09.04.1975
Efri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

209. mál, félagsráðgjöf

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um lögverndun bæði á starfa og starfsheiti félagsráðgjafa og það er flutt að beiðni Stéttarfélags ísl. félagsráðgjafa, en það hefur lagt á það áherslu að fá lögverndað bæði starfsheitið og starfið. Enn fremur má geta þess, að Evrópuráðið samþykkti ályktun um félagsráðgjafa 29. júní 1967, um hlutverk þeirra, menntun og stöðu í þjóðfélaginu. Varðandi stöðu félagsráðgjafa segir í þessari ályktun:

„Þar eð sjálfsagt er að félagsráðgjafar njóti viðurkenningar sem sé í samræmi við þá ábyrgð sem þeir bera í starfi sinu, er mælt með eftirfarandi aðgerðum: Gerðar séu ráðstafanir, þar sem þörf krefur og eftir því sem framkvæmanlegt er, til þess að vernda í hverju landi fyrir sig sérgreint stöðuheiti menntaðra félagsráðgjafa.“

Heilbr.- og trmrn. taldi rétt að verða við þessum tilmælum Stéttarfélags ísl. félagsráðgjafa og eins með tilliti til þessarar samþykktar Evrópuráðsins.

Starfssvið félagsráðgjafa er mjög víðtækt og nær yfir bæði fyrirbyggjandi og endurhæfandi starfsemi. Flestir þeirra vinna á opinberum stofnunum svo sem félagsmálastofnunum, sjúkrahúsum, heilsuhælum, heilsuverndarstöðvum, geðverndarstöðvum, endurhæfingarstöðvum, tryggingastofnunum almannatrygginga, í skólum, við fangahjálp og við fjölskylduráðgjöf o. fl. Þó að þessi menntun eigi sér ekki stað hér á landi, þá er það staðreynd að það eru næstum því 20 meðlimir í þessu félagi, við nám í félagsráðgjöf eru eitthvað í kringum 20 nemar og lög hafa verið sett um starfsheiti og starfa annarra stétta sem ekki hafa notið náms hér á Íslandi. Því þykir okkur í heilbr.- og trmrn. eðlilegt að lögvernda starfsheiti félagsráðgjafa.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til heilbr.- og trn.