10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

184. mál, ráðstöfun fjár vegna óinnleystra orlofsmerkja og vaxta

Karvel Pálmason; Herra forseti. Þáltill. þessi er að mínu áliti góðra gjalda verð og það er vissulega rétt, sem hv. frsm. og 1. flm. tók hér fram áðan, að auðvitað er miklu nær að þeir fjármunir, sem þarna er um að ræða, renni til verkalýðshreyfingarinnar en að þeir fari í ríkissjóð. Ég hygg að a. m. k. allir verkalýðssinnaðir menn geti verið sammála um það. En ef ég skil þetta rétt fjallar þessi till. einvörðungu um það fjármagn, sem ekki er leyst út vegna orlofsbóka eða orlofslaga frá þeim árum þar til breyt. var gerð með lögum 1972 eða 1973, ég man nú ekki hvort heldur var. En mér er a. m. k. tjáð að það hafi komið í ljós síðan núv. löggjöf var upp tekin að þar verði líka um allmikla fjármuni að ræða, sem ekki verði leystir út af viðkomandi einstaklingum, sem fá það greitt í orlofi, þannig að ég hygg að það verði um miklum mun meiri fjárhæð að ræða sem kemur til með að renna til ríkissjóðs en þessar 20 millj. sem eru vegna fyrri löggjafar. Það er alltaf meira og minna um það að viðkomandi launþegar, sem fá orlofsgreiðslur, innleysi þær ekki og þá kemur þetta sjálfsagt til með að renna í ríkissjóð. Ég held að það þyrfti að taka það með líka inn í dæmið.

Ég held að það fari ekki hjá því að við umr. sem þessa hljóti að verða að vekja athygli á því að sú löggjöf, sem nú er í gildi og varðar orlofið, og þá kannske fyrst og fremst það kerfi, sem er í gildi varðandi greiðslur, e.r að mínu áliti mjög gallað. Ég hygg að a. m. k. stór hópur launþega geti verið mér sammála um það að það eru stórgallar í framkvæmd á því kerfi sem nú er í gildi. Það er mikill misbrestur á því að orlof sé greitt inn til Pósts og síma, og ég hygg að það sé líka æðimikill misbrestur á því að því sé fylgt eftir af þeirri stofnun að orlof sé greitt inn sem búið er að taka af launþegum, þannig að ég held að kannske ekki síst verkalýðshreyfingin ætti að taka upp baráttu fyrir breyt. á þessu, a. m. k. að kerfið verði lagfært þannig að orlofsgreiðslur, sem búið er að taka af launþegum hjá viðkomandi vinnuveitanda, komist til skila til Pósts og síma. Það munu dæmi þess, að það líði fleiri mánuðir frá því að viðkomandi vinnuveitandi er búinn að taka af launþega orlof og þangað til því er skilað til Pósts og síma. Ég tel því þetta kerfi meingallað og hefði verið miklum mun æskilegra eftir þá reynslu, sem fengin er af þessu kerfi, að breyta því á þann veg að gera þetta að smærri einingum þar sem þetta er borgað inn. Að það séu viðkomandi verkalýðsfélög sem geti betur fylgst með því hvernig greiðslum á því orlofi, sem tekið er af launþegum, er skilað til þeirrar stofnunar þar sem þær eiga að fara í. Þá kemur mér fyrst og fremst í hug að það væri ekki óeðlilegt, svona við fljóta yfirsýn, að ætla að viðkomandi peningastofnanir á staðnum geti haft þetta verkefni með höndum gegn ákveðnum reglum.

Ég skal ekki fara um þetta mörgum orðum. Ég persónulega er hlynntur þessari till. og styð hana, en ég vil beina því til þeirrar n., sem þetta mál fær til meðferðar, að hún a. m. k. hugleiði og kanni hvort ekki sé ástæða til að breyta þessu í það horf að það nái einnig til þess fjár sem er eftir hjá Pósti og síma og ekki hefur verið greitt út til viðkomandi launþega skv. nýja kerfinu, því að ég óttast að þar sé um talsvert stórar fjárhæðir að ræða. Auðvitað ætti að stefna að því, og það væri æskilegast, að það væri ekki um slíkt fjármagn að ræða, en sjálfsagt verður ekki hjá því komist að alltaf verður eitthvað um slíkt og þá er því að mínu áliti a. m. k. betur varið til byggingar orlofsheimila verkalýðshreyfingarinnar en að það fari í ríkissjóð. Um það er ég sammála flm. En ég vil sem sagt vekja athygli á því að ég hygg að það þyrfti að skoða frekar hvort ekki er ástæða til þess að breyta þessu í það horf, meðan þetta kerfi er í gildi, að það fé, sem inni stendur eftir lagabreyt., komi líka til með að renna til þessara stofnana, ekki einungis það sem var inni vegna fyrri löggjafar.