþ. hefði gefið þjóðinni. Mér finnst að spyrjandinn misskilji gjöfina og nauðsyn hennar ef hann þarf að spyrja slíkrar spurningar sem þessarar. Vitanlega er þessi gjöf gefin og þetta starf áformað til þess að bæta okkar land. Ég vil segja þessum hv. þm. það í sambandi við þessa spurningu hans, eins og fleira sem hann hafði hér orð á í sambandi við landbúnað, að honum væri miklu réttara að lesa sér dálítið til um þessi efni áður en hann ræddi þau hér á Alþ. Ég held að það væri mjög hollt að lesa t. d. bók dr. Sturlu Friðrikssonar sem heitir Líf og land þar sem ljóslega er komið inn á það og skilgreint á hvern hátt landeyðingin hefur orðið á þessum ellefu öldum. Hún er alls ekki fyrst og fremst fyrir þá sök að það hafa búið bændur í landinu. Vitaskuld hafa landkostir breyst við það að lífríkið var rofið um leið og maðurinn nam hér land. En það er hverjum manni ljóst og undirstrikað mjög rækilega í þeirri bók, sem ég hér gat um að væri hollt að lesa, að það er fyrst og fremst það að hitastigið í landinu er af þeirri gráðu sem gerir allan gróður mjög viðkvæman. Ég minnist þess vel að þegar ég var ungur maður á árunum milli 1920 og 1930 sem voru lok verulegs kuldaskeiðs, þá hafði ég fyrir augum mér æðimarga daga á árinu þykkan þokumökk af mold frá uppblæstri, og þetta var sjón sem var hörmuleg. Sem betur fer höfðu ráðamenn, bæði á vegum ríkisvaldsins og vegum bænda, hug til þess að reyna að koma þarna eitthvað til bjargar. Þeirra ráð náðu skammt. En góðviðrisskeiðið, sem staðið hefur frá 1930 og fram um 1960, hefur hjálpað til svo að unnið var þrekvirki í þessu máli, og á árunum 1960 og þar fyrst á eftir var hann gersamlega horfinn, þessi moldarbakki sem ég hafði fyrir augunum. Ég segi þetta ekki til þess að slæva tilfinningu manna fyrir því að þeir þurfi að vinna hér vasklega að, heldur til að reyna að sýna mönnum fram á hversu tíðarfarið hefur þarna mikla þýðingu.

Þessi sami hv. þm. vildi líka segja okkur til með það hvernig við ættum að fara að því að vinna að fiskrækt í vötnum á Íslandi. Mér þóttu þær upplýsingar, sem hann gaf hér, mjög merkilegar af því að þær voru alls ekki samhljóða þeirri skýrslu sem ég hafði frá Jóni Kristjánssyni fiskifræðingi um rannsóknir hans um Þingvallavatn og ég hef hér í höndunum. Hann talar alls ekki um að það muni vera lækning við öllum meinum í fiskrækt að minnka riðilinn á netinu og veiða meira og veiða meira. Hann segir að það sé margt sem til þurfi að koma. Hann ræðir um m. a. að það þurfi að rannsaka fæðumagn í vatninu og þær sveiflur sem á því kunna að verða svo og ýmis önnur atriði sem snerta líffræði fiskanna í vatninu. Hann afneitar því alls ekki að það sé hægt að hafa áhrif á fiskgöngu og fiskrækt með því að rannsaka fóðrið og jafnvel gefa fóður. En aðalniðurstaða hans um Þingvallavatn er sú að eitt það alvarlegasta í Þingvallavatni sé sú röskun sem virðist hafa orðið á tegundajafnvægi vatnsins. Þar á ég við að urriðunum hefur fækkað og murtu og e. t. v. einnig bleikju fjölgað. Eitt brýnasta fiskræktarverkefnið í dag er því að sleppa urriðaseiðum í vatnið og ber að vinna sem best að því máli. Erfitt er að segja til um seiðafjölda á þessu stigi málsins en stefnan ber að því að setja í vatnið 150–250 þús. sumaralin seiði á ári.

Ég vildi láta þetta koma hér fram svo að það sæist svart á hvítu að þessum fiskifræðingi verða ekki eignuð þau úrræði til bjargar í fiskræktarmálum sem eru algerlega út í hött og vitanlega stórhættuleg. Ég held líka, að eins og ráðstöfun veiðivatna á Íslandi er háttað nú á dögum, þá séu þau ekki í ýkjamikilli hættu með það að mistök verði gerð. Veiðilöggjöfin gerir ráð fyrir ákveðinni ráðstöfun vatnanna og hún gerir ráð fyrir félagsveiði í öllum tilvikum og það styður að því að menn sameinist um að halda vötnunum í góðri rækt og vitaskuld kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar eftir því sem þörf er á.

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umr. öllu meir. En ég get gjarnan í lokin spurt sömu spurningar og hv. 9. þm. Reykv. spurði hér aftur og aftur í sinni ræðu áðan, hvað þessar umr. hefðu leitt í ljós? Það er að mínum dómi mjög athyglisvert hvað þær hafa leitt í ljós. Þær hafa leitt í ljós að það vefst fyrir flm. þessarar till. sjálfum að sýna fram á hvert er aðalstefnumið þeirra í þessu máli. Ef ekki má taka trúanleg þau orð sem í till. standa heldur á að lesa eitthvað á bak við línurnar, þá er ekki nema eðlilegt að það vefjist fyrir okkur sem ekki höfum samið tillgr. En það, sem greinilegast hefur komið fram, er það að flm. skilja ekki sjálfir hvað þeir eru að fara.