21.03.1975
Neðri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég mun við þessa 1. umr. málsins ekki ræða þetta viðamikla frv. í einstökum atriðum. Það er augljóst að flutningur þess stendur í sambandi við þá alvarlegu kjaradeilu sem nú stendur yfir og lausn hefur því miður ekki enn fundist á. Ég tel hafið yfir allan efa að ákvæði þessa frv. eru af hvorugum deiluaðilanna álitin nægilega viðtæk eða nægilega ítarleg né heldur þess eðlis að þau, þó að lögfest yrðu, stuðluðu í nokkrum verulegum mæli að því að lausn fáist á deilunni. Af þessum sökum mun Alþfl. ekki geta stutt þetta frv. óbreytt, beinlínis vegna þess að hann telur að það nái ekki því sem þó eflaust á að vera og þarf að vera megintilgangur lagasetningar um þau efni sem frv. fjallar um, þ. e. a. s. þeim tilgangi að stuðla að sanngjarnri og réttlátari lausn vinnudeilunnar og koma í veg fyrir þá þjóðarógæfu sem verkföll nú mundu verða fyrir íslenskan þjóðarbúskap.

Þegar þetta frv. verður endanlega afgr. frá hinu háa Alþ. þarf að afgr. það með þeim hætti að það stuðli að eða jafnvel tryggi lausn deilunnar og þar með áframhaldandi atvinnu í landinu og vinnufrið. Þess vegna verður meginefni þess máls, sem frv. fjallar um, í raun og veru ekki rætt nema því aðeins að menn geri sér grein fyrir hvað það er sem á þessari stundu ber á milli deiluaðila í vinnudeilunni.

Það er þrennt sem ber á milli. Það er í fyrsta lagi hversu skattalækkun á launþegum eigi að vera mikil. Það er þegar gert ráð fyrir 700 millj. kr. skattalækkun í fjárl. Flogið hefur fyrir, frá því hefur verið skýrt í blöðum að áhangendur ríkisstj. hafa látið í það skina að skattalækkun gæti orðið 1 100–1 200 millj. kr. Af hálfu launþegasamtakanna hefur hins vegar verið sagt á samningafundum og frá því skýrt opinberlega, þannig að óhætt er að endurtaka það hér, að ósk launþegasamtakanna sé að skattalækkunin í heild verði 2 000 millj. kr., verði 2 milljarðar og komi það fé sumpart frá ríkissjóði og sumpart frá sveitarsjóðum. Fyrsta deiluatriðið er því það hversu miklar fjárhæðir launþegum skuli réttar sem kjarabætur í formi skattalækkana.

Annað atriði, sem á milli ber, er hversu mikið skuli hækka láglaunabætur frá því sem nú á sér stað. Vinnuveitendur hafa skýrt frá því að þeir hafa boðið hækkun um 3 800 kr., en af hálfu launþega hefur frá því verið skýrt að ef semdist, ef samningar næðust til stutts tíma, t. d. til miðs ársins, og ekki þyrfti að koma til verkfalla, mundu launþegar eftir atvíkum geta sætt sig við að hækkun láglaunabótanna yrði 5 300 kr. á mánuði.

Þriðja og síðasta deiluatriðið er svo það að atvinnurekendur hafa boðið að láglaunabótin, 3 800 kr. skuli aðeins koma á dagvinnu, en fulltrúar launþega hafi sagt að sú láglaunabótaupphæð, sem endanlega verði samkomulag um, verði að koma á alla vinnu, einnig á eftirvinnu og næturvinnu, þar eð ekki sé hægt að raska hlutfallinu á milli dagvinnu og næturvinnu.

Þetta eru þau þrjú atriði sem nú ber á milli. Fyrsta atriðið snertir ríkissjóð, ríkisvaldið beint og sveitarfélögin. Það snertir löggjafarvaldið. Það snertir Alþ. íslendinga beinlínis því að Alþ. eitt getur ákveðið breytingu á tekjuskattsl. og útsvarsl. Það er augljóst að skv. þessu frv. er ekki unnt að verða við þeirri ósk launþegasamtakanna að skattalækkunin í heild verði 2 004 millj. kr. En það er hægt að mínu viti eins og ég mun koma nánar að á eftir. Þegar hefur ríkissjóður á hendinni 700 millj. kr. Hann gæti bætt við öðrum 600–700 millj. kr. og Alþ. gæti lagt það á sveitarfélögin að hækka frádráttarliði launþega upp að vissu tekjumarki sem því svaraði að sveitarsjóðir legðu fram svipaða upphæð, þ. e. 600–700 millj. kr. Þá mætti heimila sveitarfélögum að bæta sér upp þennan tekjumissi, sem auðvitað verður að gera, þau geti valið annaðhvort að hækka aðstöðugjöld eða hækka fasteignagjöld. Ef þau hækkuðu aðstöðugjöldin væru það fyrirtæki sem bæru þetta, en ekki launþegar. Ef þau hækkuðu fasteignagjöldin væru það efnamenn í þjóðfélaginu sem fasteignir eiga sem bæru hækkunina. Það er því hægt að verða við þeirri kröfu eða þeirri ósk launþegasamtakanna að fá 2000 millj. í skattalækkanir með því móti að ríkið taki að sér að greiða aðrar 700 millj. til viðbótar þeim, sem það hefur nú lofað að greiða eða heimild er fyrir að greiða í fjárl., og að láta sveitarfélögin bæta þriðju 600–700 millj. við. Þá er komin sú 2 000 millj. kr. upphæð sem launþegarnir hafa óskað eftir í skattalækkun.

Það er óhjákvæmilegt að atvinnurekendur verði við þeirri kröfu launþegasamtakanna að greiða sömu láglaunabætur á öll laun. Í raun og veru er lítt skiljanlegt hvernig fulltrúum vinnuveitenda hefur getað dottið í hug að hægt væri að raska hlutfallinu á milli kaupgjalds í dagvinnu annars vegar og eftir- og næturvinnu hins vegar svo gífurlega sem verða mundi ef láglaunabæturnar væru eingöngu greiddar á dagvinnuna. Það er því óhjákvæmilegt að við þessari kröfu verkalýðshreyfingarinnar verði orðið. En segja má að það mál snerti ríkissjóð ekki beinlínis, því að þar yrði um að ræða aukin útgjöld fyrir atvinnurekendur. Enn fremur þýðir það auðvitað líka aukin útgjöld fyrir atvinnurekendur ef upphæð láglaunabóta yrði hækkuð frá tilboði atvinnurekenda, 3 800 kr. í 5 900 kr.

Það má segja að þetta mál snerti ríkissjóð ekki beinlínis, vegna þess að hér er beinlínis um aukin útgjöld til kaupgreiðslna að ræða fyrir atvinnurekendur. En nú er spurningin hvort ríkissjóður geti samt sem áður ekki stuðlað að því eða greitt fyrir því að atvinnurekendur gangi að þessum kröfum launþegasamtakanna.

Í þessu frv. biður ríkisstj. um heimild til lækkunar á fjárl. um 3500 millj. kr. Það hlýtur að vera leyfilegt að gera ráð fyrir því að ríkisstj. hafi þegar gert athugun á því að slík lækkun sé framkvæmanleg. Því verður ekki trúað á þessa ríkisstj. né nokkra aðra að hún biðji um heimild til að lækka útgjöld sem hún sjálf trúir ekki á að unnt sé að nota. Ríkisstj. hlýtur að hafa kannað að hægt sé að lækka útgjöld ríkisins um 3 500 millj. kr. Ég er henni sammála um að það hlýtur að vera hægt og það á að vera hægt, og meira að segja vegna ástandsins í efnahagsmálum þjóðarinnar yfir höfuð er nauðsynlegt að slíkt sé gert. Það er heilbrigð stefna undir núv. kringumstæðum að fresta opinberum framkvæmdum allt að því stigi að ekki hljótist af atvinnuleysi. Ég er því algerlega samþykkur þeirri viðleitni hæstv. ríkisstj. að draga sem allra mest úr útgjöldum ríkisins, fyrst og fremst með sparnaði á rekstrargjöldum og í öðru lagi með frestun á framkvæmdum. Ég tel frv. stefna að þessu leyti í rétta átt. Þá gerir frv. einnig ráð fyrir 5% skyldusparnaði sem gert er ráð fyrir að muni gefa ríkissjóði 250 millj. kr. tekjur. Ég gerði grein fyrir því í eldhúsumr. í gær að ég tel skyldusparnaðarhugmyndina í sjálfu sér vera skynsamlega og eðlilega og er reiðubúinn til að stuðla að framkvæmd hennar undir núv. kringumstæðum og í því formi sem hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir í frv. sínu. En ég tel skyldusparnaðinn vera of lágan, tel það tekjuháa fólk, sem hér er um að ræða, geta án þess að tilfinnanlegt yrði sparað meira, lagt meira en 5% fram til lausnar þeim vanda sem við er að etja. Ég nefni töluna 7% í því sambandi. Það mundi gefa ríkissjóði 350 millj. kr. tekjur. Skv. niðurstöðu ríkisstj. sjálfrar gæti hún haft á hendinni 3 500 millj. kr., og á grundvelli hugmynda, sem hún sjálf hefur sett fram, tel ég hana geta aflað sér 350 millj. kr. til viðbótar, þ. e. a. s. hún gæti haft til ráðstöfunar 3 850 millj. kr.

Þá vaknar spurningin: Hvernig væri hægt að nota þetta fé til þess að stuðla að lausn vinnudeilunnar sem ég tel nú vera brýnasta verkefnið í íslensku þjóðlífi og þessu frv. er áreiðanlega ætlað og það er heilbrigt í sjálfu sér að stuðla að lausn á.

Þetta fé mætti í fyrsta lagi nota þannig að hækka framlag ríkissjóðs til skattalækkunar úr þeim 700 millj. kr., sem ríkisstj. hefur nú þegar heimild til, í 1400 millj. kr. og síðan, eins og ég sagði áðan, væri engan veginn of mikið á sveitarfélögin lagt þó að þeim væri skylt að lækka útsvör á láglaunafólki sem svarar 600–700 millj. kr., en taka inn sömu tekjur annaðhvort í fasteignagjöldum eða aðstöðugjöldum. Í rauninni tel ég að það ætti að skylda sveitarfélögin til að lækka rekstrarútgjöld sin, t. d. um 5%, og þar mundi nást verulegur árangur. Slíkt er eðlilegt ef ríkið sýnir viðleitni til sparnaðar, eins og hæstv. fjmrh. sagði í útvarpsumr. í gærkvöld að hann vildi gera og ég fyrir mitt leyti er honum alveg sammála um að á að gera og nauðsyn ber til að gera og skal styðja viðleitni hans í þá átt. Þá finnst mér ekki rétt að sveitarfélögin leiki alveg lausum hala. Það er rétt að Alþ. noti vald sitt yfir sveitarfélögunum til þess að fyrirskipa þeim sams konar sparnaðarviðleitni og hæstv. fjmrh. alveg réttilega boðaði hér í gærkvöld. Þess vegna kæmi vel til greina að lögfesta skyldu sveitarfélaga til t. d. 5% lækkunar á rekstrarútgjöldum sínum. Í öllu falli tel ég engin vandkvæði á því, að sveitarfélögin í heild leggi 600–700 millj. kr. í þessa skattalækkunarpúlíu, og þá er tölunni 2 000 millj. náð.

Með þessu móti, þessu tiltölulega einfalda móti, er hægt að verða við ósk stéttarfélaganna um að fá 2 000 millj. til skattalækkunar.

Í þessu sambandi vil ég láta þess getið að ríkisstj. mun hafa orðað það við samninganefnd stéttarfélaganna að hún mundi taka tillit til þess hvort stéttarfélögin vildu heldur fá þessa skattalækkunarupphæð, hver svo sem hún yrði, í formi lækkunar á tekjuskatti eða í formi lækkunar á söluskatti. Ég tel að það væri hægt að hagnýta upphæðina, hver sem hún yrði, t. d. 2000 millj. kr. upphæð, miklu betur og miklu réttlátar í þágu láglaunafólksins með því að lækka beina skatta, með því að lækka tekjuskattinn og taka upp neikvæðan tekjuskatt með sameiningu barnafrádráttarkerfisins í skattkerfinu og fjölskyldubótakerfisins heldur en að nota þessa peninga almennt til lækkunar á söluskatti sem koma mundi jafnt hátekjumanninum til góða og látekjumanninum, enda hygg ég að sú sé skoðun yfirgnæfandi meiri hl. áhrifamanna í launþegasamtökunum. Ég vil við þetta tækifæri láta í ljós stuðning við þessa hugmynd, að sú upphæð, sem endanlega fæst til skattalækkunar, verði notuð til lækkunar á tekjuskatti og til þess að taka upp neikvæðan tekjuskatt, þ. e. endurgreiðslu til skattþegnanna, í stað þess að nota hana til lækkunar á söluskatti, af því að það er enginn vandi að færa augljós rök, fullkomna sönnun fyrir því, að með því móti njóta hinir tekjulágu, hinir tekjulægstu, skattalækkunarinnar betur en þeir mundu gera ef um almenna lækkun á söluskatti væri að ræða. En ég skal ekki orðlengja um þetta atriði við þetta tækifæri hér.

Hér er sem sagt um að ræða að það er hægt að leysa skattalækkunarvandamálið með 700 millj. kr. viðbótarútgjöldum af hálfu ríkissjóðs. Þá er og alveg óhjákvæmilegt, enda viðurkennt af öllum í orði, að það verður að hækka lágmarkstekjutrygginguna og það verður að hækka ellilaun. Ég tel, að sú lágmarkshækkun, sem þarna komi til greina, sé 15%. Það mundi jafngilda því að lágmarkstekjutrygging einstaklinga færi upp í 295 000 kr. og hjóna upp í 560 000 kr. og ellilaun yrðu hækkuð upp í 184000 kr. fyrir einstakling og 350 000 kr. fyrir hjón. Þetta mundi kosta ríkissjóð í viðbótarútgjöldum 860 millj. kr. Þá eru útgjöldin komin upp í 1 560 millj. kr.

Þá er að sjálfsögðu algerlega óraunhæft að gera ekki ráð fyrir að laun opinberra starfsmanna hækki í kjölfar þeirra samninga sem vonandi takast milli launþegasamtakanna og vinnuveitenda. Ef gert er ráð fyrir hliðstæðri hækkun hjá opinberum starfsmönnum og þeirri sem ég var að lýsa áðan að launþegasamtökin óskuðu eftir, mundu launaútgjöld ríkisins hækka um u. þ. b. 800 millj. kr. En þrátt fyrir þetta yrðu enn afgangs tæplega 1500 millj. kr. af þeim 3 850 millj. kr. sem ríkisstj. sumpart segist hafa á hendinni, geta haft á hendinni, eða ég segi að hún geti haft á hendinni með hækkun á skyldusparnaðinum. M. ö. o.: ríkisstj. hefði enn, ef svona yrði farið að, ef sparnaðurinn við lækkun á fjárl. kæmi til framkvæmda, 1 500 millj. kr. á hendinni til að stuðla að lausn vinnudeilunnar.

Ég setti í eldhúsumr. í gærkvöld fram þá hugmynd að það mætti stuðla að lausn vinnudeilunnar með því að nota þetta fé til að lána þeim atvinnurekendum sem ekki treysta sér til þess að greiða þá hækkun láglaunabóta sem launþegasamtökin hafa farið fram á, — lána þeim þetta með sama hætti og til sama tíma og hátekjumennirnir eiga að lána ríkissjóði til þess að leysa vandann. Hér er um að ræða nákvæmlega sama hugsunarháttinn og felst að baki skyldusparnaðarhugmyndinni. Þar er tekið af hálaunamönnum, þeir eru látnir lána þjóðfélaginu hluta af tekjum sínum í nokkurn tíma með lágum vöxtum, en verðtryggt, til þess að leysa þann vanda sem við erum staddir í.

Því er ekki að neita að vel getur verið að afkoma margra fyrirtækja sé þannig að þeim sé um megn að greiða þær láglaunauppbætur sem launþegasamtökin hafa farið fram á. Auðvitað er afkoma fyrirtækja mjög misjöfn. Ég held að enginn beri á móti því, að þau fyrirtæki eru auðvitað mörg sem eru svo vel stæð og hafa svo góða afkomu að þau gætu vel greitt 5 900 kr. í viðbótarláglaunaupphæð á mánuði á alla vinnu; dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu. En ég er ekki heldur svo óraunsær að gera mér ekki grein fyrir því að þau fyrirtæki undir venjulegum kringumstæðum eru eflaust mörg sem eiga erfitt með þetta, jafnvel gætu það ekki. Þess vegna tel ég það vera hugmynd sem sannarlega kæmi til athugunar og ætti að skoða ofan í kjölinn, hvort ekki mætti nota þessar 1500 millj. til þess að lána þessum fyrirtækjum sem sýndu fram á að þau gætu ekki án taprekstrar greitt hækkun láglaunauppbótanna um 5 900 kr., — lána þeim þetta fé í tiltekinn tíma og þá auðvitað í trausti þess að þau notuðu þennan tíma til þess að bæta afkomu sína, til þess að auka hagræðingu og bæta framleiðni, þannig að þeim yrði kleift að endurgreiða féð smám saman á tilteknum tíma.

Þannig tel ég að mætti leysa vandann og tryggja samninga, sem hlýtur nú að skoðast höfuðviðfangsefnið sem við er að etja.

En í þessu sambandi verður að hafa í huga að jafnvel þó að gengið yrði að þessum óskum eða kröfum verkalýðshreyfingarinnar, sem ég nú hef verið að lýsa, er þar ekki um fullar bætur að ræða fyrir þá kjaraskerðingu sem orðið hefur. Þess vegna kemur ekki annað til greina af hálfu verkalýðshreyfingarinnar en að samið verði til stutts tíma. En ég endurtek: jafnvel þótt gengið yrði að þessum kröfum verkalýðshreyfingarinnar er hagur launþega ekki réttur að fullu, og einmitt þess vegna legg ég enn og æ áherslu á að nauðsyn sé til sparnaðar, að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og spari á öllum mögulegum sviðum og að ríkið skyldi sveitarfélögin til þess að spara og ríkið knýi fyrirtækin til að spara, en veita fyrirtækjum, sem væru í sérstökum vandræðum lán, en skylda þau til þess að endurgreiða lánin, sem þau auðvitað gætu ekki gert með öðru móti en að lækka útgjöld sín eða auka tekjur sínar.

Í þessu sambandi ber einnig að skoða þá hugmynd sem ég setti fram í eldhúsumr. í gær að á þessu ári ætti ekki að leyfa fyrirtækjum fullar fyrningar. Það vita allir sem hafa minnstu þekkingu á skattal. að fyrningarreglur skattal. eru með þeim hætti að afkoma fyrirtækis getur verið góð en hagnaðurinn horfið í óeðlilega miklar fyrningar sem fyrirtækin hafa lögum skv. heimild til. Ég er ekki að segja að undir venjulegum kringumstæðum sé óeðlilegt að leyfa fyrirtækjum verulegar fyrningar, þ. e að safna sjóðum í því formi að fyrna. En undir þeim kringumstæðum, sem nú er um að ræða í þjóðfélaginu, er mjög óeðlilegt að fyrirtæki græði, en geti leynt gróðanum í skjóli fyrningarreglnanna sem eru hugsaðar út frá allt öðrum forsendum en nú er um að ræða í íslensku þjóðlífi.

Ég tel sem sagt að þær hugmyndir, sem ég hef sett fram í stórum dráttum, mundu geta leyst þá vinnudeilu sem nú stendur yfir, þótt ekki væri nema til bráðabirgða, t. d. til miðs ársins. En þann tíma, til miðs ársins, ætti síðan að nota til að stuðla að auknu hagræði bæði í opinberum rekstri og í einkarekstri, til að endurskoða vísitölukerfið, til þess að endurskoða verðlagningarkerfi landbúnaðarafurða og ýmislegt annað sem óhjákvæmilegt er að gera ef takast á að ná samningum til langs tíma og leggja traustan grundvöll að heilbrigðu launakerfi og heilbrigðu atvinnulífi í landinu.

Þó að ég hafi sagt að ég muni ekki ræða málið í einstökum atriðum við 1. umr. þess, þar eð ég á sæti í þeirri n. sem málinu verður væntanlega vísað til, þá höfum við þm. Alþfl. þó talið rétt að bera nú þegar við 1. umr. málsins fram eina brtt., því að hún lýtur að máli sem snertir svo mjög allan almenning að þegar við 1. umr. þarf að minna á nauðsyn þess að gera eitthvað á því sviði. Í 19. gr. frv. er fjmrh. heimilað að lækka eða fella niður söluskatt á einstökum matvöruflokkum. Það er út af fyrir sig ágætt að fjmrh. hafi heimild til slíks. En eigi hann að hafa heimild til að lækka eða fella niður söluskatt af matvörum, einstökum matvörum eða matvöruflokkum, þá er ekki síður nauðsynlegt að hann hafi heimild til að fella niður söluskatt af þeim útgjaldalið heimilanna sem hefur hækkað einna mest á undanförnum mánuðum og hvílir allra þyngst á fjölmörgum heimilum í landinu, en það er kostnaðurinn við húshitun, hækkandi verðlag á olíu til húshitunar. Það er sá baggi sem einna þyngst hefur hvílt á íslenskum fjölskyldum á undanförnum mánuðum. Eigi að lækka söluskatt á matvörum og matvöruflokkum, þá er ekki síður nauðsynlegt að lækka hann á olíu til húshitunar. Þess vegna höfum við þegar við l. umr. leyft okkur að flytja brtt. þess efnis, að fjmrh. sé heimilt að lækka eða fella niður söluskatt af einstökum matvörum eða matvöruflokkum svo og olíu til húshitunar, sbr. l. nr. 10/1960 með áorðnum breytingum. Þessi till. mun að sjálfsögðu koma til meðferðar í þeirri n. sem um málið mun fjalla, fjh.- og viðskn.

Að síðustu vil ég segja að ég tel rétt og eðlilegt að endanleg afgreiðsla þessa máls, þessa víðtæka frv. bíði eftir niðurstöðu viðræðnanna í þeim samningum sem nú eiga sér stað á milli vinnuveitenda og launþega. Ég tel að nauðsynlegt sé að það liggi fyrir hvort samningar takast eða takast ekki áður en Alþ. afgr. frv. það sem hér er nú til 1. umr. Það gæti auðveldlega farið svo að það yrði nauðsynlegt að sjálft Alþ. segði síðasta orðið, segði sitt lokaorð til þess að endarnir nái saman, til þess að samningar takist. Ég er í engum vafa um að allir flokkar á Alþ. vilja stuðla að því að samningar takist. Það frv., sem hér er flutt, er einmitt grundvöllur þess að slíkt orð verði sagt. Það er farvegur sem slík orð gætu fallið í og ættu að falla í. Þess vegna tel ég að þetta mál eigi að vera til athugunar í þn. þangað til séð er fyrir endann á viðræðum launþegasamtakanna og vinnuveitendanna og þá eigi að skoða hvort hægt sé að gera þær breytingar á frv. að þær dugi til þess að samningar náist. Í óbreyttu formi hjálpar frv. ekki til þess, stuðlar það ekki að því, því miður, að sjónarmið launþega annars vegar og vinnuveitenda hins vegar nálgist hvort annað. En það er hugsanlegt að síðasta orð Alþ. í málinu gæti orðið til þess að samningar tækjust og verkföllum yrði afstýrt og það á auðvitað að vera markmið okkar allra sem á löggjafarsamkomunni sitjum.