19.03.1975
Efri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

174. mál, áburðarverksmiðja á Norðausturlandi

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir frumkvæði hans í því að flytja hér þáltill. um áburðarverksmiðju á Norðurlandi.

Ég vil taka undir það með hv. flm. að okkur er þörf á því að auka áburðarnotkun í landinu, okkur er þörf á því að auka gróður landsins og okkur er þörf á því að auka framleiðslumöguleika matvæla í landinu. Hins vegar vil ég líka benda á það, að þegar ákveðin er bygging áburðarverksmiðju er nauðsynlegt að tillit sé tekið til þess hversu hagkvæm slík framkvæmd er fyrir þróun íslensks landbúnaðar. Ég get reyndar ekki neitað því, að mér finnst sumt það, sem segir bæði í þáltill. og grg., vera nokkuð afdráttarlaust án þess að mér sé fyllilega kunnugt um rökin fyrir því. Ég hefði talið heppilegra með þessa till. að hún væri á þá lund, að það væri könnuð hagkvæmni þess að byggja slíka áburðarverksmiðju sem þessa, því að ég vil taka það mjög ákveðið fram að bygging slíkrar verksmiðju má ekki í neinu verða dragbítur á íslenskum landbúnaði. Það er t. d. undirstöðuatriði að sá áburður, sem við framleiðum hér, sé a. m, k, ekki dýrari en áburður væri ef við flyttum hann frá nágrannalöndum.

Það væri sjálfsagt ástæða til þess hér að ræða ýmislegt um landbúnaðarmál og raunar kom hv. flm. inn á ýmislegt í því sambandi. Mér fannst út af fyrir sig mjög athyglisverð ummæli hans um hugsanlega vöruskiptaverslun við fjarlægar þjóðir sem vantar mat. En við rekum okkur e. t. v. á það, sem líka kom fram í ræðu hans, að til þess að slík vöruskiptaverslun geti átt sér stað þarf líka að vera fjárhagslegur grundvöllur fyrir henni. Það kom t. d. fram í máli frsm., að það er vissulega mjög illa farið ef íslendingar sjálfir eru ekki svo vel efnum búnir að þeir geti lagt sér til munns þær landbúnaðarvörur sem við framleiðum. En ég get ekki neitað því, að mér finnst dálítil tengsl vera á milli þess kostnaðar sem er við almenna framleiðslu hér í landinu, jafnvel getum við sagt líka þess kaupgjalds sem gildir í landinu, þeirrar lífsafkomu sem við búum við og þeirra möguleika sem við höfum til þess að koma vörum okkar í verð í fjarlægum löndum þar sem kaupgetan er lítil og verðlag fremur lágt. Ef við getum komið þessu í kring með vöruskiptaverslun, eins og hér var talað um, og komið þeim vörum, sem við fáum úr fjarlægum löndum, í hátt verð hér á vesturlöndum, þá kann það að létta okkur róðurinn. En ég er ekki alveg viss um að þessi mál séu eins einföld og mér fannst að flm. þætti liggja í augum uppi.

Mig langar aðeins að drepa á það hér, án þess að ég hafi um það nákvæmar tölur, að eitthvað á milli 65 og 75% — það er ekki nákvæm tala, heldur ágiskunartala, — af framleiðslukostnaði íslenskra landbúnaðarvara í dag — og þá á ég við heildsöluverðið — eru vinnulaun, ýmist sem framleiðslukostnaður á sveitabýlunum sjálfum eða við vinnslu vörunnar, þannig að mikill meiri hl. þess, sem við köllum kostnaðarverð á landbúnaðarvörum, er í ákaflega nánum tengslum við hið almenna kaupgjald í landinu og þá almennu verðlagsþróun sem á sér stað í landinu. Ég hef haldið því fram, að það væri fátt sem mældi betur verðlagsþróunina heldur en einmitt verð landbúnaðarvaranna vegna þess hvernig okkar verðlagskerfi er uppbyggt. Það er sjálfsagt ekki ástæða til þess að rekja það hér, en í grundvallaratriðum er það þannig, eins og menn vita, lögum skv. að bændum er ætlað svipað kaupgjald fyrir vinnu sína við búrekstur og tilteknum öðrum atvinnustéttum í landinu. Það, sem hefur áhrif á hækkun eða lækkun verðs á landbúnaðarvörum, eru eingöngu breytingar á tilkostnaði, breytingar á kaupgjaldi og breytingar á rekstrarvörum, og þar á ég auðvitað við verðlag landbúnaðarvaranna óniðurgreitt. Þess vegna er það svo, að ef við ætlum virkilega að gera framleiðslu landbúnaðarvara að stórfelldum atvinnuvegi til útflutnings, þá verðum við nauðugir viljugir að finna fjárhagslegan grundvöll fyrir því, til þess einmitt að bændastéttin geti lifað sambærilegu lífi við aðrar stéttir í landinu.

Ég vildi óska þess að þetta væri og yrði eins auðvelt og mér fannst á flm. að hann áliti að það yrði. Ég er sannfærður um það, eins og hv. flm., að það eru miklir möguleikar hér á landi til aukinnar matvælaframleiðslu í íslenskum landbúnaði. Við vitum líka að við höfum mjög mikla möguleika til aukinnar matvælaframleiðslu í sjávarútvegi. Því miður er það svo núna, að einmitt sömu ástæðurnar og liggja til þess að menn horfa fram á það með ugg að þurfa að greiða það geysiháa verð sem verður á áburðinum í vor — einmitt sömu ástæðurnar liggja til þess að við eigum nú mjög erfitt með að selja framleiðsluvörur okkar á erlendum mörkuðum. Ég vil vekja athygli á því hér, að hv. flm. tók svo til orða að það megi telja nokkurn veginn víst að íslenskir bændur fái ekki áburð á túnin sín á næsta vori. Ég vona sannarlega að þetta sé ekki rétt með farið. Ég veit ekki annað en að það séu uppi áætlanir um að gera það kleift. Hins vegar vil ég líka vekja athygli á því, og ég vil einmitt nota þetta tækifæri til að óska eftir liðsinni hv. flm. þessarar till. við það, að til þess að bændur geti keypt áburð á túnin sín, hvort sem það er innlend eða erlend framleiðsla, þá þurfa þeir að fá það verð fyrir framleiðsluvöru sína að búskapurinn beri sig.

Ég vil taka undir það með hv. frsm., að ég tel að einmitt smábændurnir hafi verið á ýmsan hátt mjög þarfir þjóðfélagsþegnar. Þeir hafa, eins og sagt er, lifað mikið af sínu. Þeir hafa ekki verið stórir þátttakendur í því að skapa þá miklu þenslu, sem almennt hefur verið í þessu þjóðfélagi og vissulega valdið okkur efnahagslegum örðugleikum. Þeir hafa búið að sínu, ræktað jörðina, og afkoma þeirra fyrst og fremst byggst á því að þeir hafa litlu eytt af því, sem þeir hafa aflað, umfram það sem þeir hafa notað til að bæta sínar jarðir, bæta það land sem þeim hefur verið fengið til meðferðar.

Ég álít að það sé ekkert keppikefli fyrir okkur, hvorki frá efnahagslegu né menningarlegu sjónarmiði, að breyta íslenskum búskap í verksmiðjubúskap, stórbúskap á þann mælikvarða sem á það er lagður í stærstu landbúnaðarlöndum veraldarinnar. Ég held að við höfum vel efni á því að halda landbúnaðinum í svipuðu horfi og verið hefur og efla hann til útflutningsframleiðslu svo fremi sem fjárhagslegur grundvöllur finnst fyrir slíku.

Ég vil nota þetta tækifæri til að óska eftir samvinnu við hv. flm. um að hann og aðrir alþm. standi á verði um það, að ekki verði í neinu rýrð þau kjör sem bændur hafa nú í dag í hlutfalli við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Það kann að virðast óþarfi að nefna slíkt. En þó er mér það vel ljóst að á hverjum tíma verður að hafa uppi öfluga kynningarstarfsemi og áróðursstarfsemi um það að gera mönnum skiljanleg kjör sveitabænda og þörf þeirra á því að njóta jafnréttis við aðrar stéttir um kaup og kjör.

Ég fagna því, sem fram kom í ræðu hæstv. landbrh., að til skoðunar verði hvort ekki sé hagkvæmt að reisa nýja áburðarverksmiðju annars staðar á landinu heldur en í næsta nágrenni Reykjavikur. Ég er sammála flm. till. um að það mundi styrkja mjög stöðu þess landshluta sem fengi slíka verksmiðju heim til sin. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að renna fleiri stoðum en við höfum gert undir atvinnulíf okkar, og ég þykist sjá einmitt í till. hv. flm. nokkra viðurkenningu á því, að það, sem kallað hefur verið stóriðja eða orkufrekur iðnaður, eigi rétt á sér í þessu landi.

Ég ætla ekki að tefja þetta mál öllu lengur. Mér finnst, eins og ég sagði áðan, bera nokkuð á fullyrðingum í þessu máli hv. flm. Í till. segir fortakslaust: „Alþ. ályktar að láta nú þegar hefja undirbúning“ og að nýtt verði rafmagn frá fyrirhugaðri Kröfluvirkjun. Ég efast um að það verði afgangur orku í verulegum mæli, eins og nú er gert ráð fyrir að þessi virkjun verði. Þá er tekið svo til orða í grg., með leyfi hæstv. forseta, að ljóst sé að raforku verði „ekki varið til hagkvæmari nota, svo að sæmilegt sé, en til áburðarframleiðslu.“ Þetta eru upplýsingar sem ég veit ekki hvort eru réttar, en þykir vænt um ef eru réttar. Og hér stendur, að svo sé hvort sem „miðað er við innlendan markað eða útflutning.“ Þetta er líka nýtt fyrir mér, að það sé fortakslaust að þetta sé hagkvæmasta notkun raforku í iðnaði, og þætti mér vænt um að fá nánari upplýsingar um hvar þetta er að finna. Hér er enn fremur sagt, sem sjálfsagt er rétt, að við ættum „að geta orðið aflögufærir um raforku í þessu skyni í sívaxandi mæli á næstu árum.“ Ég vona að það sé rétt, sem hér er sagt, að þetta sé hagkvæmasta notkun sem við höfum fyrir okkar miklu orkumöguleika. En það væri fróðlegt að vita hvaðan þessar upplýsingar eru komnar, því að þær eru raunar ekki í fullu samræmi við það sem aðrir hafa sagt um þessa hluti.