10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2852 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

200. mál, lögfræðiþjónusta fyrir efnalítið fólk

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnari Arnalds, leyft mér að flytja þáltill. þá, sem birt er á þskj. 390 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela dómsmrh. að sjá til þess að komið verði á fót lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk, óháðri gjaldskrá Lögmannafélags Íslands.“

Í augum okkar flm. er hér um að ræða jafnréttismál. Það er grundvallarregla íslensks réttarfars að allir séu jafnir fyrir lögunum. En slík regla er aðeins orðin tóm meðan til er fólk sem veigrar sér við að leita lögfræðilegrar aðstoðar sakir efnaleysis. Það er því brýnt að komið sé á fót hið allra fyrsta réttaraðstoð af því tagi sem hér er lagt til. Hér á landi eru að vísu til reglur um gjafsókn og gjafvörn, en þótt þær séu góðra gjalda verðar leysa þær ekki nema lítinn hluta þess vanda sem eiginlegri réttaraðstoð er ætlað að gera. Reglur um gjafsókn og gjafvörn gilda aðeins ef til málshöfðunar kemur. Í fjölmörgum málum, sem upp rísa, þarfnast fólk fyrst og fremst lögfræðilegra leiðbeininga, upplýsinga um rétt sinn og aðstoð við löggjörninga.

Þeir, sem starfa að verkalýðsmálum eða í stéttasamtökum yfirleitt og ýmsum félagssamtökum, vita manna best að þörfin fyrir slíka aðstoð er mjög brýn. Þangað leitar fólk með ýmiss konar vandamál persónulegs eðlis og þó að þessir aðilar reyni auðvitað að gera sitt besta til að sinna hverjum og einum, þá liggur í augum uppi að þar er ekki aðstaða til að fylgja málum eftir, svo sem unnt væri, og oft ekki lögfræðingur eða lögfræðileg ráðgjöf fyrir hendi.

Með stofnun sérstakrar skrifstofu eða þjónustu, hvernig svo sem fyrirkomulagið yrði, mundi verða unnt að leysa þennan vanda fólks. Ef það ætti þess kost að leita slíkrar aðstoðar og fá hana sér að kostnaðarlitlu eða kostnaðarlausu meðan mál eru á frumstigi eru meiri líkindi til að mál leysist farsællega án þess að til málshöfðunar þurfi að koma. Ég vil því leggja áherslu á að hér er líka um varnaðarstarf að ræða og með nauðsynlegri aðstoð þegar á frumstigi er unnt að koma í veg fyrir árekstra sem mundu leiða til málshöfðunar síðar meir.

Réttaraðstoð af því tagi, sem við leggjum til að komið verði á fót, á sér langa sögu annars staðar á Norðurlöndum. Í Danmörku hófst hún þegar fyrir síðustu aldamót, en starfsemin í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur verið í endurskoðun á allra síðustu árum og t. d, svíar búa nú við nýja löggjöf í þessum efnum eða frá árinu 1973. Upplýsingar um fyrirkomulag réttaraðstoðar í þessum löndum má lesa í grein eftir Gunnar Eydal í Tímariti lögfræðinga, 4. hefti 1973, en hann hefur sérstaklega kynnt sér þessi mál.

Ég vil aðeins fara lauslega yfir fyrirkomulag réttaraðstoðar í þessum þremur löndum sem ég nefndi.

Í Danmörk er starfandi sjálfseignarstofnum sem veitir réttarhjálp. Réttarhjálpin þar grundvallast á ólaunaðri þátttöku u. þ. b. 65 lögmanna, en aðeins forstöðumenn og skrifstofufólk taka laun fyrir störf sín. Réttarhjálpin fær fjárstyrk frá einkaaðilum, sveitarfélögum og ríki. Réttur manna til aðstoðar endurgjaldslaust er miðaður við ákveðið mark í tekjum og eignum, en hér munu þó aðeins vera um vissar viðmiðunarreglur að ræða þar sem einstök tilfelli eru metin sérstaklega.

Í Noregi er þessi starfsemi nú á vegum Oslóborgar og önnur sveitarfélög hafa fylgt á eftir. Starfsemin þar í landi er fjármögnuð bæði af ríki og sveitarfélögum. Allar lögfræðilegar upplýsingar, þ. e. a. s. almennar upplýsingar um hina lögfræðilegu hlið mála áður en til málsóknar kemur, eru veittar ókeypis, og eins og í Danmörku njóta þeir einir aðstoðar skrifstofunnar endurgjaldslaust sem eru fyrir neðan ákveðið tekju- og eignamark.

Í Svíþjóð er skv. hinum nýju lögum gert ráð fyrir að 30 ríkisreknar lögfræðiskrifstofur starfi víðs vegar um landið og er hlutverk þeirra að sinna þeirri lögfræðiaðstoð sem lögin gera ráð fyrir. Lögfræðiskrifstofur í einkaeign geta einnig veitt lögfræðiaðstoð í samræmi við hin nýju lög, en þeim er það hins vegar í sjálfsvald sett. Lögfræðiaðstoðin í Svíþjóð er greind í þrjá þætti: 1. Lögfræðilegar upplýsingar. 2. Almenn lögfræðiaðstoð. 3. Lögfræðiaðstoð í sakamálum. Með lögfræðilegum upplýsingum er átt við að allir, einstaklingar og fyrirtæki, eigi rétt á almennum lögfræðilegum leiðbeiningum innan vissra marka á lögfræðiskrifstofum gegn greiðslu 50 kr. sænskra. Ég tek fram að þessar 50 kr. eru miðaðar við árið 1973. Þar er um að ræða viðtal við lögmann í 20–25 mín., þar sem veittar eru lögfræðilegar ráðleggingar, álit um lögfræðilega stöðu viðkomandi og minni háttar lögfræðileg aðstoð, svo sem við útgáfu skuldabréfa, gerð erfðaskráa og kaupmála o. s. frv. Í vissum tilfellum er framangreind aðstoð veitt án endurgjalds, svo sem til lífeyrisþega og annarra sem búa við þröngan efnahag. Verði málið hins vegar ekki leyst á framangreindan hátt kemur til almenn lögfræðileg aðstoð. Slíkt nær einungis til einstaklinga og fer það þá eftir tekjum viðkomandi hvort og hversu mikið þarf að greiða fyrir slíka aðstoð.

Með tilliti til þess, að réttaraðstoð hefur starfað svo lengi annars staðar á Norðurlöndum, má það raunar heitar undarlegt að ekki skyldi hafa verið gert átak fyrr til að koma þessum málum áleiðis hér á Íslandi. Í till, okkar höfum við ekki gert ráð fyrir hvernig framkvæmd þessara mála yrði háttað. Við höfum farið þá leið að fela dómsmrh. að sjá til þess að koma þessari starfsemi á fót í trausti þess að hann muni í samráði við þá aðila, sem láta sig þessi mál skipta og eru þeim kunnugir, athuga þær leiðir sem hentugastar þykja hér á landi. Að vísu hlýtur þó að þurfa að hafa hliðsjón af reynslu Norðurlandaþjóða í þessum efnum. Ég á persónulega erfitt með að hugsa mér að þetta verði gert án tilstyrks hins opinbera, einkum og sér í lagi með tilliti til þess að þá ætti að vera tryggt að þjónustu af þessu tagi yrði komið upp í öllum landshlutum og að enginn ætti því að þurfa að fara varhluta af þessari þjónustu, hvar á landinu sem hann býr.

Ég vil að lokum, herra forseti, geta þess að á síðasta reglulega Alþ. var lagt fyrir Nd. frv. til l. um málflytjendur. Þá flutti ég ásamt þremur þm. öðrum, en aðeins einn þeirra á sæti á Alþ. nú, hv. 3. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, brtt. við frv. um till. til l. um málflytjendur og fjallaði sú brtt. um að komið skyldi á fót lögfræðiskrifstofu er veitti efnalitlu fólki almenna málflutningsþjónustu sem óháð væri gjaldskrá Lögmannafélags Íslands. Um þessa till. spunnust þá allmiklar umr. Þm. sýndu málinu áhuga og veittu því stuðning, en sýndist sitt hvað um framkvæmdina. Niðurstaðan af umr. varð því sú að samkomulag náðist innan allshn. allrar um till. nær samhljóða þeirri, sem hér er flutt, á þeim forsendum að ekkert yrði fram tekið um framkvæmd málsins. Það er m. a. á þessum forsendum sem við höfum tekið þann kost að orða till. okkar á þessa leið. Till. var þá samþ. í hv. Nd. Frv. til laga um málflytjendur hlaut þó ekki fullnaðarafgreiðslu á því þingi og var þá einnig úr sögunni samþykkt um réttaraðstoð til efnalítils fólks.

Ég rek þessa forsögu málsins í þeirri von að það Alþ., sem nú situr, muni veita málinu sama brautargengi og þing það er sat í fyrra. Hæstv. dómsmrh. tók þessu máli þá mjög vel og sagði í ræðu að sér þætti eðlilegt að athugun færi á fyrsta stigi a. m. k. fram á vegum dómsmrn., sem mundi þá sjálfsagt leita til þeirra manna sem þessum málum eru kunnugastir og hefðu kynnt sér þau sérstaklega. En nú er áliðið þings og með hliðsjón af þessum ummælum hæstv. dómsmrh. og samþykkt málsins í hv. Nd. í fyrra vil ég beina þeim tilmælum til n., sem fær mál þetta til athugunar, að hún reyni að hraða afgreiðslu þess þannig að unnt yrði að afgr. það áður en þessu þingi lýkur.

Herra forseti. Ég legg til að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.