07.04.1975
Neðri deild: 63. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2757 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

140. mál, gatnagerðargjöld

Frsm. (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi flutti félmn. frv. til l. um breyt. á l. um gatnagerðargjöld. Nefndin flutti frv. að beiðni stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, en nm. áskildu sér rétt til að vera óbundnir að fylgi við frv. eins og það þá var orðað. Félmn. hefur nú athugað þetta frv. nánar og orðið sammála um afgreiðslu þess eins og fram kemur á þskj. 394, en 3 nm. voru fjarverandi afgreiðslu málsins. Nm. urðu sammála um að flytja brtt. við frv. og er hún á þskj. 395. Til þess að ekkert fari hér á milli mála skal ég í sem fæstum orðum rekja gang þessa máls.

Á síðasta ári voru samþ. í fyrsta sinn lög um gatnagerðargjöld, l. nr. 51/1974. 4. gr. l. kvað á um það að heimilt væri að leggja gatnagerðargjald á fasteignir við þær götur sem bundið slitlag væri sett á og þar sem gangstéttir yrðu lagðar. Með þessu var fengin heimild til að leggja þetta gjald á lóðir, sem þegar voru byggðar, um leið og slitlag væri sett á götuna. Ýmsir höfðu þann skilning að heimilt væri að innheimta gjaldið, þótt slitlagið hefði verið lagt fyrir gildistöku laganna, en sá var ekki skilningur félmrn. Því var frv. þetta flutt, eins og það er á þskj. 262, þ. e. að heimildin til álagningar skyldi ná til gatna, sem slitlag hafði verið sett á og þar sem gangstéttir höfðu verið lagðar.

Ástæður fyrir óskum ýmissa sveitarfélaga, að heimildin yrði rýmkuð með þessum hætti, voru einkum þær að með hinu þrönga ákvæði væri gagnið að heimildinni takmarkað, auk þess sem augljóst óréttlæti mundi skapast milli húseigenda, a. m. k. í sumum sveitarfélögum. Þetta átti við í þeim sveitarfélögum, sem á allra síðustu árum hafa lagt bundið slitlag á fáeinar götur og eru nú í miðju verki ef svo má segja. Skv. gildandi l. er heimilt að innheimta gjaldið hjá þeim, sem fengu slitlag á götur sínar 1974 og þá framvegis, en ekki þeim sem fengu það 1973 eða fyrr.

Félmn. fellst á þetta sjónarmið, að um óréttlæti kunni að vera að ræða, en hins vegar náist ekki samstaða um fylgi við frv. óbreytt. Ástæðan er sú, að einstakir þm. eru ekki reiðubúnir til að samþ. svo rúma heimild til sveitarstj. sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. að heimilt sé að innheimta gatnagerðargjöld af öllum fasteignum, sem standa við götur með bundnu slitlagi, án tillits til þess hvenær slitlagið var sett.

Persónulega tel ég enga hættu vera hér á ferðum, sveitarstjórnum sé fyllilega treystandi til að misbeita ekki valdi sínu með því að fara að leggja gatnagerðargjöld á fasteignir, sem fengu slitlag á götur sínar fyrir t. d. 20–40 árum. Ég er reyndar viss um, að þær sveitarstjórnir, sem lengst hafa notað sér heimild til að leggja á gatnagerðargjöld, svo sem Reykjavík, Kópavogur, Garðahreppur, sem hafa innheimt þessi gjöld um 15–18 ára skeið, mundu ekki notfæra sér þessa heimild, þ. e. a. s. með álagningu aftur í tímann. En til þess að koma þessu máli fram þannig að þeir, sem raunverulega hafa hér hagsmuna að gæta, fái þá heimild sem dugar, varð samkomulag í n. um að breyta frv. á þá leið, sem getur á þskj. 395, þ. e. að binda afturvirkni álagningarheimildar við 5 ár. Þetta þýðir í raun það, að þau sveitarfélög, sem með skipulegum hætti hófu lagningu slitlags á götur sínar 1970 eða síðar, fá þessa heimild til þess tíma, en ekki lengra aftur í tímann. Með þessu móti ætti sæmilegt réttlæti að nást, íbúum við einstakar götur í sama sveitarfélagi verði ekki mismunað, sveitarfélög fái nauðsynlegan tekjustofn til að standa undir framkvæmdum, sem ég vil segja að allir íbúar hvers þéttbýlisstaðar vilja að verði unnar og eru tilbúnar að leggja fram fé til.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég vonast til að hv. þdm. geti fallist á frv. eins og það nú er komið frá hv. félmn. þannig að það geti fengið greiða leið gegnum þingið.