09.04.1975
Efri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

226. mál, hússtjórnarskólar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að taka upp neina þrætu við hv. 5. þm. Norðurl. v., m. a. af þeim ástæðum að ég er honum sammála um að það sé næsta nauðsynlegt að gott samstarf sé með rn. ok Alþ. Það er tvennt sem hann gagnrýndi í sinni ræðu, fannst mér, efnislega séð. Annars vegar það, hversu frv. eru seint lögð fram á Alþ., jafnvel þó að mönnum virðist ærinn möguleiki til þess að þau komi snemma fram. Ég er honum sammála um að þetta er afleitur siður og ég hef hugsað mér að gera það sem í mínu valdi stendur, á meðan ég vinn í menntmrn., til þess að breyta þessum síð, þannig að þau frv., sem fram koma frá þessu rn. og ekki eru þá alveg ný af nálinni og koma úr vinnslu eftir að langt er líðið á þing, verði lögð snemma fyrir Alþ. Það hafa auðvitað á öllum tímum ýmsar ástæður orðið þess valdandi að svona hefur þetta gengið til. Það getur varla annað verið, annars væri það ekki einleikið, hvernig þessi saga endurtekur sig ár eftir ár, ekki einasta frá þessu rn., heldur frá ýmsum fleirum.

Ég get einnig tekið undir það, að það er mjög æskilegt að nýta eftir því sem hægt er þá vinnu, sem unnin er á Alþ. hverju sinni við meðferð þeirra frv. sem ekki ná afgreiðslu á þessu eða hinu þinginu, að nýta hana við undirbúning mála áður en þau eru lögð fram á næsta Alþ. Stundum eru svo kannske vissar ástæður fyrir því að flytjendur frv. og þá t. d. viðkomandi rn. telja rétt að sýna þau aftur í sömu mynd, þrátt fyrir ágreining sem orðið hefur á Alþ. og þrátt fyrir till. einnar þd. um að breyta þeim. Mér dettur t. d. í hug frv. um viðskiptamenntun. Það hafði hlotið meðferð hér í þessari hv. d. og verið gerðar á því nokkrar breyt. Þetta var rætt í menntmrn. varðandi þetta frv. En mönnum þótti samt sem áður og m. a. með tilliti til breyttrar skipunar þingsins rétt að sýna það frv. eins og það var fram lagt í fyrstu og láta skoða það aftur og það því fremur sem það auðnaðist nú þó að leggja það fram nokkuð snemma á þinginu. Og svo er þetta líka stundum þannig, að rn. getur ekki fallist á allar till. þingsins og vilt reyna til þrautar þá tilhögun sem það telur eðlilega. Mér dettur í hug eitt atriði úr þjóðleikhúslögunum þar að lútandi. Það er sú skipan, sem þar er lagt til að verði gerð á þjóðleikhúsráði. Það er hugsað sem nokkuð fjölmennt ráð er komi saman tvisvar á ári, minnir mig, launalaust og ræði útlínur í starfsemi leikhússins. Í frv. núna er þessu haldið í aðalatriðum, þrátt fyrir það að þingið hefði í meðferð sinni komist að annarri niðurstöðu. En hins vegar er þó ein veigamikil breyt. á þessu ákvæði — án þess að ég muni nú eftir umr. um þetta á sínum tíma — sem ég gæti trúað að hafi ráðið nokkuð miklu um það að þingið snerist öndvert gegn þessari tilhögun, og það er kosningatilhögunin sjálf. Það er óvenjulegt, eins og þá var stungið upp á, að flokkarnir tilnefndu beint í svona n., heldur að fram fari hlutfallskosning. Það er miklu venjulegra og er lagt til núna að það sé gert og haldið hinu, að hafa ráðið fjölmennt og svo aftur fámenna framkvæmdastjórn.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að taka upp karp við hv. þm., því að ég er honum fyllilega sammála um að það er höfuðnauðsyn að á milli ru. og þingsins ríki gott samstarf og að sú vinna sem unnin er á hvorum staðnum fyrir sig nýtist sem best við undirbúning þingmálanna.