09.04.1975
Neðri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Tómas Árnason:

Hv. forseti. Ég vil fagna því, að hv. 3. þm. Austurl. fellst á að gera breyt. á till. þeirri til þál. um beislun orku og orkusölu á Austurl., sem hann er flm. að, á þá leið að málið beinist inn á þær brautir að fyrst og fremst verði lögð áhersla á rannsóknir á Fljótsdalsvirkjun eystra og niðurstaðan af þessum rannsóknum verði síðan undirstaða þess, sem síðar kann að verða, og menn taki ekki ákvarðanir fyrr en niðurstöður rannsókna liggja fyrir.

Það hefði verið æskilegt að hæstv. iðnrh. hefði verið við þessar umr. vegna þess að ég beindi til hans nokkrum spurningum, að vísu almennum, í umr. um þetta mál á dögunum, sem voru sérstaklega varðandi skipulag raforkumálanna í heild. En ég vonast til þess að síðar meir fáist tækifæri til að ræða þau atriði nánar.

Eins og hér hefur komið fram áður er þetta rannsóknamál á Fljótsdalsvirkjuninni æðimikið mál. Það er reiknað með að það muni kosta 200–300 millj. kr. að gera fullnægjandi rannsóknir á þessum virkjunarstað og að slík rannsókn muni taka a. m. k. 3 ár þannig að niðurstöður slíkra rannsókna mundu þá ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1978 eða jafnvel 1979. Ég hef kvartað yfir því hér í umr. um raforkumálin hve rannsóknum á hinum ýmsu virkjunarstöðum virðist vera áfátt, og menn virðast standa frammi fyrir því, þegar um er að ræða stærri virkjanir, að það sé aðeins einn möguleiki til staðar, fullnaðarrannsóknir vanti til þess að menn geti valið á milli kosta.

Raforkumálin eru eflaust ein allra þýðingarmestu framkvæmdarmál sem þarf að sinna um þessar mundir og framkvæmdirnar eru geysilega fjárfrekar. Mistök í þessum efnum geta því verið þjóðinni dýr þegar þarf að nýta hverja krónu eins og framast er unnt á sem skynsamlegastan hátt. Það hlýtur að vera markmiðið og sú spurning raunar, sem menn spyrja um í sambandi við virkjunarstaði og virkjunarmöguleika, hvar sé hægt að framleiða ódýrasta raforku, hvað hún kosti minnst fyrir þjóðina. En slíkri spurningu geta menn auðvitað ekki svarað nema fyrir liggi nægilegar rannsóknir á nokkrum virkjunarstöðum.

Ég er ekki dómbær á slíka hluti, en ég hef áður látið þá skoðun í ljósi að þeir möguleikar, sem eru til framleiðslu ódýrrar raforku í Fljótsdal eystra, eða Fljótsdalsvirkjunin, kunni e. t. v. að vera þeir allra hagkvæmustu sem fyrirfinnast á öllu landinu. Ég veit það ekki, og það veit sjálfsagt enginn. En það er tvennt, sem þarna er um að tefla sem er ákaflega verðmætt. Það er annars vegar að þarna eru miklir vatnsmiðlunarmöguleikar og svo hitt, þarna er um að ræða óvenjulega mikið fall, 500–600 m fallhæð. Ég harma það að við skulum ekki vera komnir lengra í rannsóknum á þessu sviði en raun ber vitni og þess vegna ekki betur í stakk búnir til að velja þá möguleika, þegar um stærri virkjanir er að ræða, sem kosta minnst fjármagn. Þess vegna held ég að það sé ákaflega þýðingarmikið að við leggjum áherslu á rannsóknamál á sviði orkumálanna og verjum meira fé til rannsókna en gert hefur verið hingað til.

Ef við víkjum að Austurl. sérstaklega, þá er ástandið í orkumálunum þar, þrátt fyrir það að Lagarfossvirkjun er nú fullgerð, þó að þar sé að vísu eftir að setja upp lokur fyrir meiri vatnsmiðlun en nú er, í stuttu máli þannig að heildarvatnsaflsorka eða vatnsafl á Austurl. er um 12.5 mw. Það eru 5 vatnsaflsvirkjanir, þ. e. Lagarfljót eða Lagarfoss, Grímsárvirkjun, Smyrlabjargaárvirkjun og síðan tvær litlar virkjanir, báðar gamlar raunar, önnur á Seyðisfirði og gömul virkjun á Reyðarfirði. Samtals er hér um að ræða afl 12.5 mw., þegar þessar virkjanir eru allar í toppafköstum. Nú er vitað mál að á þeim tímum, þegar þörfin er hvað mest, munu áreiðanlega hvorki Lagarfossvirkjun né Grímsárvirkjun geta framleitt nándar nærri toppafköst. En á sama tíma og toppafköstin eru 12.5 mw. er þörfin á þessu ári 14.5 mw., þ. e. a. s. 2 mw. meira en hægt er að fullnægja nú, og þessi þörf fer vaxandi á næstu árum. Ástandið í þessum efnum eystra er því hvergi nærri gott, og ég vonast til að það verði ekkert slakað á þeim áformum sem uppi eru í sambandi við virkjunarmál á Austurlandi. Það verður í fyrsta lagi að ganga sem allra fyrst fullkomlega úr skugga um það, hvort Bessastaðaárvirkjunin er raunhæf vegna þess að sú virkjun hentar í raun og veru mjög vel því sem við blasir í raforkumálum Austurlands. Hér er um að ræða virkjunarmöguleika upp á 25–32 mw. og hugsanlegt að slík virkjun geti komist í notkun kringum 1980, e. t. v. á árinu 1979.

Síðan eru aðrir möguleikar ef svo færi, sem hugsanlegt er, en ég vil ekkert fullyrða um á þessu stigi málsins, að lokaniðurstöður rannsókna við Bessastaðaárvirkjun leiddu í ljós að ekki væri unnt að ráðast í virkjunina. Þá er ástandið í þessum málum eystra mjög alvarlegt. Þess vegna þyrftu raunverulega að fara fram rannsóknir á virkjunarmöguleikum á ýmsum stöðum fyrir minni virkjanir, ef skynsamlegt þætti að ráðast í þær í næstu lotu ef Bessastaðaárvirkjun yrði ekki byggð. Ég vil nefna í þessu sambandi rannsókn á Fjarðará á Fjarðarheiði í Seyðisfirði, Hvammsá í Vopnafirði og Fossá í Berufirði. Það hefur komið í ljós nú alveg nýlega að virkjunarmöguleikar í Fossá í Berufirði eru miklu meiri en menn áður hafa álítið. Þar er nýr hönnunarmöguleiki sem er fólginn í því að grafa jarðgöng í gegnum fjall niður í Berufjörð og fá þannig geysilega mikið fall og byggja þar virkjun sem hugsanlega gæti verið svipuð að orkuframleiðslu til og Kröfluvirkjun eða 55–60 mw. Það kunna að leynast ýmsir fleiri möguleikar, ekki aðeins á Austurlandi, heldur víðar, sem koma í ljós þegar rannsóknum miðar meira áfram en nú er.

Síðan þarf að byggja lokur í Lagarfoss sem hefur verið áætlað að kosti um 170 millj. kr. Það verk þarf að vinnast hvað sem öðru líður. Þeir, sem fjalla aðallega um þessi málefni eystra, eru þeirrar skoðunar að það væri nauðsynlegt að gera 10 ára orkuáætlun fyrir landshlutann.

Þá kemur einnig til greina í þessu sambandi og er raunar sjálfsagt framtíðarmál að tengja Kröfluvirkjun við Austurland. Það er sérstakt mál sem þarf að vinna að, hvað sem öðru líður. En þrátt fyrir það verður grunnaflsvirkjun alla vega að vera til á Austurlandi. Það er auðvitað visst öryggisleysi að verða að treysta alfarið á línu frá Kröfluvirkjun. Þess vegna verða grunnaflsvirkjanir að vera til. Þeir möguleikar, sem ég hef verið að rekja, eru þeir helstu, sem menn hafa komið auga á. En ég vil fagna því að hv. 3. þm. Austurl. vill reyna að ná samstöðu um till., sem er fólgin í rannsóknaráætlun um Fljótsdalsvirkjun, og ég vonast til að það mál fái góðar undirtektir.