10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þá er alveg ljóst að við erum sammála. Þó hefur slæðst inn hugsanlegur misskilningur. Það er alls ekki skoðun mín, að það eigi að láta nægja að stækka sýruverksmiðjuna. Ég álít það eðlilegt fyrsta skref í stækkun Áburðarverksmiðjunnar, eins og reyndar kom fram í hans framsöguræðu. Ég álít að það eigi að stefna alveg markvisst að því að framleiða þann áburð, sem við þurfum hér heima, eða ammoníakáburð allan. Við þurfum engu að síður að flytja inn talsvert magn af áburði. Við mundum flytja inn, miðað við aðstæður í dag, 6 000 tonn af kalíi og 14–15 þús. tonn af fosfór, en við eigum að stefna að því að framleiða ammoníakið allt heima. Og ég vil einnig undirstrika það, sem hann sagði, það er einnig skoðun mín að athugun á stærri verksmiðju eigi ekki að verða til þess að seinka athugun á stækkun Áburðarverksmiðjunnar.

En ég bað um orðið áðan fyrst og fremst til að leiðrétta ýmislegt sem mér fannst koma fram hjá hæstv. landbrh. Annaðhvort hefur hann mjög svo misskilið mín ummæli eða er að óþörfu hörundssár í þessu sambandi. Ég held ég hafi ekkert sagt sem væri sérstök ádeila á hann. Ég gat þess alveg sérstaklega að þessi stefna, sem ég er að gagnrýna, hefur ríkt allt frá því að Áburðarverksmiðjan hóf starfsemi sína.

Ég lýsti alls engri andstöðu við þessa ályktun, langt frá því, en svo fannst mér að skilja mætti ummæli hæstv. ráðh. Ég lýsti sérstökum stuðningi við hana, hef gert það í n. og geri það enn. Ég held að það hljóti að vera einhver misskilningur.

Ég sagði heldur aldrei að það ætti bara að fela starfsmönnum Áburðarverksmiðjunnar athugun á stækkun. Ég lýsti því yfir í sambandi við stækkun Áburðarverksmiðjunnar sjálfrar að til þeirra athugana væru starfsmenn verksmiðjunnar langsamlega færastir og raunar, hygg ég, þeir einu sem eru færir um að athuga þann þáttinn. Ég held að þeir verði að bera uppi hita og þunga þeirrar athugunar. Ég hef ekkert á móti því að fleiri komi þarna að og sérstaklega í sambandi við nýja stóra verksmiðju. Þar er um töluvert annað að ræða og raunar að ýmsu leyti mál sem byggja verður á öðrum grundvelli en til er í Gufunesi.

Ég lýsti heldur aldrei andstöðu við niðurgreiðslur á frumstigi, en svo mátti skilja orð hæstv. ráðh. Þvert á móti sagðist ég vera í grundvallaratriðum fylgjandi niðurgreiðslu á frumstigi. Það eina, sem ég sagði um það og vil endurtaka, er að ég álít að Áburðarverksmiðjan hf. eigi ekki né geti borið slíka niðurgreiðslu. Ég er þeirrar skoðunar að slíkt fyrirtæki eigi að hafa viðunandi rekstraraðstöðu og fá viðunandi tekjur, þannig að það þurfi ekki að leita nálægt því daglega á náðir hæstv. ráðh. til þess að fá viðbótarlán til rekstrar. Þetta álít ég skakkt. Ég lýsti hins vegar þeim skilningi mínum að áburðarverði yrði að halda niðri. Það er bundið ýmsum öðrum þáttum í okkar efnahagslífi. Ég tel því að viðleitni hæstv. ráðh. og ríkisstj. til útvegunar fjármagns í þessu sambandi eigi að beinast að því að greiða niður áburðinn sem slíkan, en jafnframt að tryggja fyrirtækinu viðunandi rekstrarfjárstöðu.

Það var aldrei hugmynd mín, en þannig mátti einnig skilja hæstv. ráðh., að fyrirtækið ætti t. d. að kosta að öllu af eigin fjármagni þá viðbót sem lokið var 1972. Ég held að það sé ekkert fyrirtæki sem það mundi gera. Hins vegar er ákaflega æskilegt að stórt og gott fyrirtæki geti staðið undir nýjum lánum til nýrra framkvæmda og lagt fram viðunandi eigið fjármagn. Talið er mjög eðlilegt að eigið fjármagn í svona fyrirtækjum sé — ja, við skulum segja í kringum 25–30 af hundraði. Ég held að þetta sé nokkuð viðtekin krafa fjármálaaðila og sérstaklega fjármögnunarstofnana eins og banka. Áburðarverksmiðjan hefur ekki neitt slíkt. Áburðarverksmiðjan hefur ekki einu sinni fjármagn til að kosta athugun eins og hér er um að ræða svo að það má segja að það sé kannske tómt mál að fela henni þetta.

Ég veit að ákaflega mikill tími ráðh., eins og kom fram, hefur farið í að leysa úr rekstrarfjárþörfum Áburðarverksmiðjunnar, og það er ekki eingöngu núv. hæstv. landbrh. heldur allir landbrh. sem ég þekki til. Ég sat um tíma í stjórn Áburðarverksmiðjunnar og þekkti mætavel það ástand sem ríkti og var það fyrir landbrh.- tíð hæstv. núv. landbrh. Það er þetta sem ég er að andmæla. Ég get tekið fram að hæstv. núv. landbrh. hefur sannarlega ekki staðið sig lakar í að útvega rekstrarfé en hinir fyrri, langt frá því. Hann hefur gert það með ágætum þó að stundum hafi þetta verið komið í mestu erfiðleika. Ég ætla ekki að þylja upp tölur um þá skuldasöfnun sem átt hefur sér stað á rekstrarárum Áburðarverksmiðjunnar.

Þetta vil ég að komi fram. Þetta er engin gagnrýni á núv. hæstv. landbrh. sérstaklega, en ég vona að hann hafi skilið orðin sem harða gagnrýni almennt á þá afstöðu sem ríkt hefur frá upphafi til þessa fyrirtækis. Ef við reisum fyrirtæki verður það að fá aðstöðu til að safna viðunandi rekstrarfé og a. m. k. að fá einhvern kjarna í þær nauðsynlegu stækkanir og endurbætur sem hvert einasta fyrirtæki hlýtur að stefna að og þarf. Það er þetta sem ég er að leggja áherslu á. Ég vara við þeirri þróun sem hefur orðið.