19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil hér við 1. umr. þessa máls í hv. d. gera grein fyrir afstöðu SF til frv. og vil í því tilefni lesa samþykkt sem þingflokkur og framkvæmdastjórn SF hafa gert og fjallar um þetta frv. Samþykkt þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Orkuforðinn í fallvötnum og jarðvarma landsins er mesti þjóðarauður íslendinga, og hagsæld þjóðarinnar hlýtur í vaxandi mæli að fara eftir því hvernig hann er nýttur. Orkuskortur í heilum landsfjórðungum og gífurleg hækkun á verði innfluttra orkugjafa knýja á um mótun heildarstefnu um orkuvirkjanir og dreifingu nægrar orku um landið allt á jafnaðarverði.

Ekki örlar á að núverandi valdhafar ætli að sinna á fullnægjandi hátt þessari brýnu þörf þjóðarinnar með því að hraða eins og framast er unnt rannsóknum, áætlanagerð og framkvæmdum í orkumálum með heildarhagsmuni landsbyggðarinnar allrar fyrir augum.

Eina meiri háttar mál, sem orkunýtingu varðar og komið hefur til kasta yfirstandandi Alþ. af ríkisstj. hálfu, er frv. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Hvaða augum sem menn líta á það fyrirtæki út af fyrir sig, er ljóst, að málefni, sem eru langtum afdrifaríkari fyrir hag þjóðarinnar og þróun búsetu í landinu, eru látin sitja á hakanum. Stofnlínur milli landshluta eru undirstaða tengingar landsins alls í eitt orkuveitukerfi sem fullnægir þörfum þjóðarinnar á jafnaðargrundvelli. Framkvæmdir við stofnlínu milli Suðurlands og Norðurlands, sem vinstri stjórnin hafði undirbúið sem forgangsverkefni, eru enn í undandrætti. Þess verður ekki vart að línulögn frá þeirri línu til Vestfjarða sé svo mikið sem á dagskrá. Takist að hraða virkjun Kröflu eins og nú er áformað, er aðkallandi að ákveða og undirbúa skjótt lagningu línu frá Kröfluvirkjun til Austurlands. Ekki vottar fyrir að því máli sé sinnt.

Samfara tengingu landsins alls í eitt orkuveitusvæði þarf að móta virkjanastefnu í samræmi við það, en slíkrar stefnumótunar sér engan stað.

Könnunarskýrsla, sem gerð var á vegum vinstri stjórnarinnar um úrræði til þess að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar, leiddi í ljós að mikið og kostnaðarsamt verk þarf að vinna við endurbætur dreifikerfa fyrir utan stofnlínuframkvæmdir áður en unnt er að koma raforku til húshitunar með fullnægjandi hætti til þeirra byggðarlaga sem ekki geta orðið jarðvarmaveitna aðnjótandi. Ekkert hefur verið sinnt um að fylgja þessu máli eftir með nánari könnun og áætlanagerð.

Þegar mikilvægum undirstöðuatriðum orkuöflunar og orkudreifingar, sem þjóðarhagur veltur á flestu öðru fremur, er lítt eða ekki sinnt af hálfu stjórnvalda, geta Samtökin ekki léð fylgi frv. ríkisstj. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Um leið og Samtökin lýsa þessari afstöðu benda þau á að núv. till. að samningi eru á margan hátt óhagstæðari hinum fyrri og nauðsynlegar athuganir á áhrifum verksmiðjunnar á lífkerfi umhverfisins hafa ekki farið fram.

Á sama tíma og ákveðið er að næsta stórvirkjun verði í tengslum við stóriðju á suðvesturhluta landsins, eru framkvæmdir í orkumálum landsbyggðarinnar látnar sitja á hakanum. Stofnlínulögnum milli Suðurlands og Norðurlands, til Vestfjarða og frá Kröfluvirkjun til Austurlands hefur verið slegið á frest. Ítarlegar athuganir á dreifingu raforku til húshitunar úti um land hafa ekki verið framkvæmdar.

Enn fremur benda Samtökin á að samtímis því að ríkisstj. leggur fram frv. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði sem íslenska ríkið þarf að leggja til þúsundir millj. kr., áformar hún stórfelldan niðurskurð á framkvæmdum sem eru lífshagsmunamál landsbyggðarinnar. Þessi niðurskurður um nokkur þús. millj. kr. mun m. a. bitna á heilbrigðisþjónustu, hafnarframkvæmdum, flugvallargerð og skólabyggingum í þeim landshlutum sem nú standa þegar höllustum fæti.“

Þetta er í meginatriðum afstaða SF til þess frv. sem hér er nú til umr. Ég gæti lokið hér máli mínu, vegna þess að samþykkt þessi og ályktun tekur alveg afdráttarlaust afstöðu til þessa máls, hún er skýr og hún er ljós. Ég vil þó fara örfáum orðum frekar um þetta atriði, en skal vera stuttorður.

Í mínum huga er spurningin um framkvæmd þessa, eins og málum er nú háttað í íslensku þjóðfélagi, kannske fyrst og fremst spurning um byggðamál. Ég vil taka skýrt fram að sú afstaða, sem SF eru nú að taka til þessa máls, er ekki alfarið andstaða við stóriðjuframkvæmdir í landinu eða framkvæmdir í samvinnu við erlenda aðila, en nauðsyn ber til að skoða hverja slíka framkvæmd út af fyrir sig.

Fyrir stuttu voru til umr. á Alþ. þau lög sem sett vorn á sínum tíma til þess að létta byrði þeirra, sem verst eru settir og þyngstar byrðar bera vegna hinnar geigvænlegu hækkunar á olíuverði sem orðið hefur hin síðustu ár. Það verður því að teljast afar óeðlilegt að í framkvæmd sem þá er hér um ræðir sé ráðist á sama tíma og heilir landshlutar eru þannig settir vegna orkuskorts að fjöldi heimila nálgast það að verða gjaldþrota vegna þess hversu geigvænleg hækkun hefur átt sér stað á kyndingarkostnaði á þessum heimilum. Auk þess, eins og fram kemur í þessari ályktun, er ljóst að efnahagsstefna núv. ríkisstj. hefur leitt til þess ástands, eins og hæstv. ráðh. sjálfir lýsa nú yfir, að allar líkur benda til þess að brýnustu og bráðnauðsynlegar framkvæmdir úti á landsbyggðinni verði skornar niður, en á sama tíma ætlar ríkissjóður að leggja milljarða í kostnað við uppbyggingu járnblendiverksmiðju hér á suðvesturhorni landsins. Vel gæti ég unnt þeim vestlendingum og kannske öðrum, sem kæmu til með að njóta góðs af þessu fyrirtæki, þess að njóta. En ég tel að kringumstæður þjóðfélagsins gefi ekki tilefni til að ráðast í slíkar framkvæmdir á þessu horni landsins á sama tíma og skera á við trog lífsnauðsynlegustu framkvæmdir úti á landsbyggðinni.

Það væri ástæða til að fara hér örfáum orðum og gera samanburð á þeim samningi, sem hér er nú verið að ræða vegna járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, samanborið við samningsdrög sem búið var að gera í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég ætla ekki, a. m. k. ekki við þessa 1. umr. málsins hér í d., að gera slíkt. Kannske gefst til þess tækifæri síðar, en kannske er besti samanburðurinn fenginn í ræðu sem hv. þm. Jón G. Sólnes flutti í Ed. Alþ. fyrir nokkru, þegar hann gerði að umræðuefni hversu þessi samningur, sem nú er lagður fyrir Alþ., er mun óhagstæðari íslenska ríkinu heldur en hinn fyrri var sem vinstri stjórnin gerði. Mín afstaða til þessa máls er að sjálfsögðu, eins og fram kemur, ekki grundvölluð á sömu skoðunum og afstaða þessa hv. þm. Okkar afstaða til málsins mótast fyrst og fremst af því að við teljum að ríkjandi ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem efnahagsstefna núv. ríkisstj. hefur leitt af sér, gefi ekki tilefni til þess að í slíka stórkostlega framkvæmd sé ráðist hér á suðvesturhorni landsins á sama tíma og heilir landshlutar eru sveltir að orku og allar líkur benda til þess, ef fram heldur sem horfir, að það sé langtímaspursmál hvenær þessir landshlutar koma til með að njóta orku, sem nú er þegar skortur á, hvað þá ef auka ætti uppbyggingu bæði atvinnulífs og búsetu í þessum landshlutum.

Því hefur verið haldið fram af sumum ráðandi mönnum að fjármagn, sem íslenska ríkið ætlar sér að fá til þessara framkvæmda, sé ekki fáanlegt til annarra framkvæmda. Í mínum huga er ekki um neinar staðreyndir máls að ræða. Ég hygg og það er mín skoðun að hér sé fyrst og fremst um pólitíska ákvörðun að ræða. Það þarf enginn mér að segja, hvort sem það á við um núv. valdhafa né aðra þá sem sitja að völdum hér á Íslandi, að það sé ekki hægt, ef vilji er fyrir hendi, að útvega fjármagn til þeirra brýnu nauðsynja sem það er að koma orku til þeirra landshluta sem eru sveltir af slíku. Allt tal þeirra, sem nú rökstyðja uppbyggingu þessarar verksmiðju í Hvalfirði í þá átt að hér sé bara um það spursmál að ræða til að fá fjármagn inn í landið, það sé ekki fáanlegt né nýtanlegt til annarra hluta en þessara, er að mínu áliti blekking ein. Ég sagði það áðan: Þetta er pólitísk ákvörðun, spurning um pólitískan vilja ráðandi manna í þjóðfélaginu. Og ég er um það viss, hvað sem líður öllum útreikningum sérfræðinga, þó að ýmsu leyti séu góðra gjalda verðir, — þá er ég um það viss að það er hægt á tiltölulega skömmum tíma með þeirri tækni sem fyrir hendi er nú, og því fjármagni, sem íslenska ríkið ætlar að leggja af mörkum til þessarar verksmiðju, á tiltölulega skömmum tíma að koma í framkvæmd uppbyggingu dreifikerfis til þeirra landshluta sem nú þegar búa við orkuskort. Og það er nr. eitt að mínu áliti, það er nr. eitt verkefni í þá átt að hagnýta orku innanlands áður en farið er að fjalla um samninga til erlendra aðila.

Ég held að með því, sem ég hef nú sagt, sé ljós afstaða Samtakanna til þessa máls. Við erum andvígir því, byggt á þeirri forsendu að við teljum að svo brýn verkefni séu fyrir hendi hér innanlands til þess að láta íslendinga sjálfa fyrst og fremst njóta þeirra gæða sem búa í íðrum jarðar og hægt er að virkja, að við teljum að það sé verkefni nr. eitt, áður en farið er að snúa sér að öðru, ekki síst með hliðsjón af því þegar efnahagsástand undir stjórn núv. hæstv. ríkisstj. hefur leitt af sér að hennar eigin sögn að allar líkur eru á að ekki hundruð millj. kr., heldur milljarða kr. niðurskurður muni vera væntanlegur á brýnustu og nauðsynlegustu framkvæmdum sem landsbyggðarfólkið, sem hefur verið vanrækt um árabil, þarf á að halda.