21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

52. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr. og fjallar um breyt. á l. nr. 13 13. apríl 1973, um Happdrætti Háskóla Íslands, er flutt skv. beiðni háskólaráðs, en með því er stefnt að því að auka veltu og hagnað Happdrættis Háskóla Íslands á næstu árum, svo að það geti lagt meira af mörkum til fyrirhugaðra bygginga á vegum háskólans. Á slíku er mikil nauðsyn vegna mikilla byggingarframkvæmda og tækjakaupa Háskóla Íslands og stóraukins kostnaðar vegna viðhalds húsa og búnaðar.

Frv. felur í sér eina breyt. frá gildandi l. þ.e.a.s. heimild til útgáfu sérstaks flokks hlutamiða, B-flokks, til viðbótar við þá fjóra flokka, E, F, G og H, sem nú eru gefnir út. Endurnýjunarverð miða í hinum nýja flokki yrði fimmfalt hærra en í þeim flokkum, sem fyrir eru, og fjárhæð vinninga einnig fimmfalt hærri.

Breyt., sem frv. felur í sér, er líkleg til að auka veltu og hagnað happdrættisins og gera framkvæmdir háskólans mögulegar, án þess að verð miða verði hækkað í þeim flokkum sem fyrir eru, en það er nú 300 kr. á mánuði og hækkaði um síðustu áramót. Óbreytt verð gömlu miðanna á næsta ári gerir mörgum viðskiptavinum happdrættisins kleift að halda áfram þátttöku án aukins kostnaðar, en nýi flokkurinn gefur þeim, sem vilja auka þátttöku sína í happdrættinu verulega, möguleika á því á einfaldan hátt.

Helstu framkvæmdir, sem hagnaður af rekstri happdrættis Háskóla Íslands rennur til á næstu árum, eru þessar: Sérhæfðar byggingar fyrir verkfræði- og raunvísindadeild, sem unnið er að í áföngum, byggingar almenns kennsluhúsnæðis sem nú er orðinn mikill skortur á og sérhæfðar byggingar fyrir læknadeild og tannlæknadeild sem nú eru að hefjast á landsspítalalóð, en þær verða aðeins að hluta reistar fyrir happdrættisbréf. Búnaður í háskólabyggingar og tæki til rannsóknarstarfsemi og kennslu eru keypt fyrir happdrættisfé, og enn fremur er frágangur og viðhald lóða og viðhald húsakosts háskólans greitt af hagnaði happdrættisins.

Í grg. með fjárlagatill. stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands var skýrt frá því að tekjuáætlun happdrættisins væri reist á þeirri forsendu að viðbótarflokkur sá, sem frv. gerir ráð fyrir, fáist lögfestur á þessu ári. Drög að framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands eru einnig byggð á sömu forsendu.

Ég sé nú ekki ástæðu til, herra forseti, á þessu stigi að fara frekari orðum um þetta frv. Þingnefnd sú, sem fær frv. til meðferðar, getur kynnt sér byggingarmálefni háskólans frekar með könnun á gögnum, sem fylgdu fjárlagatill. háskólans, og einnig með viðræðum við fyrirsvarsmenn háskólans, háskólarektor eða aðra fulltrúa, ef hv. þingnefnd telur á því þörf. En ég endurtek það, sem áður er sagt, að þetta er frv. sem flutt er skv. beinum tilmælum frá háskólaráði og háskólarektor.

Ég vil vekja athygli á því að það er mikilvægt, það er beinlínis þörf á því að frv. nái fram sem fyrst vegna undirbúnings að sölu happdrættismiða á næsta ári, en sala þeirra hefst í lok desember, þannig að frv. getur ekki náð þeim tilgangi sem stefnt er að, nema orðið sé við þeim tilmælum að afgreiða það með skjótum hætti. Ég vona, að hv. n. og hv. d. geti á það fallist, þar sem ég held að þetta sé tiltölulega einfalt, og um nauðsyn fjáröflunar til þeirra þarfa, sem í frv. getur, verður ekki efast.

Herra forseti. Ég legg til, að nú að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.