03.04.1975
Neðri deild: 62. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðason) :

Hæstv. forseti. Frv. að vegalögum var lagt fram í hv. Ed. áður en þingi lauk fyrir jól á s. l. hausti og hefur verið afgr. frá þeirri hv. d. með nokkrum breytingum. Ég vil við þessa umr. geta meginmáls þessa frv. og í hverju eru fólgnar þær breytingar sem er í því að finna frá gildandi lögum um vegamál.

Höfuðtilgangur þessa frv. er sá að efla sýsluvegasjóðina, en eins og kunnugt er er orðin veruleg breyting á hlutverki þeirra frá því sem áður hefur verið. M. a. þarf að gera þá vegi betri heldur en áður var vegna þeirrar tankvæðingar, sem orðið hefur í mjólkurflutningum, sem hefur gert það að verkum að þungir og stórir bílar fara nú heim á öll heimili þar sem mjólk er framleidd eða á mörgum svæðum landsins, — það er að vísu ekki á öllum svæðum enn þá, — en það gerir það að verkum að vegirnir þurfa að vera betri en áður hefur verið.

Þetta er eitt höfuðefni frv. og er m. a. gert ráð fyrir því að breyta framlagi til sýsluvegasjóðanna frá því sem áður hefur verið. Það er gert með því að hækka þetta framlag, tvöfalda það, og enn fremur er gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði sitt framlag fyrr en áður var. Það á að vera greitt eftir á, en nú er gert ráð fyrir að það verði gert jafnharðan og framlag sýsluvegasjóðs er greitt til veganna.

Þá er og í þessu frv. að finna það ákvæði að í staðinn fyrir að 200 m skyldu tilheyra bæjum þeim, sem heimreiðin var heim á, þá er nú aðeins gert ráð fyrir því að þar sé um 50 m að ræða í sambandi við þessa vegalengd.

Inn í þetta frv. er einnig tekin heimild til þess að taka vegi vegna þjóðgarða og skólastaða, þar sem þorp er að myndast og ekki hefur áður verið talið að tilheyrði slíkum lögum, þannig að það geta nú orðið landsbrautir heim á þessa staði. Jafnframt er sýsluvegasjóðunum heimilað að leggja vegi að sjúkraflugvöllum, bryggjum og skipsbrotsmannaskýlum.

Þá er og það ákvæði í þessu frv., að viðhald á brúm á sýsluvegum var eingöngu mál sýsluvegasjóðanna að annast, en þar sem hér er nú orðið um mun kostnaðarsamari framkvæmdir að ræða en áður var er gert ráð fyrir að þarna geti verið um að ræða að þetta falli einnig undir landsbrautir eða Vegasjóður taki að sér að viðhalda þessum brúm. Er það breyting frá því sem áður var.

Þá er og heimild í þessu frv. í sambandi við fjallvegi, að þeir teljist til landsbrauta, vegir inn á fjöll, og er þetta ákvæði komið vegna virkjunarframkvæmda, svo sem Sigöldu, þar sem hefur orðið að gera verulegar vegabætur til þess að geta framkvæmt það verk. Einn þáttur í þessu frv. er einmitt að slíkt er nú heimilt, að taka upp í landsbrautir slíka vegi, sem ekki var áður til staðar.

Þá er líka að finna heimild í frv. til þess að taka þátt í kostnaði við vegi að sumarbústaðahverfum, þar sem er um allverulega byggð að ræða, en á síðari árum hafa slík byggðahverfi komið upp á nokkrum stöðum á landinu, eins og Ölfusborgir skammt frá Hveragerði eða í Ölfusinu, í Munaðarnesi í Borgarfirði og Svignaskarði og á fleiri stöðum, þar sem orlofsheimili hafa verið byggð vegna starfshópa, þar sem félög þeirra hafa komið sér upp slíkum byggingum og hafa að sjálfsögðu orðið að leggja vegi vegna þess. Hér er um heimild að ræða til þess að aðstoða við þessa vegagerð ef óskað er eftir og ástæða er til.

Þá er og með þessu frv. gert ráð fyrir þeirri breytingu að áður fyrr var vegafé á vegáætlun ákvarðað og skipt á einstaka vegi til 4 ára í senn með endurskoðun annað hvort ár, en nú hefur verið horfið frá þessu með þessu frv. Er gert ráð fyrir að skipta aðeins til 3 ára, þannig að það verði hægt á 4. árinu að leiðrétta það, sem aftur úr hefur dregist vegna verðhækkunar. Er hér byggt á þeirri reynslu, sem orðið hefur, þar sem verðhækkun í okkar landi hefur verið veruleg eins og kunnugt er. Þetta ákvæði er talið mjög til bóta, að koma því hér við til þess að hafa vegáætlun sem raunhæfasta og hún gefi mynd af því sem gert er ráð fyrir að framkvæmt verði á því tímabili sem hún nær yfir.

Þá er og í þessu frv. að finna breytingu á kafla þeim sem snýr að því fjármagni sem gengur til þéttbýlisvega. Í fyrsta lagi er þar um að ræða að það var gert ráð fyrir að í staðinn fyrir að kauptún með 300 íbúa nyti þess, eins og er í núgildandi lögum, gengi þetta í þá átt að það yrði um 200 íbúa að ræða. Í hv. Ed. var hins vegar gerð breyting á þessu og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa þá grein eins og hún er, en það er nokkur breyting frá því sem frv. gerði ráð fyrir. Hún er svo hljóðandi:

„Af heildarframlagi því, sem veitt er til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum samkv. 32. gr., skal árlega halda eftir 25%, og skal því fé ráðstafað af fjvn. Alþ. að fengnum till. vegamálastjóra til að flýta gerð vega og gatna með bundnu slitlagi, þar sem sérstök ástæða þykir til að ljúka ákveðnum áfanga eða til að stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum. Heimilt er að láta þetta ákvæði einnig ná til þéttbýlis með færri en 200 íbúa.“ Hér eru ekki sett endanleg takmörk um íbúafjöldann, en það er sem sagt skylt að þetta gangi til þeirra staða, sem eru með 200 íbúa eða fleiri, en heimild til þess að íbúamarkið sé neðar.

Þá er í þessu frv. að finna ákvæði, sem er nokkur breyting frá gildandi lögum, og urðu um það dálítið skiptar skoðanir í hv. Ed., þótt þær væru ekki verulegar. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að 10% af þeim tekjustofnum, sem eru samkv. vegalögunum, sé haldið eftir, og vegamálastjóri ásamt samgrh. höfðu rétt til þess að skipta þessu fé og þá var það notað til þess að hraða þeim framkvæmdum, sem mest nauðsyn bar til að hraða. En í þessu frv., eins og það nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir að þetta verði 25% í staðinn fyrir 10%. Í hv. Ed. kom fram till. um 35%, sem var felld, en hér er sem sagt gert ráð fyrir því að það geti verið um 25% að ræða, sem þannig yrði ráðstafað. Sú breyting er einnig gerð á þessu núna að ráðstöfunarrétturinn er færður til fjvn. eftir till. vegamálastjóra, en er ekki hjá vegamálastjóra og ráðh. eins og áður var.

Ástæðan til þess, að þetta er gert, er sú að kostnaður við vegaframkvæmdir er, eins og ég gat um áðan, orðinn allverulega meiri en áður var og ber oft brýna nauðsyn til að reyna að styðja aðila í að hraða framkvæmdum og það hefur verið gert með þessum hætti. Reynslan af þessu fé, sem til þéttbýlisvega hefur gengið á þessu tímabili, er þessi, og ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp upplýsingar sem vegamálastjóri hefur látið mér í té:

„Frá því að nýju vegalögin tóku gildi 1. jan. 1964 hafa framlög til þjóðvega í þéttbýli samkv. 32. gr. vegalaganna numið 847.4 millj. kr. Af þessari heildarupphæð hefur 762.6 millj. kr. verið skipt eftir höfðatölureglunni til kaupstaða og kauptúna með yfir 300 íbúa. í hlut Reykjavíkurborgar hafa komið 362.1 millj. kr. eða 47.5%. Á sama tímabili hefur framlag samkv. 34. gr., 10% sjóðsins, numið alls 84.8 millj. kr. og hefur mestur hluti þeirrar upphæðar farið til Hafnarfjarðarvegar í Kópavogi og Suðurlandsvegar um Selfoss.

Fyrsta reglugerðin um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum, þéttbýlisvegi, var sett 8. mars 1965. Í þeirri reglugerð var ákveðið að þéttbýlisvegamörk austan Reykjavíkur skyldu vera við vegamót Elliðavogar og Miklubrautar. Þéttbýlisvegamörkin samkv. ofangreindri reglugerð voru yfirleitt alls staðar sett við ystu byggð, en undantekning frá þeirri reglu voru þó þéttbýlisvegamörkin við enda Miklubrautar vestan við Elliðaár. Það hafði verið um það gert samkomulag við meðferð málsins á Alþ. að þéttbýlisvegamörkin skyldu í hinni fyrstu reglugerð vera á þessum stað þó að nokkur byggð væri þá þegar komin austur fyrir Elliðaár. Í þessari reglugerð var ekki gert ráð fyrir því að Reykjanesbraut frá enda Miklubrautar vestan við Elliðaár að Kópavogi og Garðahreppi og til Hafnarfjarðar væri þjóðvegur í þéttbýli. Hins vegar var Hafnarfjarðarvegur frá Fossvogslæk um Kópavog að Kópavogslæk talinn þjóðvegur í þéttbýli í Kópavogskaupstað.

Með reglugerð nr. 410 1973, sem tók gildi 1. jan. 1974, voru þéttbýlisvegamörkin austan Reykjavíkur færð frá enda Miklubrautar að Höfðabakka, og jafnframt var Reykjanesbraut frá Miklubraut að Breiðholtsbraut gerð þjóðvegur í þéttbýli. Framkvæmdir voru á Vesturlandsvegi í Elliðaárdal og um Ártúnshöfða að Höfðabakka og Reykjanesbraut frá Miklubraut að Breiðholtsbraut. Vegna undirbúningsframkvæmda að byggingu Breiðholtshverfis var árið 1967 varið 8.5 millj. kr. til lagningar Reykjanesbrautar frá Miklubraut að Breiðholtsbraut. Þetta mundi svara til 33.8 millj. kr. nú. Á árunum 1965-1970 reis upp nýtt bæjarhverfi austan við Elliðaár sem nefnt var Árbær. Vegna þessarar nýju byggðar jókst umferð um Vesturlandsveg um Elliðaárdalinn og Ártúnsbrekkuna það mikið að óhjákvæmileg.t var talið að endurbyggja þann veg og var það gert á árunum 1969–1970, en götulýsing var fyrst sett árið 1973. Kostnaður við þessar framkvæmdir frá enda Miklubrautar að Höfðabakka nam á verðlagi hvers árs fyrir sig um 108.7 millj. kr.

Geta má þess til fróðleiks að allt þéttbýlisvegafé til Kópavogskaupstaðar samkv. 32, gr. vegalaganna frá 1964–1973 var 37.4 millj. kr. og fór allt til lagningar Hafnarfjarðarvegar.

Að lokum skal þess getið að samkv. yfirliti frá gatnamálastjóra Reykjavíkurborgar frá 6. f. m. hefur borgin varið til þjóðvega í þéttbýli 424 millj. kr. á árunum 1964–1974 eða 82 millj. meira en ríkisframlaginu nemur.“

Þessa er hér getið til fróðleiks og ég vil taka fram í sambandi við þetta ákvæði út frá því sem fram kom í hv. Ed. að hér er fyrst og fremst um það að ræða að reyna að hagnýta sér möguleika á því að nota hluta af þessu fé til þess að hraða framkvæmdum þar sem ekki væri hægt að koma þeim áfram með öðru móti, en teljast hinar nauðsynlegustu framkvæmdir, eins og gert hefur verið bæði í Kópavogi og með Selfossframkvæmdinni sem ég tel báðar hinar nauðsynlegustu framkvæmdir. Sama varð ofan á hjá Alþ. á sínum tíma um brúna yfir Elliðaár og veginn upp Elliðaárbrekkuna. Frá mínum bæjardyrum séð og fleiri þm., sem þá voru hér á hv. Alþ., var hér um að ræða sameiginlegt átak í vegagerð þjóðarinnar allrar til þess að keyra hér inn í og út úr höfuðborginni þó að það mætti segja að þetta væri innan takmarka borgarinnar.

Ég lít því svo á að hér sé ekki um það að ræða að það sé verið að ráðast á neinn í þessu sambandi heldur er verið að gera tilraun til þess að hagnýta þessa fjármuni betur og hraða nauðsynlegum framkvæmdum, enda er það fé, sem nú er til skipta í sambandi við þennan 10% sjóð eins og hann var upphaflega kallaður, orðið miklu meira en áður var vegna þess hvað miklu meira fé er varið í heild til vegagerðar en var gert þegar lögin voru upphaflega sett.

Ég vona því að það takist um þetta frv. hér í hv. Nd. sæmileg samstaða eins og var í hv. Ed. Nauðsyn ber til að málið nái fram að ganga á þessu þingi og það sem fyrst því að vegáætlun sú, sem lögð verður fram á morgun, byggist á þeim breytingum sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en legg til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. samgn.